Hvernig get ég vitað?  

1. Hvernig get ég vitað að unglingurinn minn er byrjaður að neyta vímuefna.?

A) hvernig breytist hegðun, framkoma hans?

B) Hvernig breytist útlit hans?

Kæra foreldri
Það er oft erfitt að átta sig á hvort unglingurinn er byrjaður í neyslu eða hvort hann sé með mjög slæmt tilfelli af "unglingaveikinni". Fæstir foreldrar átta sig fyrr en eftir að börnin eru búin að vera í neyslu í þó nokkuð langan tíma. Þeir vilja trúa barninu sínu og reyna til hins ýtrasta að veita því svigrúm, semja við það og leitast við að ná því inn á rétta braut af sjálfsdáðum. Sjaldnast eru óyggjandi "sannanir" fyrir hendi að barnið sé í neyslu.

Vísbendingar sem vert er að taka eftir eru:

Barnið þitt skiptir oft um vini og er tregt til að láta þig fá síma hjá þeim eða foreldrum þeirra.

Svefninn er eitt af því sem oftast breytist fyrst, en vandinn þarf að vera langvarandi til að skipta máli. Þá á ég við að ekki er um tímabundið ástand sem skapast í skólafríum og því um líkt. Þau sofa illa og/eða lítið/mikið, snúa sólarhringnum við.

Þú stendur barnið þitt ítrekað að lygum eða einhverjum "skrítnum" sögum um af hverju það braut reglur (of seint heim, skrópaði í skólanum, peningar horfnir af heimilinu, eigur þess horfnar úr herberginu, "vinur" á tæki, tól eða efni sem það hefur undir höndum, o.s.frv.).

Barnið þitt lendir í útistöðum við lögreglu og skóla. Allir eru að ofsækja það.

Andleg líðan/hegðun barnsins breytist þannig að það verður mjög skapstyggt, það má ekkert segja við það, jafnvel beitir það ofbeldi eða eyðileggur hluti. Mér hefur reynst ágætlega að skilgreina þessa hegðun með því að barnið hreinlega gefur skít í allt og alla. Ég veit að þetta er óljóst orðalag að vissu leyti, en það gefur samt það mikilvæga til kynna að það er
alveg sama hver eða hvernig rætt er við barnið, það næst ekki samband við það og það lítur út fyrir að barninu sé hjartanlega sama um allt nema að losna við þetta "bögg" frá fullorðna fólkinu, lofar öllu fögru til að losna. Það virðist eins og samviskan sé horfin. Þau svara oft fyrir sig með því að allir séu að ráðskast með þau og ásaka foreldra sína um ósanngirni og óbilgirni. Eðlilegustu og einföldustu tilætlanir verða óbærileg afskipti og valdníðsla. Þannig halda þau foreldrum sínum í óöryggi og óvissu.

Útlitið breytist oftast til þeirrar áttar að þau hætta að hugsa eins um persónulegt hreinlæti og hætta að þrífa sig og umhverfi sitt. Þau sækjast oft í alls konar tákn sem skilgreina þau sem tilheyrandi jaðarhópum, s.s. göt á líkamann, tattú o.fl.

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað kæra foreldri, en minni á að hægt er að fá próf í öllum apótekum til að kanna hvort barnið sé í neyslu. Einnig bendi ég á að það er hægt að senda okkur tölvupóst hér á [email protected] sem er opin allan sólarhringinn þar sem þú getur rætt við ráðgjafa og fengið aðstoð og stuðning.

kærar kveðjur og gangi ykkur sem best!