Ástar- og kynlífsfíkn
Þróun kynlífsfíknar
Sumir menn bragða aldrei áfengi eða eiturlyf og verða því aldrei alkóhólistar. Aðrir taka fyrsta sopann og segjast svo hafa verið fíklar allt frá þeirri stundu, alltaf drukkið “alkóhólískt” eins og það er kallað, það er að segja, öðruvísi og jafnvel í öðrum tilgangi en annað fólk, meira, oftar og til að lina sársauka eða bæta upp vanmáttakennd. Þeir eru hins vegar færri sem aldrei lifa neins konar kynlífi. Það er ekki hægt að sjá það í fyrstu hver verður fíkill og hver ekki, hvort sem um kynlíf eða fíkniefni er að ræða. Og þaðan af síður er hægt að sjá fyrir hvað verður eftirlætisefni alkóhólistans (sljóvgandi efni eins og áfengi, örvandi efni eins og amfetamín eða ofskynjunarefni eins og LSD). Eins er ekki hægt að segja til um hvaða svið kynlífshegðunar verður eftirlæti kynlífsfíkilsins eða hvaða hegðunarflokkur. Í alkóhólisma byrja flestir á því að drekka og leiðast svo út í kannabisefni og þaðan í önnur og sterkari efni. Þannig er undanfari helsæluneyslu yfirleitt neysla á amfetamíni og kannabisefnum. Í kynlífsfíkninni er svipað uppi í teningnum. Flestir byrja eflaust á sjálfsfróun, fara svo út í kynóra, þá koma mök við aðra manneskju og þá fikt við ýmis kynfrávik. En rétt eins og sumir alkóhólistar halda sig bara við áfengi halda sumir kynlífsfíklar sig bara við kynhegðun á sviði eitt, það er að segja þá kynhegðun sem telst eðlileg. Þá er rétt að hugaað því hvernig fíknin verður til, sama á hvaða sviði eða í hvaða hegðunarflokki hún er. Segja má að greina megi nokkur stig fíknarinnar.
1. Upphafið:
Í stað þess að kynlífið sé tjáning á ást og notað til að dýpka sambandið milli tveggja einstaklinga er það notað sjálfs síns vegna til að kalla fram vellíðan, oft til að flýja erfiðar aðstæður eða takast á við erfiða atburði. Aðstæður sem kalla á svona hegðun eru til dæmis mikið álag og miklar væntingar samhliða litlu aðhaldi, til dæmis í framhaldsnámi, stjórnunarstöðum eða þegar menn hafa náð langt í íþróttum eða listum. Með fíkninni má fá stundarfróun og gleyma öllu amstri, hvort sem það er álag eða leiðindi. því dæmi um gjörólíkar aðstæður sem kalla á svona hegðun er mjög einhæf vinna eða atvinnuleysi. Þeir atburðir sem kalla á svona hegðun eru til dæmis missir, til dæmis fráfall foreldris, sambandsslit eða kynferðislegt áfall, svo sem að verða fyrir misnotkun eða nauðgun eða að verða vitni að hömlulausri kynhegðun foreldra.
