Smám saman fór líf mitt að breytast.
Ég vissi lítið um AA samtökin þegar ég kom á minn fyrsta fund fyrir um þremur árum. Það eina sem ég vissi var að ég átti við áfengisvandamál að stríða og varð að gera eitthvað í málunum. Í fáeina mánuði gekk mér ágætlega á fundum. Ég tók meira að segja þátt í sumum þeirra, en áfengisvandamálið var óleyst. Það var ekki fyrr en ég kynntist 12 sporum AA samtakanna, sem rann upp fyrir mér að fram að því hafði ég bara átt áfengisvandamálið sameiginlegt með félögum mínum, ekki lausnina. Ég hafði aldrei lesið AA bókina og aðeins lesið sporin á stórum spjöldum á veggjum fundarherbergja. Mér leið orðið mjög illa, ég sá frammá að ef ég gerði ekki eitthvað rótækt, þá færi ég aftur að drekka.
Svo ég fór að vinna sporin út úr neyð kannski en þegar neyðin er stært er hjálpin næst ( eða ég ætti frekar að segja lausnin). Ég ákvað að setja til hliðar allt sem ég taldi mig vita um alkóhólisma og vera fús til að læra eitthvað nýtt. Og það sem meira var, ég hætti að lesa sporin og fór að taka þau með trúnaðarmanni. Það kom í ljós þegar við fórum að skoða AA lausnina að ég vissi ekkert um þennan sjúkdóm minn. Smám saman fór líf mitt að breytast.
Ég tók stærstu ákvörðunina í lífi mínu til þessa að láta líf mitt lúta handleiðslu Guðs. Guð hefur gert fyrir mig, það sem ég gat ekki gert sjálfur. Hann hefur gefið mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt og kjark til að breyta því sem ég get breytt. Í fjórða og fimmta sporinu skoðaði ég fortíðina og þar opnaðist fyrir mér alveg nýr heimur.
Í fyrsta skipti sá ég líf mitt í réttu ljósi; eigingirnina, óttann og reiðina sem hafði stjórnað lífi mínu. Í níunda sporinu fékk ég tækifæri til að biðja vini mína og fjölskyldu fyrirgefningar á því sem ég hafði gert á þeirra hlut, og svo fékk ég tíunda ellefta og tólfta til að lifa daginn í dag.