Aðventan
Brátt nálgast sú helgasta hátíð í bæ
með heilögu ljósunum björtum.
Andi Guðs leggst yfir lönd yfir sæ
og leitar að friði í hjörtum.
En nú virðist fegurðin flúin á braut
friðurinn spennu er hlaðinn.
Lífsgæðakapphlaup og kauphallarskraut
er komið til okkar í staðinn.
Þó vill hann oft gleymast
sem farveg oss fann , fæddur í jötunnar beði.
Við týnum úr hjartanu trúnni á hann
og tilefni jólanna gleði.
Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
þá veitist þér andlegur styrkur.
Kveiktu svo örlítið aðventuljós,
þá eyðist þitt skammdegismyrkur.
Það ljós hefur tindrað aldir og ár
yljað um dali og voga.
Þó kertið sé lítið og kveikurinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.
Láttu svo kertið þitt lýsa um geim
loga í sérhverjum glugga.
Þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleysisskugga
.
Hákon Aðalsteinsson 1997