2. Fíknin fest í sessi:
Ákveðið hegðunarmynstur mótast. Fíkillinn finnur kynhegðun sem honum líkar, stundum fleiri en eina, og fer svipaða leið að fullnægingu í hvert sinn. Þannig mótast ákveðið munstur eða ritúal, og fíkillinn finnur fyrir vellíðan, jafnvel eins konar leiðslu, þegar hann hefur leikinn. Kynhegðunin verður áráttukennd og í kjölfar hennar finnur fíkillinn oft til skammar og örvæntir. Sumir fíklar halda sig að meira eða minna leiti bara á þessu stigi þróunarinnar. Fyrsta vísbendingin um að fíkillinn sé kominn á þetta stig er að hegðunin verður regluleg, fyrirsjáanleg. Carnes vill meina að á þessu stigi myndist ákveðinn vítahringur í fjórum liðum. Í fyrsta lagi er fíkillinn mjög upptekinn af fíkninni (preoccupation). Flestum fíklum nægir að hugsa stíft um kynlíf til að komast í einhvers konar leiðslu sem getur lokað á gráan hversdagsleikann og kröfur hans. Þetta leiðir oft til lítilla afkasta í vinnu eða námi og því að hlutun er velt á undan sér, öllu slegið á frest. Þegar fíkillinn gleymir sér í þessum draumaheimi er hann í raun búinn að missa tökin. Til að ná bata er því mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvenær dagsins, hvar og við hvaða kringumstæður það er helst hætta á að leiðast út í síkt. Næsta stig hringsins er svo að fara út í munstrið (ritúalinn) sem fíkillinn hefur komið sér upp. Með því móti hleðst upp enn meiri spenna svo áhrifin verða meiri en ella. Munstrið getur til dæmis falist í því að fara alltaf á ákveðinn stað, skoða klám eða jafnvel að neyta áfengis eða lyfja. En það getur líka verið hluti af munstrinu að koma af stað illindum við makann til að geta rokið út í réttlátri reiði og “átt það skilið” að leita huggunar eða fróunar annars staðar. Þegar draumaheimurinn og hegðunarmunstrið leggjast saman er fíkillinn kominn út á hálan ís og erfitt að stöðva hann. Hann er kominn í annarlegt ástand, í eigin hugarheim og það sem er fyrir mestu er að komast yfir skammtinn, sama þótt það hafi í för mér sér mikla áhættu eða geti haft alvarlegar afleiðingar. Þá tekur við þriðja stig hringsins, áráttukennd kynhegðun. Hegðunin er sögð áráttukennd af því að hún er stjórnlaus. Segja má að þetta sé kjarninn í hverri fíkn. Það er hins vegar ekki hlaupið að því að skilgreina hvenær hegðunin er orðin stjórnlaus, því hún getur tekið á sig svo margar myndir. Það er ekki hægt að nota tíðni hegðunarinnar sem viðmið því það er ekki hægt að segja að það sé afbrigðilegt að fróa sér X-oft á dag eða sænga hjá X-mörgum rekkjunautum á ári. En flestir telja sjálfsagt sjálfsfróun tíu sinnum á dag eða í tvær klukkustundir, 30 til 40 rekkjunautaa á ári eða 5 til 10 ástarsambönd í einu fullmikið af því góða og bera vott um stjórnleysi. En stundum kemur fram túra-munstur. Fíkillinn hefur fulla stjórn á sér í nokkrar vikur og jafnvel mánuði en svo “dettur hann í það” og veltist um í æstum leik eins og óður væri í fimm til tíu daga og verður svo góður aftur. En þarna er líka um munstur að ræða. Lokastig hringsins er svo skömm og örvænting samkvæmt kenningu Carnes. Eftir æsinginn, örvunina og fullnægingu draumóranna, hegðunarmunstursins og sjálfrar kynhegðunarinnar dettur fíkillinn niður í svartnættið. Örvæntingin og skömmin valda því svo að fíkillinn þarf að hefja hringinn að nýju til að fá einhverja fróun og svölun. Þannig verður þetta vítahringur. Með hringrásinni reynir fíkillinn að halda sársaukanum í skefjum. Þótt þessi mynd af vítahring geti verið sannfærandi við fyrstu sýn er rétt að staldra örlítið við og athuga málið aðeins betur. Þeir kynlífsfíklar eru vissulega til sem hafa ekkert við sýna kynlífsfíkn að athuga og telja hana hið besta mál. Rétt eins og það eru til alkóhólistar sem eru hæstánægðir með sína drykkju. Það má ekki gleyma því að það hvílir ákveðinn töfraljómi yfir fjöllyndi karla, samanber James Bond, Casanova eða John F. Kennedy. Rannsókn Carnes byggir hins vegar fyrst og fremst á fíklum sem hefur ofboðið eigin hegðun og leitað hafa sér hjálpar samkvæmt tólf spora kerfinu. Sú staðreynd og nálgun tólf spora kerfa (númer eitt að viðurkenna vanmátt sinn) hefur óneitanlega áhrif á niðurstöðu rannsókna á þeim.
