Að fyrirgefa
Margir byrja á að bregðast reiðir við þegar minnst er á að fyrirgefa það sem hent hefur eða verið gert á hlut okkar. Telja þeir sig þá vera að samþykkja gjörninginn sem þeir telja rangan. Fyrirgefningin snýst ekki um að samþykkja neitt, heldur losa sig við afleiðingar gjörningsins og sleppa valdi gerandans út úr lífi sínu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.
Þarna er gott að staldra við og gera sér grein fyrir að við erum sjálf okkar eigin gæfusmiðir því í öllum aðstæðum eigum við val um hvernig við viljum vinna úr aðstæðum okkar. Ef við leggjum okkur fram um að vera heiðarleg við okkur sjálf, sjáum við að við eigum möguleika á að koma auga á þau tækifæri sem bíða okkar í öllum aðstæðum sem getur fært meiri gleði og hamingju inn í líf okkar.
„Að fyrirgefa er eins og að gefa fanga frelsi og uppgötva að fanginn ert þú sjálf/ur“.