Ég leiddist út í dóp og vændi - reynslusaga
Ég var lengi að átta mig á því hvað ég var djúpt sokkin. Stelpur sem voru með mér í skóla sögðu mér oft að ég væri byrjuð að selja mig en ég þvertók alltaf fyrir það. Ég vildi ekki horfast í augu við staðreyndirnar,“ segir fórnarlamb eineltis, sem gerði allt til þess að öðlast tilverurétt í þessum heimi.
Eftir áralanga útskúfun leið henni eins og hún væri Palli sem var einn í heiminum, ein og yfirgefin. Á Hlemmi kynntist hún svo loksins krökkum sem virtu hana viðlits og guðslifandi fegin fylgdi hún þeim í blindni ofan í heim fíkniefna, ofbeldis og vændis. Allt til þess að tilheyra hópnum. „Ég bara elti,“ segir hún. „Fyrst var ég meðvituð um að það væri eitthvað rangt við þetta því ég var með hnút í maganum en ég hunsaði það bara. Ég vildi vera með.“
Hún var að verða fimm ára þegar foreldrar hennar lentu í bílslysi sem hafði miklar og alvarlegar afleiðingar í för með sér. „Mamma hefur farið í 42 aðgerðir og báðir foreldrar mínir hafa verið illa funkerandi síðan. Þau voru mjög fljót að einangrast, urðu bæði þunglynd og vesluðust upp andlega og líkamlega. Í dag komast þau ekki upp úr rúminu án lyfjakokteils og heimur þeirra er aðeins innan veggja heimilisins.
Áfallið breytti okkur öllum. Ég stökk í móðurhlutverkið og nánast ól litlu systur mína upp. Ég þroskaðist því hraðar en bekkjarsystkini mín. Systir mín fór í mótþróa og reif kjaft við allt og alla. Bróðir minn slapp best, hann er búinn með stúdentsprófin og er í háskólanámi í dag.“
Fljótlega var farið að stríða henni í skólanum fyrir að vera öðruvísi og vegna fjölskyldusögunnar. „Ég átti enga vini. Reyndar fékk ég stundum að vera með tveimur stelpum sem voru ekkert rosalega vinsælar í skólanum eða þegar fólk var farið að vorkenna mér mjög mikið. Síðan fór ég ein í bíó, sund eða keilu því ég þráði að gera eitthvað annað og skemmtilegra en hafði engan til að fara með. Þannig að ég sætti mig við það að fara ein.