3. Sókn:
Hegðunarmunstrið er fastmótað og hegðunin færist í aukana við vissar aðstæður. Fíkillinn vill nú tíðara kynlíf, ákafara og jafnvel meiri áhættu. Sífellt lengri tíma er varið í hegðunina og jafnframt verður minni tími til að sinna öðrum þáttum í lífinu. Dæmi um vöxt geta til dæmis verið að fíkillinn vill fara að vera með mörgum rekkjunautum, leitar eftir skyndikynnum tvisvar til þrisvar í viku, hættir að vera í hverju sambandinu á fætur öðru og fer að vera í mörgum samböndum samtímis, berar sig ekki lengur á nóttunni heldur á daginn eða ver ekki tveimur klukkutímum á viku í það að skoða klám á netinu heldur þremur til fimm tímum á dag. Skýrasta vísbendingin um að fíknin sé í vexti er þegar fíkillinn fer að taka meiri áhættu en áður, færir sig til dæmis af sviði eitt (eðlileg kynhegðun) yfir á svið tvö (afbrigðilegt) eða þrjú (glæpsamlegt). Á þessu stigi verður mikið álag á fjölskyldulíf og fjárskortur gerir oft vart við sig. Fíkillinn getur komist í kast við lögin og þurft að leita sér lækninga vegna kynsjúkdóma. Svefnleysi og spenna einkenna einnig þetta stig fíknarinnar. Skapsveiflur geta verið miklar og fíkillinn fer upp í hæstu hæðir og allt niður í þunglyndi og sjálfsvígshugsanir.
4. Rénun:
Fíknin er enn til staðar en hegðunin er ekki svo tíð. Ef fíkill verður fyrir því að upp um hann kemst lofar hann oftar en ekki bót og betrun og meinar það meira að segja. Slík frelsun er alþekkt og gengur undir nafninu fangelsisfrelsun (jail cell conversion). En þegar fíklinum er sleppt tekur hann aftur upp fyrri háttu. Hins vegar koma stundum skeið hjá fíklum þegar hegðunin er í rénun og það getur verið erfitt að greina á milli rénunar og bata. Fíkill reynir að ná tökum á kynhegðun sinni og halda sig á mottunni, það er að segja við ásættanlega kynhegðun á sviði eitt. Sumir ná tökum á hegðuninni en halda áfram að láta sig dreyma um hana á meðan aðrir reyna að hugsa ekkert um hana. Þótt fíkninni sé skipt í fimm stig eru þau ekki alltaf skýr. Ein hegðun getur til dæmis verið í rénun á meðan önnur er í sókn. Á meðan ein hegðun er að festast í sessi getur önnur hegðun verið að byrja og svo framvegis. Sumir fíklar geta líka verið á stigi rénunar í ótiltekinn tíma og lenda aðeins í stöku sprungum (gömul hegðun skýtur upp kollinum í mjög skamman tíma og að óverulegu leyti) sem minna þá á þennan veikleika. En þegar fíknin kemst á fimmta og síðasta stigið kemur annað hljóð í strokkinn.
5. Bráðastig.
Veruleikatenging rofnar, gildi mega sín lítils og fíkillinn einangrast. Hegðunin verður afar stíf – fastmótuð. Tíðni hegðunarinnar eykst stórlega og hættur eru hunsaðar og allur kostnaður í kringum hana stóreykst. Hegðunarmunstrið er framkvæmt jafnvel þótt að það blasi við að það sé stórhættulegt, ekki kemur til greina að hnika þar neinu. Fíkillinn er heltekinn af fíkninni en skömm og örvænting láta lítið á sér kræla. Fíkillinn gerir sér takmarkaða grein fyrir þeim áhrifum sem hegðun hans hefur á hann sjálfan og aðra. Sársaukinn hverfur hins vegar ekki en verður svo hversdagslegur að hann hættir svo til að taka eftir honum. Á þessu stigi kann önnur fíkn að blómstra, fíkillinn missir vinnuna og fjölskyldan flosnar upp. Hann getur þjáðst af svefnleysi, kynssjúkdómum, ótímabærum þungunum, orðið fyrir ofbeldi og vannæringu. Algengt er að fíkillinn komist í kast við lögin. Þótt fíkillinn sé vissulega langt leiddur á þessu stigi er þó hægt að ná bata. Sumir ná þó ekki að snúa við og við tekur lokastig fíknarinnar, krónísk fíkn.
