Sonur minn er ekkert skrímsli - reynslusaga

„Sonur minn er ekkert skrímsli„Ég veit ekki hversu oft ég hef grátið yfir þessu, fyrir framan hann, ein og á fundum með foreldrum annarra barna. Ég er viðkvæm og tók það alltaf rosalega nærri mér hvað hann var að gera öðrum,“ segir móðir 14 ára drengs sem lagði skólasystkini sín í einelti í sex ár.

„Að eiga barn sem er gerandi er ekki auðvelt. - Mér leið mjög illa.“

Sjálfur segist drengurinn hafa lagt í einelti til að reyna að vera aðalgæinn fyrir strákana, þeim hafi þótt þetta flott. „Það var mjög heimskulegt að gera þetta og ég fékk ekkert út úr þessu.“

Eftir nokkra umhugsun urðu þau mæðgin ásátt um að deila sinni reynslu með öðrum því eins og hún segir eru gerendur í eineltismálum líka börn sem þurfa að fá hjálp. Sjálf leitaði hún allra leiða til þess að fá hjálp fyrir drenginn sinn og opna augu hans fyrir því hvaða áhrif svona framkoma hefði á aðra. Þrátt fyrir óteljandi fundi með skólastjórnendum, foreldrum annarra barna og fagfólki var það var ekki fyrr en hann varð tólf ára sem hann áttaði sig á því hvað hann var að gera. Hann gleymir þeirri stund aldrei, en það gerðist þegar bekkjarsystir hans brotnaði niður í skólanum og hann sá sorgina í svip hennar. Um leið fékk hann sting í hjartað, áttaði sig og hætti að koma svona fram. Síðan hefur hann reynt að hjálpa öðrum sem verða undir í skólanum og vill nú vekja önnur börn til umhugsunar með því að deila reynslu sinni, því hann sér mikið eftir þessu.

„Ég er alveg með kökkinn í hálsinum yfir því að vera að tala um þetta opinberlega. Mér finnst það mjög erfitt og ég óttast það hvað ég sé að gera honum. Ég óttast viðbrögð fólks, að fólk muni dæma okkur og að hann verði útmálaður sem eitthvert skrímsli. Sonur minn er ekkert skrímsli. Öll börnin mín eru með gott hjartalag, hvert eitt og einasta.“

Sonur hennar var sex ára þegar hún var fyrst kölluð til skólastjóra út af einelti. „Þá tók hann bekkjarsystur sína fyrir og ég talaði við kennarann, foreldra og skólastjórann. En hann man ekki eftir því lengur. Ég man þetta óljóst sjálf, það hefur svo margt gengið á. Frá upphafi skólagöngunnar hefur verið vesen á honum. Síðan hætti hann að stríða þessari stelpu og það liðu nokkrir mánuðir þar til hann byrjaði aftur. Þetta var alltaf sama sagan. Stundum liðu alveg tveir mánuðir án þess að nokkur yrði var við neitt. Því fylgdi alltaf léttir og í hvert skipti vonaðist ég til þess að nú væri þetta komið, að nú hefði okkur tekist að ná til hans. En það kom alltaf eitthvað upp aftur. Ég fékk því í magann í hvert skipti sem skólinn hringdi.

Previous
Previous

Eyðilegging til lífstíðar

Next
Next

Líkamlegt og andlegt ofbeldi