Unglingar og foreldrar

Þegar barnið sem nú er að verða orðið fullorðið, var að stíga sín fyrstu skref var heimilið í hers höndum.  Kristalsskálin var færð í efstu hilluna, tröppurnar niður í kjallarann voru lokaðar af og allt var gert til að barnið færi sér ekki að voða.  Foreldrarnir hafa þó varla hringt í ættingja og vini og kvartað hástöfum undan þessum látum í barninu, þegar það var að glíma við þetta þroskaverkefni, sem gerði svo miklar kröfur til heimilisins. 

Hins vegar hringja þessir sömu foreldrar ef til vill núna til ömmu og afa og býsnast heil ósköp yfir að unglingurinn sé nú farin að læsa af sér, eða krefjist þess að bankað sé áður en gengið er inn til hans.  Unglingar fást við ýmislegt, sem þeir vilja fá að gera í friði og þeir kæra sig ekkert um að foreldrar vaði inn.  Foreldrum hættir hins vegar til að leggja neikvæða merkingu í þessa hegðun.

Um leið og unglingur hefur þörf fyrir aukið sjálfstæði hefur hann einnig þörf fyrir aga, en foreldrar detta stundum í þá gryfju að leita í aðrar hvorar öfgarnar.  Sumir líta svo á að þegar unglingsárin hefjast sé þeirra hlutverki sem uppalanda lokið.  Svo vona þeir bara hið besta.  Aðrir hafa tilhneigingu til að ríghalda í reglurnar og leyfa unglingnum ekki að þroskast úr barni yfir á fullorðinsár.  Þarna þarf hins vegar að finna meðalveg og þar bjóðast ýmsir kostir. 

Unglingur hefur þörf fyrir sjálfstæði, en foreldrar þurfa að stjórna því hvað hann fær langan taum.  Hann þarf frelsi, en innan ákveðins ramma.  Þrátt fyrir að hann sprikli innan þessa ramma er honum ekki eins leitt og lætur.  Unglingar, sem hafa misst tök á lífi sínu, hafa oft á orði, að foreldrum þeirra þyki ekki vænt um þá.  Þeir leyfi þeim hvað sem er.  unglingarnir óska þess eftir á að foreldrar þeirra hefðu haft meiri kjark og meira úthald til að setja þennan ramma.

Previous
Previous

Kærleikur

Next
Next

Frelsi