6. Krónískt stig.
Fíkninni verður ekki snúið við. Engin meðferð dugar. Á þessu stigi eru flestir fíklar komnir á stofnun, þeir hættulegustu í fangelsi. Hegðun takmarkast bara af tækifærum. En eins og áður hefur verið tekið fram eru kynferðisbrotamenn ekki endilega kynlífsfíklar. Hlutfall kynlífsfíkla á meðal nauðgara er ekki hátt. Nauðgun er að vísu kynferðisleg athöfn á yfirborðinu en í raun snýst hún um annað en svölun kynhvatarinnar
Einkenni kynlífs- og ástarfíknar
Þar sem við kunnum ekki að setja heilbrigð mörk tengjumst við fólki kynferðislega og/eða tilfinningalega án þess að kynnast því fyrst.
Við erum í og leitum aftur í sársukafull og mannskemmandi sambönd vegna þess að við erum hrædd við að vera ein og yfirgefin. Við felum þetta atferli okkar fyrir öðrum og sjálfum okkur líka og verðum því stöðugt einangraðri frá vinum okkar og fjölskyldu, okkur sjálfum og Guði.
Við óttumst að líða tilfinningarlegan og/eða kynferðislegan skort og leitum því af þráhyggju í samband eftir samband og eigum stundum í fleiri en einu kynlífs- eða tilfinningasambandi í einu.
Við þekkjum ekki muninn á ást og eymd eða þörf , því að laðast líkamlega og kynferðislega að einhverjum, samúð, eða þörf fyrir að bjarga einhverjum eða einhver bjargi okkur.
Okkur finnst við innantóm ,ófullkomin og vanheil þegar við erum einsömul. Þrátt fyrir að við óttumst nánd og skuldbindingu leitum við stöðugt að ástarsamböndum og kynlífsfélögum.
Við leysum eftirfarandi tilfinningar með kynlífi: Streitu, sektarkennd, einmanaleika, reiði, skömm , ótta og öfund .
Við notum kynlíf og tilfinningaleg samskipti til að stjórna fólki og láta það gera það sem við viljum.
Við getum orðið óstarfhæf eða afar trufluð af rómantískum eða kynferðislegum fantasíum og dagdraumum
Við komum okkur hjá því að taka ábyrgð á sjálfum okkur með því að tengjast fólki sem hefur ekkert að gefa okkur tilfinningalega.
Við erum þrælar meðvirkra tilfinningasambanda, rómantískra leikja eða áráttuhegðunar.
Til að reyna að verja okkur frá óþægilegum tilfinningum eigum við til að draga okkur í hlé frá öllum nánum samskiptum og teljum okkur trú um að tilfinningalegt og kynferðislegt lystarstol sé bati
Við sveipum þráhyggjuna okkar töfraljóma, gerum hana að guðlegri veru og gerum allt til að láta sambandið ganga. Svo kennum við þeim um þegar þær standast ekki væntingar okkar og lifa ekki upp í dagdraumana.
Manneskja sem elskar of mikið
Einkenni
1. Að öllum líkindum var æskuheimili mitt sjúkt og tilfinningalegum þörfum mínum ekki mætt þar.
2. Þar sem tilfinningalegum þörfum mínum var ekki sinnt sem skyldi reyni ég að fá þeim fullnægt með því að annast aðra, einkum þó fólk sem mér finnst þurfa á slíku að halda.
3. Þar sem mér tókst aldrei að breyta foreldrum mínum í hlýtt og elskulegt fólk sem annaðist mig, þá dregst ég mjög sterklega að fjarrænu fólki sem kallar fram kunnuglegar tilfinningar en hefur enga ást að gefa mér. Mig langar að ást mín breyti þeim.
4. Ég óttast svo mjög að vera yfirgefin/n að ég geri hvað sem er til að halda sambandi gangandi
5. Ekkert er of erfitt, dýrt eða tímafrekt ef það “hjálpar “ þráhyggjunni minni
6. Þar sem ég á að venjast ástleysi í persónulegum samböndum er ég reiðubúin/n til að bíða, vona og reyna enn meira að falla þráhyggjunni minni í geð
7. Ég er reiðubúin/n að axla miklu meira en helminginn af allri ábyrgð, samviskubiti og sekt í sambandinu
8. Sjálfsálit mitt er afar lítið og innst inni finnst mér ég ekki eiga skilið að vera hamingjusamur/söm. Mér finnst að ég þurfi að vinna mér inn rétt á því að njóta lífsins.
