Þetta skilar sér alltaf tilbaka
Kærleikurinn er fólgin í svo mörgu, eins og því að vera góður við náungann. Stundum langar okkur til þess að vera góð en vitum ekki hvernig við eigum að gera það. Það er ýmislegt sem skiptir máli og það þarf ekki alltaf að vera stórt og það þarf ekki alltaf að vera einhver hlutur, það er svo margt annað sem er dýrmætara og gefur meira af sér og endist, tökum dæmi...........
Vertu ávallt glaður og hress í bragði, það er svo margt í lífinu sem hægt er að gleðjast yfir, en það gerist ekki alltaf að sjálfu sér, það er með gleðina eins og annað í lífinu við þurfum að leggja okkur vel fram og vinna í hlutunum.
Vertu dugleg/ur við að finna uppá og nýta allar þær stundir sem gefast til að gleðjast og hlæja með vinum þínum.
Ef að þú ert hress og glaður/glöð í bragði þá smitar það.
Við sækjumst öll eftir því að fá hrós og hverjum manni er það lífsnauðsynlegt að fá klapp á bakið.
Það er ekki sama hvernig þú hrósar, viðkomandi þarf að finna að þú
sért að meina það, hafa hrósið einfalt, láta bros og eða fallegt augnaráð fylgja.
Þetta skilar sér alltaf til baka.
Það er alltaf nógur tími til þess að gera eitthvað fyrir vini sína eða náungann,
það er gott að gera öðrum greiða.
Þetta þarf ekki að vera stórt , mikilvægt fyrir marga er til dæmis að þú hafir samband, látir viðkomandi finna að þú munir eftir honum. Það er allt of algengt að þegar fólk heimsækir aldraða að það komi með nammi eða gjöf og stoppi stutt, málið snýst um að gefa sér tíma og leyfa viðkomandi að finna að okkur þyki vænt um það.