Vertu góð fyrirmynd
Unglingur í dag veltur því fyrir sér á allt annan hátt en áður, hver hann sé og hver hann vilji verða. Það eru ýmsar fyrirmyndir , foreldrar, kennarar, vinur eða vinkona og svo allar fjarlægu fyrirmyndirnar eins og íþróttahetjur, poppstjörnur og kvikmyndastjörnur.Framboðið á fjarlægu fyrirmyndunum er mjög mikið.
Fyrir 100 árum hafði unglingurinn engar fyrirmyndir aðrar en foreldrana, sýslumannshjónin, prestshjónin og hetjur Íslendingasagnanna. Í dag eru fyrirmyndirnar mýmargar og ótrúlega nálægar vegna fjölmiðla og netheima.
Unglingur velur sér gjarnan einhverja fyrirmynd og reynir að hegða sér í einu og öllu eins og hún, kannski í einhverjar vikur. Svo verður hann leiður á henni og ákveður að vera einhvern veginn allt öðruvísi. Stundum finnst foreldrum þessar sveiflur öfgakenndar, en þá er ágætt að rifja upp hverjar þeirra fyrirmyndir voru.
Það getur auðvitað verið erfitt fyrir foreldrana, þegar unglingurinn þeirra skiptir um týpu oft á dag. Við getum tekið dæmi um dreng sem hefur valið sér jákvæðan, elskulegan, amerískan dreng í sjónvarpsþætti til fyrirmynda. Hann kveður mömmu sína eftir morgunverðinn og mamma er að sjálfsögðu hæstánægð með drenginn sinn. Svona gengur þetta ef til vill í einhverjar vikur.
En einn daginn lendir hann í útistöðum við einhvern töffarann í skólanum og þegar hann kemur heim í hádeginu er elskulegi, ameríski strákurinn horfinn og Rambó tekinn við. Hann hreytir út úr sér einsatkvæðisorðum, skellir hurðum og er allt í einu orðinn viðskotaillur maður sem trúir á hnefaréttinn. Þrátt fyrir öll þessi umbrot nær unglingurinn ákveðnu jafnvægi. Í flestum tilvikum er því ekkert að óttast.
Foreldrar þurfa að hafa í huga að þegar unglingi finnst hann vera að verða fullorðinn, þá fer hann að prófa sig áfram með ýmislegt sem honum finnst tilheyra fullorðinsárunum. Umgengni hans, til dæmis við áfengi, kynlíf, skemmtanir og útivistartíma, fer að verulegu leyti eftir umgengni hinna fullorðnu við þetta sama.
Ungt fólk er áhrifagjarnt og lærir frekar af því sem þau sjá en heyra, svo vertu góð fyrirmynd.