9. Ég hef mikla og örvæntingarfulla þörf á að stjórna fólki og samböndum þar sem ég naut svo lítils öryggis í bernsku. Ég dulbý stjórnsemi mína sem “Hjálpsemi.”
10. Þegar ég er í ástarsambandi veit ég miklu meira um hvernig sambandið gæti verið/ætti að vera en hvernig það er.
11. Ég er háð/ur þráhyggjunni minni og tilfinningalegum sársauka
12. Ég er líkleg/ur tilfinningalega og oft líka lífefnafræðilega til að vera fíkill á lyf, áfengi og/eða ákveðinn mat, einkum þó sætan og sykraðan mat.
13. Þar sem ég er stöðugt að hjálpa öðru fólki að leysa sín vandamál og/eða í aðstæðum sem eru óvissar og tilfinningalega sársaukafullar kemst ég hjá því að taka ábyrgð á eigin lífi.
14. Ég á til að falla í tímabundið þunglyndi sem ég reyni að forðast með því að upplifa spennuna í óstöðugu ástarsambandi
15. Ég hef ekki áhuga á fólki sem er gott, áreiðanlegt, heiðarlegt og hefur áhuga á mér. Mér finnst svoleiðis “almennilegt” fólk leiðinlegt.
Aðtandandi kynlífsfíkils segir frá
Litla mamma er einstök móðir eins og allir einstæðir foreldrar.
Oft erfitt en ekki eins erfitt og ég hefði haldið.
Annars velur sér enginn (held ég ) að vera einstæður foreldri. Þegar ég kynntist mínum fyrrverandi þá hélt ég auðvitað að nú væri hamingjan komin til að vera. Trúlofun, gifting og barneignir samkvæmt bókinni EN ég var svo græn og saklaus. Eins og margir trúði ég að makinn væri bara enn og aftur að vinna yfirvinnu. Þar til einn daginn að ég stóð hann að verki og vá hvað mér brá............það litla sjálfstraust og sú litla virðing sem ég hafði fyrir sjálfri mér fór í vaskinn. Það heldur jú enginn framhjá góðri konu!! Ég uppgötvaði einnig að hann var og er líklega enn í dag haldinn mikilli kynlífsfíkn sem hann fullnægði á netinu á hinum ýmsu síðum.
Reynt var og reynt var þ.e. ég reyndi að laga mig og breyta en hjónabandið lagaðist ekki neitt. Ég held að sú mesta vitleysa sem fólk gerir sé að reyna að laga það sem ekkert er. Einn daginn kviknaði ljós og ég skildi. Skrýtin tilfinning eftir áralangt andlegt ofbeldi þegar ljósið kemur allt í einu á sekúndubroti og maður sér hve fallegt og skemmtilegt lífið getur verið. Og maður hikar ekki við að breyta lífsleiðinni á þessa skemmtilegu braut í stað þeirrar sem maður er fastur í.
