Réttur lífsstíll
Því fyrr sem einstaklingur byrjar að nota vímuefni því meiri líkur eru á því að illa fari og erfitt verði að snúa aftur. Ekkert lögmál er um að fólk þurfi á vímu að halda og ekki er hægt að sýna fram á að nein jákvæð áhrif vímuefna á líkamann. Ásókn í vímuefni er frekar hægt að skýra með félagslegri þörf okkar að tilheyra hópi “ vera meðtekin “ af þeim sem maður umgengst. Þess vegna er þetta fyrst og fremst okkar val um lífsstíl og þess vegna er svo mikilvægt að maður hafi aðgang að upplýsingum sem maður getur treyst, t.d. um raunveruleg áhrif vímuefna. Vinir koma og fara en eftir situr maður uppi með sjálfan sig alla tíð og á unglingsárum er maður varla búinn að fatta hver þessi er. Þess vegna er skaði vímuefnanna mestur ef maður byrjar of ungur.
Ef þú ert í vandræðum með að segja nei ef vímuefni standa þér til boða ættir þú að skoða
Þessi tilsvör og þar má sjá margar áhugaverðar ástæður sem nefndar eru fyrir því að maður bara sleppur því að byrja, hver og einn hefur sínar ástæðu. Maður þarf sjálfur að hafa vit fyrir sér. Hvað ætlar þú að gera ?
því ég vil ekki láta vímuefni eyðileggja öll mín framtíðarplön
vegna þess að það er ekki hægt að spóla til baka ef illa fer
vegna þess að mig langar að hitta fólk án þess að þurfa að hugsa um lyktina út úr mér eða hvort eitthvað sjáist í augunum og svoleiðis
vegna þess að mig langar að vita hvernig ég virka í þessum heimi
vegna þess að ég er á kafi í tónlist og mér finnst ekki til betri tilfinning en að syngja með öllum líkamanum og finna fyrir hverri frumu, ef þið skiljið hvað ég á við
vegna þess að ég er ástfanginn
vegna þess að mig langar til að lifa heil
því ég er nokkuð forvitinn um framtíðina
því næstu ár gera mig að því sem ég verð, kannski alla ævi
vegna þess að ég er ekki tilbúinn að breytast í eitthvað annað en sjálfa mig
bara vegna þess að þannig get ég alltaf vitað hvað er að gerast og hverjir vinir mínir eru
því ég vil læra á sjálfa mig og geta sent öðrum rétt skilaboð, sérstaklega strákum auðvitað
af því ég vil geta sagt allt satt og sleppt öllu stressi
Því ég er verulega einstakur og vil að fólk læri smám saman að meta mig fyrir það sem ég er
Vegna þess að mig langar að fatta sjálfan mig fyrst
Vegna þess að ég ætla mér að verða besta mögulega útgáfan af mér
Vegna þess að þegar ég er ég finnst mér ég geta allt, svoleiðis vil ég vera
Maður þarf að hafa á hreinu hvað maður er að gera til að geta gert það betur næst
Af því að það er nógu flókið að vera unglingur þó maður bæti ekki ruglinu við líka
Vegna þess að vinur bróður míns dó útaf töflum sem hann tók og hann var samt búinn að segja mér að hann væri með allt á hreinu
Af því að ég ætla að kynnast mér eins og ég er
Vegna þess að árin fram að tvítugu er maður í bakaraofninum og eins gott að taka ekki sénsinn á að opna of snemma því þá gæti allt farið í klessu