Eyðilegging til lífstíðar
Einelti, þetta litla orð segir í raun allt sem segja þarf. Að vera valinn úr sem fórnarlamb og niðurlægður á allan hugsanlegan hátt. Að vera einn í sínum litla heimi innan í þeim stóra. Að vera einn í heimi þar sem öllum er illa við mann,
þar sem allir líta niður á mann vegna þess að það þykir flott og á einhvern hátt virðist það binda hópinn saman að hafa einhvern til þess að níðast á. Eitthvað sem byrjar að því er virðist sem smá stríðni í dag er komið út um allan skólann eða vinnustaðinn á morgun og út um allan bæ daginn eftir það. Þetta er sár reynsla sem skilur eftir sig stór ör sem sennilega ná aldrei að gróa til fulls. Það eina sem virðist vera hægt að gera er að lifa með þeim.
Einelti veldur bæði andlegum og líkamlegum sársauka, í raun veldur það alltaf andlegum sársauka því þó líkamlegt ofbeldi sé einnig til staðar þá gróa þau sár yfirleitt, en þau geta sest á sálina og þannig valda þessir líkamlegu áverkar andlegum sársauka. Það hefur gætt mikils misskilnings meðal fólks þess efnis að einelti fylgi alltaf líkamlegt ofbeldi en sú er þó ekki raunin. Margt fólk hugsar sem svo að ekki sé hægt að brjóta manneskju niður með orðum eða gerðum sem brjóta niður andlega séð, en þetta er mikill misskilningur því það eru einmitt orðin og þessar hálfósýnilegu gerðir sem geta skaðað mest.
Líkamlegur skaði batnar með tímanum og verður varla meira en óþægileg og oft á tíðum erfið minning, sem getur síðan auðvitað sest á sálina og þannig brotist út. Það getur verið erfitt að hlúa að andlegum skaða, þangað ná engir plástrar eða umbúðir og samúðin er oft á tíðum ekki mikil með fólki sem er illt á sálinni.
Ef barn kemur inn með ljótan skurð á líkamanum þá er barnið huggað og umbúðir settar á sárið, en ef barnið kemur inn með skurð á sálinni þá fer það að miklu leyti eftir þeim heimilisaðstæðum sem barnið býr við hvað gert er í málunum. Oftar en ekki er barninu sagt að gleyma þessu bara, hugsa ekki út í þetta o.s.frv.
Hugsaðu um þá líðan að geta ekki sagt neitt vegna þess að þá verði gert grín að þér, hugsaðu til þess að geta ekki gengið út á götu og sinnt þínum daglegu erindum án þess að öskrað sé á þig. Þessari líðan er ekki hægt að lýsa með orðum, hún er of ömurleg og það orð er einfaldlega ekki til sem lýsir henni. Það veldur fólki enn hræðslu mörgum árum síðar ef það verður þess vart að verið sé að tala um það eða horfa á það, ótti þinn segir þér einfaldlega að ekki geti verið um neitt gott að ræða, þú trúir því ekki að það geti verið neitt varið í þig, gerðir þínar, útlit eða hvað annað sem um er að ræða. Hvað þá, ef verið er að hrósa þér. Þér finnst þú aldrei verðskulda hrós og því síður kanntu að taka því. Þú kannt ekki að segja bara takk! Heldur þarftu að afsaka þig líka. Þú gerðir þetta eða keyptir vegna þess að…
Hugsaðu til þess að geta ekki gert neitt sem tilheyrir daglegu lífi fólks, þú getur ekki keypt þér föt, þú getur ekki farið í bíó, þú getur ekki einu sinni hlegið án þess að það sé hæðst að þér eða þú verðir barinn og það stendur enginn upp til að bjarga þér, ekki einu sinni þú sjálfur vegna þess að þú þorir því ekki og það sárasta er að enginn þykist taka eftir neinu röngu eða gerir það einfaldlega ekki. Þú getur ekki einu sinni grátið. Hugsaðu þér að fara að sofa á kvöldin og vita að allt byrjar þetta upp á nýtt á morgun, þetta veldur ekki beint því að þig langi yfirhöfuð að vakna næsta dag.
