Viltu breytingar ?
Stendur þú á tímamótum eða viltu breytingar ?
Þá gætir þú haft gott af því að lesa þennan pistil.
Þegar við erum að fara í gegnum þroskakreppur í lífinu, breytingar sem gætu við fyrstu sýn virst erfiðar og jafnvel óyfirstíganlegar, er gott að staldra við og skoða líf sitt. Hvað hef ég lært, hver er reynsla mín fram að þessu og hvað get ég gert öðruvísi í framtíðinni ? Mikilvægustu breytingar sem ég hef gert á lífi mínu komu í kjölfar áfalla – og þrátt fyrir að sjá það ekki á sínum tíma þá átta ég mig á því í dag að ég stóð uppi sterkari vegna þess að ég þurfti að spyrja mig ýmissa spurninga varðandi líf mitt.
Það er nauðsynlegt að spyrja sig : hvert vil ég fara og hvað vil ég gera ?
Við hræðumst oft breytingar en samt eru þær eina leiðin til framfara. Kannski þarftu að fara inn á við um tíma, til að eiga tækifæri á að fæðast til hins nýja lífs sem bíður þín. En það er ekki hægt að neyða neinn til sjálfsbreytinga, við getum alltaf hamlað gegn þeim. Ekki búast við að fá stuðning annarra á þessum tíma - þetta er ferðalagið þitt sem þú verður að taka á þínum forsendum. Þú þarft kannski að láta eitthvað af hendi til að geta lifað heill í sjálfum þér.
En í þessari leit þá þarftu að vera meðvitaður um að það er ekki hægt að gera öllum til geðs. Það er erfitt að festast í þeim vef að reyna að þóknast allt og öllum og sveiflast eins og lauf í vindi eftir því hvað öðrum kann að finnast eða það sem við teljum að öðrum kunni að finnast um okkur. Þannig er maður ofurseldur áliti annarra, eigin hugsunum og tilfinningum og finnst maður aldrei gera nógu vel.
Sértu tilbúinn þá skaltu hlusta á umhverfi þitt og læra að laga þig að þeim skapandi krafti sem er allt í kringum þig. Þegar við skoðum hverjum við viljum breyta er mikilvægt að vera ekki í viðmiðum við aðra. Þú getur alltaf fundið einhvern sem er verr eða betur staddur en þú – þess vegna þarftu að vita hvað þú vilt fyrir þig burt séð frá hvað öðrum gæti þótt um það.
Það þarf að vanda sig í ,,breytingaferlinu“ og lífsreglurnar mínar á þessum tímabilum eru að reyna að: sofa vel, borða vel, hreyfa mig og vanda mig þannig að ég held heimatilbúnum vandamálum í lágmarki. Þetta tekst ekki alltaf og stundum er nóg að einn af þessum þáttum detti út og þá fer allt í vitleysu.
Þá er líka svo mikilvægt að bjóða sér ekki upp á hluti sem maður veit að skaða mann; þú einn veist hvað það þýðir fyrir þig. Það er meiri hætta á að við notum eitthvað til að deyfa okkur þegar þessi tímabil ganga yfir – en það er einmitt það sem við ættum að forðast. Mér fannst erfitt að sýna seiglu og þrautseigju í gegnum erfið tímabil og þurfa bara stundum að vera án þess að vita á hvaða leið ég væri.
En skjót viðbrögð við aðstæðum kemur okkur oft vanda og því mikilvægt að við áttum okkur á því hvenær við erum að fleygja okkur á kaf í fyrstu tilfinningu sem verður á vegi okkar og veltum okkur upp úr henni. Er möguleiki að niðurstaðan geti verið önnur ef leitast er eftir að ná innri frið og róa sig áður en gripið er til aðgerða? Stundum þurfum við að skapa fjarlægð milli okkar og þess sem við erum bregðast við og trúið mér – þetta hefur ekki alltaf reynst mér auðvelt.
En það er hluti af því að vilja breytast – skoða hvernig ég er og hvort hegðun mín sé vanabundið mynstur sem væri hægt að endurskoða og bæta.
Það sem þessi tímalbil krefjast af okkur öðru fremur er auðmýkt, þolinmæði og lítillæti þar sem við þurfum að sleppa tökunum og hætta að reyna að handstýra lífinu í eina átt – og þá oft þá átt sem er löngu orðin gömul og úr sér gengin. Mundu - lífið verður ekki endilega betra þegar allt verður eins og það var!!
Þegar þú ert tilbúin munt þú uppskera og mundu að nýja lífið er alltaf mikilfenglegra en hið gamla og ef þetta er rétti tíminn þá er útkoman sjálfgefin.
Þetta er allt undir þér komið <3
Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni. Hún Anna Lóa leifði ÞÚ skiptir máli að nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.