Þunglyndi og ungt fólk

Þunglyndi er sjúkdómur sem verður til vegna ójafnvægis nokkurra boðefna í heilanum.  Menn geta m.a. orðið þunglyndir vegna streitu, mikils líkamlegs álags eða í tengslum við aðra sjúkdóma.  Þunglyndi kemur fram í ólíkum myndum og greint er á milli vægs, miðlungs og mikils þunglyndis.  Þó er það sameiginlegt með öllum stigum að sjúklingnum finnst lífið tilgangslaust og gleðisnautt og allt virðist óyfirstíganlegt.  Þunglynt fólk íhugar stundum sjálfsmorð, fær kvíðaköst, skortir sjálfsálit, hefur svefn og átraskanir, sektakennd og á erfitt með að einbeita sér. 
Hjá unglingnum eru áhrif þunglyndis svo til þau sömu og hjá fullorðnum, það einkennist oft af því að unglingurinn missir allan áhuga á öllu.  Í skólamálum er það einkennandi að unglingurinn fer að standa sig verr í tímum, lærir gjarnan ekki heima, vill ekki taka þátt í neinu og oft mætir hann ekki vel í skólann.  Þetta er oft kallað námsleiði en í mörgum tilfellum er það mistúlkun þar sem þunglyndi er ekki það sama og námsleiði, orsökin er önnur þó einkennin séu svipuð.  Flestir unglingar sem þjást af þunglyndi einangra sig frá félögum sínum.  Þeir vilja oftast ekki taka þátt í neinu sem verið er að gera og verða í raun ófélagslynd.  Áhrifin af þunglyndi versna með tímanum ef ekkert er gert.  Aðal einkenni alvarlegs þunglyndis eru þau að manneskjan hugsar neikvætt um sjálfan sig  ( hefur lágt sjálfsmat ) telur að allt sem hún gerir sé illa gert og framtíðin beri ekki neitt skemmtilegt í skaut með sér.  Sá sem þjáist af þunglyndi telur að það sé ekkert hægt að gera til að bæta úr málunum, að ekkert muni breytast, þetta leiðir til vítahrings hugsunar sem erfitt er að losna úr.Við að uppgötva þetta verða margir enn þunglyndari og á þessu stigi er hætta að manneskjan fari að hugleiða sjálfsmorð.  Að vera þunglyndur hefur áhrif á hugsun og samskipti manna þar sem einkenni þunglyndis geta verið misjöfn er oft erfitt fyrir aðra að átta sig á að unglingurinn sé þunglyndur fyrr en það er komið vel á veg.  Einhvern tímann á ævinni verða allir fyrir einhvers konar einkennum þunglyndis, svo sem depurð eða skammdegisþunglyndi, þó sem betur fer verði fæstir fyrir barðinu á krónísku þunglyndi.  Þunglyndi getur haft margar slæmar afleiðingar í för með sér, svo sem ofbeldishneigð og sjálfsmorð.  Talið er að um 60% þeirra sem framið hafa sjálfsvíg hafi verið þunglyndir.  Það að reyna að fremja sjálfsmorð er oft merki um að sá sem það gerir sé þunglyndur og sé að biðja um hjálp.  Því að lifa í þunglyndi er sársauki sem nístir mann og tærir að innan.  Margt bendir til þess að þunglyndi sé ættgengur sjúkdómur.  Það má venjulega lækna sálfræðimeðferð eða lyfjameðferð, en við alvarlegu þunglyndi hefur verið notað raflost.  Þótt meðferðir beri árangur geta þó þunglyndistímabil komið aftur og aftur.  Líkurnar á þunglyndi aukast verulega ef fólk er úr þunglyndri eða brotinni fjölskyldu.  Talið er að atvik sem gerast í bernsku, svo sem kynferðislegt ofbeldi, einelti o.fl. geti valdið þeim einstaklingi sem lenti í því, þunglyndi á efri árunum, því skömm, sektakennd og lélegt sjálfsmat grúfir yfir.  Þunglyndi hefur ekki bara áhrif á þann sem er haldinn því heldur líka á alla í kringum hann.  Fjölskylda hans þarf oft að leita sér hjálpar líka.  Algeng einkenni þunglyndis er þungt skap, áhugaleysi, að finnast maður vera einskis nýtur eða byrði einhvers annars, erfiðleikar í hugsun og einbeitingu, lystarleysi, þyngdarbreytingar, svefntruflanir, eirðarleysi, sektarkennd og sjálfsvígstilraunir.   

Leitaðu ráða hjá læknum ef þú hefur áhyggjur af þínum ungling eða þér sjálfum í sambandi við þunglyndi það er styrkur ekki veikleiki!

  Þunglyndissjúklingur segir frá: "Ég varð vör við mitt alvarlegasta þunglyndi í fyrra vor eftir sambandsslit og missi fósturs.  Hann var fyrsta ástin mín og ég elska hann enn.  Fóstrið ( ég trúi því að það hafi verið strákur eftir að hafa heyrt spákonu segja það ), sem ég missti eftir tveggja mánaða meðgöngu, fyllir mig sorg og söknuði, en með því að hugsa um þá báða er ég að kvelja sjálfa mig og sökkva mér dýpra í þessa dimmu og miskunnarlausu veröld þunglyndis.  Kvöldið sem slitnaði upp úr sambandinu fór ég alveg í rusl og fannst allt hrynja, en ég reyndi eins og ég gat að hugsa ekki um að fremja sjálfsmorð. Þetta getur ást gert manni, látið mann gera eða hugsa um að gera eitthvað fáránlegt. Ég hef bæði þurft að vera á lyfjum og fara til sálfræðings. Þegar maður er þunglyndur lifir maður við stöðugan sálrænan sársauka og finnst manni enginn skilja mann .
Þannig líður mér!

Previous
Previous

Njóttu lífsins

Next
Next

Þitt líf - þinn valkostur