Það skiptir engu máli hvort þú lætur fara lítið fyrir þér, þegir og læðist meðfram veggjum, reynir að vera ósýnilegur eða ekki, þú færð alveg að finna jafnmikið fyrir því. Það er alveg sama hvað þú gerir, eða gerir ekki, þú færð ekki frið. Allt veldur þetta því að þú ferð að efast um sjálfan þig, útlit þitt, langanir, hæfileika og skoðanir. Hver þorir að hafa skoðanir eða kanna hæfileika sína ef allir eru tilbúnir til að rakka þá niður.
Þorir þú?
Þar sem reynsla eins og þessi veldur því venjulega að þú ferð að hata sjálfan þig þá getur þetta orðið erfitt. Hvernig átt þú að geta séð eitthvað fallegt við manneskju sem aðrir fyrirlíta. Það er sárt að horfast í augu við það að vera svo misheppnaður að maður sé ekki gjaldgengur í mannlegu samfélagi. Þessi sársauki nagar þig upp að innan þangað til ekkert er eftir, engar tilfinningar, ekkert. Nema hræðsla og sjálfshatur. Þú ferð að hata sjálfan þig fyrir alla þessa galla sem þú greinilega hefur og smám saman ferðu að sjá þá sjálfur, útlitsgalla þína, gallana á gáfunum o.s.frv.
Vinirnir sem þú taldir þig eiga hverfa smám saman vegna þess að þeir þora ekki að láta sjást með þér, þeir verða hlutlausir áhorfendur sem rétta ekki einu sinni fram litla puttann þér til hjálpar eða gera neinum viðvart um ástandið. Ef heppnin er með þér þá máttu koma heim til þessara vina, þó þeir þekki þig varla út á götu og þetta þiggur þú með þakklæti, því þín krumpaða sál þiggur hvern þann vináttuvott sem henni er sýndur, eins og þurr svampur, en þetta heitir ekki vinátta, þetta heitir að láta traðka á sér. Og veistu hvað, þér er alveg sama, þú fattar ekki einu sinni hvað þetta er ljótur leikur.
Það verður þér kannski aldrei alveg eðlilegt að láta fara svona með þig en öll vinátta er þér svo nauðsynleg að þú þiggur hvað sem er. Þetta er þó yfirborðskennd vinátta því þú ert hættur að geta treyst fólki og auk þess er ástandið þannig að ekki má ræða það. Því þetta er hryllileg skömm. Það er þér lífsnauðsyn að engin frétti hvernig farið er með þig, að þú skulir vera svo ljótur, heimskur, gáfaður eða hvað annað. Skömmin er svo mikil að þolandinn gerir allt til þess að fela ástandið, jafnvel hylmir yfir með gerandanum ef því er að skipta.
Það hvarflar í raun ekki að þér að gerendurnir séu að gera neitt rangt eða að sökin sé þeirra, jú kannski djúpt í undirmeðvitundinni, en þú svæfir þær hugsanir áður en þær ná að brjótast fram. Í þínum huga er skömmin frekar þín þetta er þér að kenna fyrir að vera svona eins og þú ert og þú átt þetta fullkomlega skilið, gerendurnir eru ekki að gera neitt ljótt. Þú hugsar með þér að allt hljóti þetta að vera þér að kenna og að þetta hljóti að segja mikið til um það hverskonar persóna þú ert. Og þó að þér sé komið í skilning um að skömmin sé gerendanna, þá finnst þér hún samt vera þín.
Þetta segir mikið til um sálarástandið, þetta hljómar kannski eins og sjálfspyntingarhvöt en er það þó ekki. Þetta er aðeins hræðsla, ofsahræðsla við lífið. Það er erfitt að vera 8, 10, 12, 14 ára og horfa á allt lífið fram undan og þurfa að burðast með þetta leyndarmál á bakinu. Þetta leyndarmál sem enginn má frétta og óttann við það hvað fólk muni þá halda um þig.
Upp úr þessu fara áhugamálin og skoðanirnar að tínast, því allar þínar tilfinningar eru orðnar svo dofnar að þú veist eiginlega ekki hvað er gaman eða leiðinlegt lengur, það bara er. Upp úr þessu ferðu að flýja inn í ímyndaðan heim bóka, bíómynda og tölvuleikja. Þar sem þú getur einbeitt þér að einhverju öðru en sjálfum þér og hinum gráa hversdagsleika.
