FÍKN

Hvað eiga mismunandi efni og atferli, svo sem matur, fjárhættuspil, eiturlyf og kynlíf, sameiginlegt ?

Það er hæfni þeirra til að orsaka breytingu á hugarástandi fólks. Segja má að þarna sé um að ræða „fíknarhæfni" efnisins eða atferlisins.

Bæði uppvask og fjárhættuspil eru tilteknar athafnir en hjá flestum er sú breyting á hugarástandi sem verður þegar fólk vaskar upp mun takmarkaðri en sú sem á sér stað þegar þeir stunda fjárhættuspil. Bæði mjólk og áfengi eru ákveðin efni en menn verða ekki háðir mjólk vegna þess að hún veldur ekki eins mikilli breytingu á hugarástandi og áfengi.

Þannig má segja að hæfni efnis eða atferlis til að orsaka hugarástands breytingu sé forsenda þess að hægt sé að mynda við það fíknarsamband.

Aðgengi hefur einnig áhrif á það hvort einstaklingur verður háður efni eða atferli eða ekki. Því auðveldara sem það er að nálgast tiltekið efni eða að stunda ákveðið atferli, því fleiri mynda fíknarsamband við það. Tækifærunum til að stunda fjárhættuspil fjölgar stöðugt og því fjölgar einnig spilafíklum.

Menn geta flutt fíknarsamband sitt frá einu efni til annars og frá einni tegund atferlis til annarrar. Með því að breyta um neysluform geta menn talið sér trú um að „vandamálið sé úr sögunni". Það sem í raun og veru hefur gerst er aðeins að eitt fíknarsamband hefur komið í stað annars. Þannig kaupir fíkillinn sér frest. Fíkill getur hætt að neyta amfetamíns eða að reykja gras og „bara" farið að drekka í staðinn.

Á sama hátt getur áfengissjúklingur sem hefur ekki viðurkennt að hann eigi við áfengisvandamál að stríða í staðinn smám saman þróað með sér fíknarsamband við fjárhættuspil. Þannig getur hann komið sér í alvarleg fjárhagsvandræði og verið alveg jafn tilfinningalega einangraður og meðan hann drakk.

Bæði virkir fíklar og þeir sem eru á batavegi verða að gera sér grein fyrir að á stundum munu þeir líklega sækja í að nýta sér eitthvert efni eða atferli til að ná sambandi við umheiminn. Þegar þeir eru undir álagi munu þeir til að mynda líklega frekar halla sér að ákveðnu efni sér til styrkingar en að leita til fólks eða trúarinnar um hjálp til að takast á við veröldina.

Þegar fíknarsamband hefur þróast mun fíkillinn, hvort sem hann er virkur eða óvirkur, aldrei aftur líta heiminn sömu augum. Það sama gildir um fíkn og aðra alvarlega sjúkdóma; hún hefur varanleg áhrif á fólk. Það er ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt fyrir fólk sem er að reyna að ná bata að taka reglulega þátt í tólf spora prógrammi og stunda fundi.

Rökhugsun fíknarinnar hefur grafið um sig og bíður færis að láta til sín taka á ný, í sömu mynd eða breyttri. Óvirkir fíklar verða að halda áfram að sækja fundi og vinna samkvæmt meðferðaráætlunum því að þeir eru og verða ávallt fíklar. Bati næst einungis með því að viðurkenna að fíknin verði alltaf til staðar og að það verði stöðugt að fylgjast með því að hún taki sig ekki upp á ný í einhverri annarri mynd.

Það verður að líta á fíkn sem samfellt ferli því að hún þróast stig af stigi. Sumir halda sig um langa hríð á mörkunum milli misnotkunar og fíknar en vert er að taka fram að fíkn er ekki það sama og misnotkun, þó svo að misnotkunin nái yfir nokkuð langt tímabil hverju sinni.

Previous
Previous

Unglingar eru ekki tifandi tímasprengjur

Next
Next

Fyrirmyndir