Við sem ólumst upp við áfengisneyslu foreldris/foreldra á heimilinu minnumst mörg hver nú í aðdraganda jóla hvernig kvíðahnúturinn fór stækkandi einmitt á þessum tíma. Skyldi mamma/pabbi verða full á aðfangadagskvöld? Tilhugsunin ein gerði það að verkum að maginn herptist saman og varð að einum stórum hnút. Vonandi ekki, bara að þau láti brennivínið vera á aðfangadagskvöld svo það geti orðið gaman þegar við borðum og tökum upp pakkana.
Fyrir þessi jól sem önnur kvíðir hópur barna. Þetta eru börn alkóhólista og þeirra sem eiga við vímuefnavanda að stríða. Vandamál foreldris sem er alkóhólisti verður stundum meira og alvarlegra einmitt á aðventunni og um sjálfa jólahátíðina. Þá eru mannfagnaðir og félagslegar uppákomur gjarnan tíðari.
Sem fullorðið barn alkóhólista finn ég mikið til með þessum börnum. Þótt komin sé á sextugsaldurinn skjóta minningarnar upp kollinum og seyðingur frá gamla kvíðahnútnum gerir stundum vart við sig þegar ég hugsa til barna sem eru í þessum aðstæðum. Allt það sem er svo skemmtilegt einmitt nú fær á sig gráan blæ og tilhlökkunin verður kvíðablandin.
Flest okkar vitum að sjúkdómurinn alkóhólismi spyr ekki hvort það er virkur dagur eða jóladagur.
Flest okkar vitum að sjúkdómurinn alkóhólismi spyr ekki hvort það er virkur dagur eða jóladagur. Sum börn hafa lifað mörg jól þar sem drykkja foreldris hefur sett svartan blett á hátíðina og nú velta þau fyrir sér hvernig ástandið verður heima um þessi jól. Þau biðja og vona innra með sér að þetta sleppi fyrir horn. Þau hugsa hvort það sé eitthvað sem þau geti gert til að minnka líkurnar á að mamma/pabbi verði ofurölvi á aðfangadagskvöld og skemmi þar með hápunkt jólanna.
Hvert geta börn alkóhólista leitað með þessar áhyggjur sínar og kvíða núna? Sumum börnum líður reyndar þannig að þeim finnst þau ekki geti rætt þessi mál við neinn enda hefur mörgum þeirra verið kennt og þau áminnt um að þetta leyndarmál eigi fjölskyldan og um það má enginn annar vita um. Segi þau frá geti eitthvað hræðilegt gerst. Mörg börn hafa því ákveðið að bera þessa byrði ein og óstudd. Sjúkdómurinn meðvirkni sem herjar einna helst á aðstandendur alkóhólista nær því miður allt of oft að festa rætur í hjörtum barnanna eins og hjá mökum margra alkóhólista. Fjölskyldan og heimilislífið verður að líta vel út á yfirborðinu þótt vandinn kraumi og bullsjóði innan veggja heimilisins.
Óhjákvæmilega bera börnin sem hér um ræðir heimilislíf sitt saman við heimilislíf t.d. vina sinna þar sem sambærilegur vandi er ekki til staðar. Þau horfa á fölskvalausa gleði og tilhlökkun á þeim heimilum og óska þess að einmitt svona væri þetta heima hjá þeim.
Ég á þá von í brjósti að þessi pistill gæti orðið til þess að vekja einhverja foreldra sem glíma við fíknisjúkdóm af þessu tagi til umhugsunar. Ég bið þá að reyna að setja sig í spor barna sinna og skynja hvernig það er fyrir litlar sálir að þurfa að kvíða jólunum af þessum ástæðum. Sé vandinn einvörðungu hjá öðru foreldrinu má ekki gleyma að það er á ábyrgð hins foreldrisins að skapa barni sínu öruggar aðstæður ekki bara um jólin heldur allt árið um kring.
Það eru til leiðir út úr þessum erfiðu aðstæðum eins og öllum öðrum og margir eru tilbúnir að hjálpa. Gott er að hafa í huga að minningin um jól þar sem áfengisneysla foreldris réði ríkjum eru minningar sem seint ef nokkurn tímann hverfa í gleymsku. Þetta geta ótal mörg fullorðin börn alkóhólista staðfest.
Höfundur : Kolbrún Baldursdóttir