Hugsað til baka 15-18 ár aftur þegar ég var töff gella, engum háð og naut mín í botn hefði mig ekki órað fyrir því sem eftir átti að koma. Í byrjun var sambandið mjög gott, eins og það átti að vera. Eldri bróðir minn orðaði það þannig, fyrrverandi var of góður til að vera sannur. En smátt og smátt komu lítil atriði, athugasemdir um útlitið, vanhæfni mína og hvernig ég átti að halda heimilið að hans mati. Ekki áberandi í byrjun en óx og vatt uppá sig og síðustu 3-4 árin voru hræðileg. Ég skil ekki hvernig ég lét bjóða mér t.d. að tekinn væri af mér bíllinn, launin mín voru tekin og stöðugt var skammast út af útliti mínu. Mér var tilkynnt hver staða mín sem húsmóðir væri og að honum hentaði þetta og hitt. Þá reyndar átti ég ekki til orð og upp úr þeim lestri fór eitthvað að brjótast í kollinum á mér. Ég var að kafna, undir niðri var lítil rödd sem vissi að ég var ekki ómöguleg og reyndi að koma því að. Ég hugsaði þetta lengi og safnaði kjarki. Var gersamlega búin að fá ógeð á þessum manni sem kvaldi mig og píndi. Óskaði þess heitast að bíll keyrði á hann og hann dræpist. En þegar ég sá fram á að sú ósk myndi ekki rætast var kominn tími til að gera eitthvað. Ég fór dag einn til vinkonu, fékk að sjálfsögðu barnapíu á meðan svo fyrrverandi þyrfti nú ekki að sinna börnum en það gerði hann aldrei. Ræddi málin við vinkonuna en hennar svar var " heldurðu virkilega að það bíði þín eitthvað betra þarna út?" og svo kom þessi setning sem situr svo fast í mér og særir svo mikið enn í dag " þetta vildirðu, þú valdir hann sjálf". Svona segir maður auðvitað ekki. Það getur enginn séð fyrirfram hvernig maki hegðar sér eftir einhvern tíma. Engan hefði órað fyrir því að hann myndi kúga mig svona og engum datt í hug að hann myndi pína mig stöðugt með athugasemdum um útlitið. Og engum datt í hug að þessi kurteisi maður sem alltaf var vel til fara og kom vel fyrir skyldi neita konunni sinni um að kaupa föt og skyldi yfirheyra hana eftir innkaup í Bónus hvers vegna þetta og hitt var keypt og hvort nauðsynlegt hefði verið að kaupa þetta og hitt. Þessi vinkona mín átti lengi erfitt með að trúa framhjáhaldinu, enn í dag tekur hún upp hanskann fyrir hann. En hvað um það, sem betur fer var þetta ekki mikið bakslag því rétt á eftir hringdi besta vinkona mín. Ég var eins og flestir geta ímyndað sér aðeins skugginn af því sem ég var og fór hún að pumpa. Hætti ekki fyrr en ég opnaði mig og sagði alla söguna. Þá spurði hún tveggja spurninga sem opnuðu augu mín, þ.e.... "viltu eyða ævinni í þetta?" og " viltu vakna upp 65 ára og búin að lifa svona alla ævi?" Það var eins og eitthvað gerðist í kollinum á mér. Reyndar kom fyrrverandi heim akkúrat þarna og samtalið varð ekki lengra. Í dag veit ég að hún lagði á og sagði við manninn sinn" ég er viss um að þau verða skilin áður en sumarið er á enda" Og það stóðst. Einhvern veginn tókst mér að fá bílinn stuttu seinna, pakkaði niður og fór til ættingja. Hringdi í fyrrverandi og fór fram á skilnað. Hann varð auðvitað galinn en ég var sterk og hörð og fékk mínu fram.
Margir velta fyrir sér af hverju ég fór ekki fyrr. Jú svarið er einfalt, ég var dofin, heilaþvegin og skammaðist mín fyrir mitt líf, sjálfa mig og mest fyrir að viðurkenna að ég hefði valið "rangt". Skammaðist mín fyrir að viðurkenna að ég yrði fráskilin, einstæð móðir. Mér hafði mistekist og það skammaðist ég mín fyrir. En í dag ber ég höfuðið hátt, mér mistókst ekki heldur var mér ætluð þessi reynsla af Guði til að kenna mér, undirbúa mig fyrir eitthvað annað mun skemmtilegra og fallegra.
Frá þeim degi sem ég skildi hef ég brosað.
Ástæðan fyrir nafnleyndinni er sú að enn eru hörð og ljót málaferli í gangi hjá sýslumanni. Ég hef fengið margt á mig, mikið á mig logið og uppspunnið og þori ég hreinlega ekki að gefa upp nafn hérna af ótta við viðbrögð fyrrverandi eiginmanns og hans fjölskyldu. Hann telur sig í dag ekki hafa gert neitt á minn hlut sem segir mér að hann er mjög veikur maður. Til verndar mér og mínum nota ég aðeins litla mamma en finnst þó nauðsynlegt til varnar öðrum að segja sögu mína. Og kannski (vonandi) til hjálpar einhverjum. Og kannski mest til hjálpar sjálfri mér með því að segja sögu mína.