Meðvirkni
Meðvirkni er stór og fyrirferðamikill hlutur og ekki einfalt að tala um hann í fáum orðum. Meðvirkni líkist einna helst því að við stöndum með báða fæturna í lími og þegar við reynum að losa annan fótinn er hvergi hægt að setja hann niður aftur nema í límið. Þetta er í raun eins og að vera í gildru.
Það er skrítið hvernig þetta meðvirkniástand skapast. Í raun er það sem gerist að okkur fer að líða eins og þeim sem stendur við hliðina á okkur. Við verðum meðvirk undir mörgum kringumstæðum, við verðum meðvirk með þeim sem eru veikir, fólki á vinnustaðnum og fólki sem eru vinir okkar eða kunningjar. Það sem einkennir þetta ástand mest er að okkur líður eins og öðru fólki.
Þegar meðvirkni gerir vart við sig förum við að sýna viðbrögð, verðum snögg til að bregðast við hvernig aðrir hegða sér. Til dæmis á vinnustað ef einhver er áberandi geðvondur þá byrja allir að fara aðeins í vörn gagnvart því sem gerist næst. Ef einhver er í fýlu þá höldum við af okkur og þegjum frekar en að fara að tala og segja “hvaða ólund er þetta í þér maður, vertu einhvers staðar annar staðar með þessa lykt þína”. Við segjum það ekki þegar við erum meðvirk. Við einfaldlega förum inní sama hegðunarmunstur og sá sem er við hliðina á okkur.
Ég held að þetta sé óþolandi ástand fyrir okkur öll. Þetta gerist án þess að við gerum okkur grein fyrir því, við temjum okkur þetta hægt og rólega og allt of oft erum við að labba á tánum í kringum fólk sem er beinlínis leiðinlegt, geðvont eða í vondri líðan. Fyrir okkur þessa einstaklinga sem erum að sýna þessa meðvirkni þá er voðalega gott að hugsa þetta uppá nýtt og velta því fyrir sér að þú þarft ekkert að tengja þínar tilfinningar við tilfinningar næsta manns.
Þú þarft frekar að hugsa “honum/henni líður svona en mér þarf ekki endilega að líða svona”. Það verður hálfgert fangelsi að vera í meðvirkni og vera sífellt hugsandi um það hvernig skap er í manneskjunni við hliðina á þér hvort sem það er yfirmaður þinn, starfsmaður, maki þinn eða ættingi. Ef þú ert farinn að hugsa of mikið um það hvernig ástandið á þessum einstaklingi er ertu orðinn meðvirk.
Ég held það séu ekkert ákjósanlegar aðstæður. Það að vera mjög meðvirk held ég að sé mesta frelsissvipting sem við getum sett okkur sjálf í. Ég held það sé langbest að vera maður sjálfur og þeim mun meira sem við glímum við að vera við sjálf þeim mun betur líður okkur. Veltu því fyrir þér að taka daginn í dag í að vera þú sjálfur. Vertu þú sjálfur, ekki vera eins og einhver annar er. Lifðu þínu lífi, ekki vera að reyna að lifa lífi annarra einstaklinga.
Gangi þér vel í dag að vera þú.
Birt með leyfi höfundar : Kári Eyþórsson - ráðgjafi
Greinin birtist á heimasíðu höfundar : karieythors.is