Hvar liggja mörkin mín!
Mig langar að fylgja eftir pistlinum sem ég birti í síðustu viku en þar fjallaði ég um meðvirkni og mikilvægi þess að setja mörk. Við þurfum að vera meðvituð um að meðvirkni virkar ekki bara í eina átt – sá meðvirki sveiflast mikið eftir öðru fólki en er líka heltekinn af því að stjórna öðrum.
Við þurfum ekki bara að setja mörk í samskiptum, við þurfum líka að setja mörk varðandi líkama okkar, eignir, tilfinningar, vitsmuni, andlega þætti o.fl. Við ákveðum sjálf hvar líkamlegu mörkin okkar liggja. Sem dæmi ráðum við sjálf hvaða snertingu við leyfum, alveg frá faðmlagi yfir í nánari líkamlegar snertingar. Sumum finnst t.d. ofur eðlilegt að klappa barnshafandi konum á magann en þegar við hugsum málið þá dytti okkur aldrei í hug að klappa á magann á einhverjum af öðru tilefni.
Þarna gætum við því auðveldlega farið yfir mörk hjá einhverjum en af því að þetta er svo algengt þá er búið að normalisera hegðunina. Við ættum auðvitað alltaf að biðja um leyfi ef okkur langar til að faðma eða koma við aðra og ég veit um dæmi þar sem fólk var þakklátt fyrir skýrar mörk í covid því það er til fólk (eins og ég) sem heldur að ÖLLUM finnist sjálfsagt að faðmast og knúsast við ótrúlegustu tækifæri. Jebb, ég þurfti að skoða þetta hjá mér. Snýst ekki um að það sé eitthvað að því að faðmast, þú vilt bara fá að velja hvenær og hvar en ekki láta aðra ákveða það fyrir þig.
Svo eru það mörk varðandi persónulegar eigur okkar. Að virða það sem er þitt á sama tíma og þú virðir eigur annarra. Ef þú færð eitthvað lánað að skila því á þeim tíma sem þú varst búin að tala um. Ef einhver biður um eitthvað að láni hjá þér og þú vilt í raun og veru ekki lána þann hlut, að segja nei án þess að finnast þú vera að bregðast viðkomandi. Við þurfum flest að taka okkur á þarna og mörg systkini kannast við að hafa í æsku tekið hluti frá systur/bróður án þess að biðja um leyfi. Ég veit að ég gerði það og þurfti ég að vinna með það að finnast ekki sjálfsagt að taka frá sumum í mínu lífi og að leyfa ekki öðrum að hrifsa hluti úr mínu lífi.
Flest þurfum við að skoða mörkin okkar þegar kemur að því að virða tíma okkar og annarra. Ef einhver hringir í mig og segir; Anna Lóa, ertu laus á fimmtudaginn kl. 17:00 …..þýðir það þá að ég sé til í að nýta tímann í eitthvað sem viðkomandi er búin að plana. Að sama skapi þá þarf ég að skoða hjá mér hvort mér finnist eðlilegt að ef fólk er ekki búið að skipuleggja eitthvað þá sé sjálfsagt að nýta tímann með mér. Ég er að reyna að venja mig af því að segja; ertu laus….og spyrja frekar; langar þig í bíó með mér á föstudaginn!
Þegar við setjum tilfinningaleg mörk þá þurfum við að læra að aftengja okkur frá tilfinningastormi annarra. Á ekkert skylt við að vanrækja sambönd eða að skrúfa fyrir ást eða umhyggju gagnvart öðrum. Að vera tilfinningalega til staðar fyrir aðra án þess að sökkva á kaf ofan í þær tilfinningar sem viðkomandi er að fara í gegnum.
Það er engin góðmennska að týna sjálfum sér á sama tíma og maður er heltekinn af vanda og líðan annarra. Snýr líka að því að taka ekki á móti tilfinningalegu ofbeldi þegar einhver reynir að sveigja okkur og beygja eftir eigin geðþótta. Við eigum að taka tíma og rými til að skoða það sem er beint að okkur, jafnvel deila með hlutlausum en láta ekki aðra aðila ákveða hlutdeild okkar í málinu. Mér líður stundum eins og ég sé komin aftur í grunnskóla þegar ég lendi í samskiptum þar sem þess er nánast krafist að ég taki afstöðu með eða á móti – annars sé ég jú bara meðvirk eða já manneskja! Það væri meðvirkni af minni hálfu að láta draga mig inn í skökk samskiptamynstur sem ala af sér vanlíðan og vonleysi.
Vitsmunaleg mörk snúa að því að virða okkur sjálf, hugsanir okkar, gildi og ákvarðanir í lífinu á sama tíma og við berum virðingu fyrir fólki sem er ólíkt okkur. Þegar við virðum ekki vitsmunaleg mörk þá finnst okkur óþægilegt þegar fólk hefur aðrar skoðanir en við sjálf og förum jafnvel í vörn og reynum að sannfæra aðra um að okkar leið/skoðun sé sú rétta. Heilbrigð mörk gefa rými fyrir ólíka einstaklinga og að hlusta með opnum huga. Við megum skipta um skoðun, vera gagnrýnin á okkur sjálf og aðra án þess að slíkt sé vísbending um veikleika okkar eða annarra. Sem betur fer þá þroskumst við og breytumst vitsmunalega ævina á enda, ef við erum opin fyrir því. Samfélagsmiðlar nærast á einstaklingum sem virða hvorki eigin mörk né annarra þegar kemur að þessu – því miður.
Þegar við virðum andleg mörk okkar og annarra snýr það að virðingu gagnvart ólíkum leiðum sem fólk velur að fara í lífinu á sama tíma og við veljum sjálf okkar leið. Orkugjafarnir í lífi okkar eru mismunandi og við þurfum að vera meðvituð um hvernig við hlöðum okkur og hvaða þættir tæma orkuna. Ég hleð t.d. andlega orkutankinn minn á meðan ég skrifa þennan pistil á meðan aðrir verða bara þreyttir við þá tilhugsun, svo við skyldum varast að ætla öðrum sömu orkugjafa og henta okkur. Þegar við finnum það sem hentar okkur og virkjum þá orkugjafa í lífi okkar verðum við næmari á hvenær við erum uppfull af orku og hvenær tankurinn okkar er tómur. Þegar við erum andlega vel nærð eigum við í betri samskiptum við aðra, eigum auðveldara með að sýna öðrum samkennd og hugsa út fyrir okkur sjálf, erum virkari samfélagsþegnar og farsælli svona heilt yfir.
Hvernig gengur þér að setja þér og öðrum heilbrigð mörk varðandi þá þætti sem hér eru nefndir? Ekki ólíklegt að þú eigir auðveldara með það varðandi suma þætti en aðra og það er mjög eðlilegt. En meðvitund er til alls fyrst og gott að skoða hvar þú telur mikilvægast að taka þig á og byrja svo rólega. Flestir eiga erfiðast með að setja mörk í nærumhverfinu og þá er átt við nánustu fjölskyldu og vini. En það eru líka samskiptin sem skipta okkur mestu máli og því liggur það í hlutarins eðli að þau reynist okkur erfiðust.
Þessi pistill er aðeins lengri en vanalega - vona að þú hafir haldið út hingað
Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni. Í Hamingjuhorninu eru fróðlegir og innihaldsríkir pistlar um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum, ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur síðuna hennar , en hún leifði ÞÚ skiptir máli síðunni að nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.