Netfíkn

Netfíkn er vandi sem hrjáir gjarnan ungt fólk og því geta vel upplýstir og undirbúnir foreldrar gripið inn í vandræðaástand áður en það ágerist.  Líkt og með svo margt annað, er best að vinna með vandann snemma.  Þegar um ungt fólk er að ræða hafa foreldrar ákveðna valdastöðu sem unnt er að nýta til meðferðar og þegar fólk er eldra, hafa ástvinir og ættingjar ákveðna stöðu sem hægt er að nýta til að vekja forfallinn einstakling til umhugsunar.  Það er því afar mikilvægt fyrir foreldra, vini og ættingja að læra að þekkja áhættueinkenni netfíknar.

Grunnskilgreining á netfíkn felst í því að um er að ræða tímaþjóf og því miða fræðimenn oft við það að þegar netnotkun hafi náð 38 tímum á viku sé orðið um alvarlegt vandamál að ræða.  Tími tölvunotkunar er því vissulega eitt fyrsta atriðið sem ber að fylgjast með.  Er einstaklingurinn sífellt að auka tölvunotkun sína á kostnað annarra athafna.  Þegar einstaklingur kýs ítrekað netið umfram aðrar athafnir sem voru honum mikilvægar áður, er hugsanlegt að um vandamál sé að ræða.  Mjög fljótlega getur slík hegðun undið upp á sig og haft áhrif á sjálfsmynd og félagsfærni einstaklingsins og þannig versnar vandinn smám saman.

Að sjálfsögðu viljum við grípa tímanlega inn í vandamálin og helst áður en þau verða of alvarleg og því er mikilvægt að fylgjast vel með og grípa inn í strax þegar okkur finnst hegðunin vera orðin óhófleg.  Gott er að fylgjast með hvort einstaklingurinn sé mjög upptekinn af netinu, hvort hann feli eða neiti að viðurkenna hve miklum tíma hann verji í tölvunni, sé farinn að ljúga um tölvunotkunina, segist eiga alla sína vini á netinu eða einungis spjalla við þá þar, finnist aðrar athafnir orðnar leiðinlegar og svo hvort einstaklingurinn verði óhóflega reiður eða pirraður þegar hann er truflaður við tölvunotkunina eða hún stoppuð.

Þessi atriði er hægt að sjá hjá einstaklingum sem ánetjast tölvunotkun áður en hún nær að verða það alvarleg að einstaklingurinn verji 38 tímum við tölvuna og því verður að hafa í huga að vandinn getur verið til staðar fyrr en því marki er náð.

Þegar einstaklingar byrja að ánetjast netinu er oftast um að ræða flóttahegðun þar sem þeir flýja óþægilegar aðstæður í raunveruleikanum og finna betri veru í andlitslausu umhverfi netheima.

Atriði sem geta leitt til aukinnar tölvunotkunar eru félagsfælni, lágt sjálfsmat, einmannaleiki og samskiptavandamál eins og hjónabandserfiðleikar, einelti og langvarandi veikindi eða einangrun.  Það er því mikilvægt að fólk fylgist með hvort börn þeirra eigi í erfiðleikum í skóla eða utan hans og grípi inn í ef vandamál skapast í umhverfi þeirra.  Þegar börn hætta skyndilega að vilja mæta í skóla, einkunnir lækka og þau hætta að vilja taka þátt í íþróttum og öðrum utanskóla athöfnum eru það allt þættir sem geta bent til þess að barninu líði illa og geta svo leitt til þess að það flýr á netið.

Þegar barnið hefur svo eitt sinn flúið á netið ýkist hegðunin gjarnan sem á undan gekk og það hættir nánast alfarið að mæta í skóla, læra eða sinna áhugamálum.  Alltof oft velja foreldrar að líta undan og láta börnin útkljá málin sín á milli en nú til dags í harðnandi heimi getur slíkt hæglega reynst börnum um megn.  Börnin geta í raun lært að takast á við slík vandamál með því að fara að fordæmi foreldranna og því er mikilvægt að þau sýni þeim rétta hegðun í verki.

Það er mikilvægt að foreldrar hvetji börnin sín til dáða og kenni þeim að umgangast tölvur af hófsemi.

Netfíkill segir frá:

Þegar ég eignaðist fyrstu tölvuna mína og komst í samband við Netið átti ég það til að vaka langt fram eftir og stundum fram á morgun.  Enda þótt ég vissi að vinna biði mín og áhrif svefnleysis þá hundsaði ég það.  Þegar vika var liðin með tilheyrandi vitleysu og trekktum taugum (sem voru óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinnar kaffineyslu) fann ég að ég var kominn á hálan ís.  Morgun einn leit ég upp frá lyklaborðinu og horfði umhverfis mig.  Það var full nauðsyn að fara út með ruslið.  Óhreinn þvottur flæddi út úr þvottakörfunni og helgin hafði liðið án þess að ég tæki eftir því.  Íbúðin mín var í einu orði sagt ruslahaugur.  Um leið uppgötvaði ég að maturinn hafði breyst í næringarsnautt ruslfæði og ég borðaði minna.  Að lokum kom að því að ég ákvað að taka mér tak og byrjaði að þrífa íbúðina mína og gerði það sem ég þurfti að gera.  Ég  mun aldrei gleyma því í hverju ég lenti.

Það eina sem hægt er að fullyrða er að Netfíkn virðist leggjast helst á ungt fólk, og frekar stráka en stelpur.  Það má í þessu sambandi benda á að stærstur hópur netnotanda er ungt fólk.

hackers-2.jpg
Previous
Previous

Gríptu inní áður en fikt verður að fíkn

Next
Next

Forvarnir hefjast heima - ÞÚ skiptir máli pocast