Það getur reynst þér erfitt að ræða þetta, þegar þú loks hefur þig í að leita þér hjálpar, því þú mætir oft á tíðum litlum skilningi meðal fólks, því það virðist ekki sjá mikinn mun á smá stríðni og mikilli stríðni, í augum flestra er þetta eitt og hið sama, það var það allavega þar til fyrir fáum árum og í dag loka flestir augunum fyrir þessu. Viðkvæðið sem þú færð er aðeins, af hverju stríðirðu þeim ekki bara á móti? Allir hafa einhverja galla eða veikeika. En það sem þetta góða fólk skilur ekki er að þetta er ekki aðeins smá stríðni eða hrekkur, heldur eru þetta ofsóknir.
Eineltið skilur þig eftir í líki niðurbrotinnar taugahrúgu. Alveg sama hversu sterkur þú varst á meðan á þessu stóð, þá brotnarðu niður þegar þú áttar þig á að þessu er lokið. Þú vaknar ekki við það einn morguninn að þú ert sloppinn klóm eineltisins og hamingjan blasir við þér.
Ó,nei þegar þú ert sloppinn frá þessu þá kemur aðeins annað í staðinn, hræðslan við að hefja hið nýja líf. Á meðan á eineltinu stóð varstu einn í þínum eigin heimi, kannski líkast dimmum kassa, þar sem allt var dimmt og ömurlegt, en á vissan hátt varstu farinn að aðlagast, þú vissir hvar þú stóðst í mannvirðingastiganum, neðst og allir trampandi á hausnum á þér og þar ertu þegar kassalokið opnast og þú sérð glita í sólskinið, sem er þó í órafjarlægð og þér finnst þú ekki hafa neina krafta í að reyna að klifra upp, þú þorir því heldur ekki, þú ert hræddur og öryggið felst í þessum litla dimma kassa sem þú hefur falið þig í.
Það er svo erfitt að reyna að verða manneskja á ný. Þetta er í raun eins og að byrja að lifa upp á nýtt. Læra að kynnast fólki og þar á meðal sjálfum þér. Læra að treysta fólki og aftur þar á meðal sjálfum þér. Þessi reynsla skilur eftir sig spor sem verða á vegi þínum daglega. T.d. það að kynnast fólki, flestir kynnast bara fólki án þess að velta því nokkuð fyrir sér hvernig þeir fóru að því, en þolendur eineltis kunna það ekki og virðast alltaf þurfa að finna aðferðir, hvað eigi að segja og hvernig eigi að koma fram, á meðan öðrum virðist þetta vera meðfætt. Þú ferð að fylgjast með því hvernig aðrir bera sig að, en þegar upp er staðið græðirðu sennilega ekkert á því.
Eins er með mörg atriði í daglega lífinu, þér finnst annað fólk oft hafa það svo gott, en þegar þú hugsar þig um þá á það sennilega í sömu smávægilegu erfiðleikunum og þú, en einhvern vegin virðist þetta fólk bara taka á þeim og halda áfram að lifa, málið er bara að þú ert einfaldlega búin að fá þig svo fullsadda af erfiðleikum og sjálfstraustið er svo lítið að þetta er þér um megn.
Allt byrjar þetta heima. Börnin fæðast sem fullmótaðir einstaklingar, en þau fæðast ekki með skoðanir. Þau fæðast með sinn eigin persónuleika og skapbrigði en þau fæðast ekki illgjörn. Þessir hlutir mótast inn á heimilinu, í nánasta umhverfi barnsins og það eru þeir sem barnið lýtur upp til sem móta þá.
Hvernig fyrirmynd vilt þú vera?
Viltu að barnið þitt tileinki sér það besta eða versta í fari þínu?
Vitað er að forsprakkarnir koma þessu að stað til að beina athyglinni frá þeim sjálfum, þeir eru að fela erfiðar heimilisaðstæður eða ef til vill eitthvað aflaga í eigin fari eða sinna nánustu.
Hugsaðu þig um og hugsaðu um það hvernig einstaklingur þú vilt að barnið þitt verði og beindu uppeldinu í þann farveg.
Höfundur : S.Á.K