Spilafíkn
Þegar talað er um meðferð við spilafíkn er átt við hvers konar samstarf spilasjúklingsins við einhvern meðferðaraðila, hver svo sem það er. Hentugasta formið er stuðningshópvinna, þar sem spilafíklar vinna saman í hóp undir handleiðslu ráðgjafa. Umræða á stuðnings hópfundi og áætlanir þátttakenda þurfa að snúast um þau verkefni sem hér verða rakin. Hugsanlegt er að skipuleggja samvinnu í viðtalsmeðferð á þessum grundvelli, en þeir sem reynsluna hafa mæla eindregið með stuðnings hópvinnunni.
Áður en við snúum okkur að sjálfum verkefnunum er nauðsynlegt að skerpa skilning okkar á því hvernig bati fæst við spilafíkn.
Að skilja batann sem verkefni
Spilasjúklingur verður að tileinka sér þann skilning á bata að hann felist í framkvæmdum eða aðgerðum hans sjálfs. Því er gríðarlega þýðingarmikið að umbreyta hugmyndum okkar og þekkingu á bataþróuninni í verkefni sem okkur er ætlað að leysa. Þetta er mikilvæg breyting á hugsunarhætti. Spilasjúklingar hafa allir rekið sig á að þeim er hætt við hvers kyns dagdraumum, alls konar hugmyndum um hið stóra „BARA EF... Bara ef ég mundi nú vinna stóran pott. Bara ef ég gæti nú skuldbreytt einu láni og fengið annað stórt með léttari greiðslubyrði. Bara ef ég væri einu sinni látinn í friði...” Spilasjúklingar hafa líka rekið sig á hversu óábyrgir þeir eru í hugsun og gerðum. Þeir eru vanir því að upplifa sjálfa sig sem fórnarlömb örlaganna eða ytri aðstæðna og getulausa til að hafa áhrif á sitt eigið líf.
Þar með eru þeir vanir að hugsa sér að lausn vandans sé komin undir því að einhver annar eða aðrir en þeir sjálfir geri hlutina. Ef við breytum ekki þessum hugsunarhætti, hvaða áhrif hefur hann þá á viðhorf okkar til batans? Það er hætt við að við lesum okkur til um bataþróunina eða heyrum fyrirlestur um hana eða frásagnir GA – manna sem náð hafa bata og byrjum að láta okkur dreyma um að okkur batni og bíðum átekta eftir að svo verði. Það sem gerist þá er að við hættum í mesta lagi tímabundið að spila. Ef við gerum ekkert annað sér sjúkdómurinn sjálfur um framhaldið: Fyrr eða síðar nær spilafíkinn hugsunarháttur tökum á okkur, upp kemur líðan sem við kunnum ekki að takast á við (pirringur, eirðarleysi, kvíði, leiði, þunglyndi) og hegðun okkar fer í sama farið og endar með því að við byrjum að spila aftur. Batinn er ekki eitthvað sem við eigum að bíða eftir. Hann er heldur ekki eitthvað sem aðrir gera fyrir okkur. Bataþróun fer ekki sjálfkrafa í gang við það að við hættum að spila í einn dag, tvo daga, eina viku, einn mánuð... Bataþróun er komin undir því hvað við gerum sjálf, - með hjálp annarra auðvitað, - og þess vegna er hollast að skilja hana sem röð af verkefnum sem við þurfum að takast á við.
Tíu verkefni
Nú höfum við fengið yfirlit um sjúkdóminn spilafíkn og kynnt okkur Þá ættum við að hafa nægar upplýsingar til að geta tekið stefnuna inn á nýja lífsbraut. En við gætum þurft hjálp til þess. Hér eru tíu verkefni sem við getum unnið að saman á stuðningshópfundum. Séu þau öll leyst hefur okkur miðað töluvert áleiðis.
Verkefnin eru þessi
1. Að gefast upp og viðurkenna vandamálið.
2. Að leita eftir og þiggja aðstoð.
3. Að byrja að sækja GA – fundi reglulega.
4. Að tileinka okkur heiðarleika og hætta að þykjast.
5. Að gangast við tilfinningum okkar.
6. Að læra að þekkja vítahring spilasýkinnar.
7. Að læra að takast á við streitu og vinna úr erfiðum tilfinningum.
8. Að endurskoða viðhorf okkar og hugsunarhátt.
9. Að gera áætlun um að hreinsa til, - temja okkur ábyrgð og hreinskiptni.
10. Að leita sátta.
Þessi verkefni eru ekki leyst algerlega aðskilin hvert frá öðru í tímaröð. Næsta verkefni getur komist á dagskrá án þess að fyrra verkefni sé að fullu leyst. Röðin minnir okkur aðeins á að ekki er hægt að byrja á öfugum enda. Við skulum glöggva okkur á þessum verkefnum nægilega mikið til að skilja hvað í þeim felst. Fyrir hvern og einn eru þau persónuleg og því skýrast þau aðeins í framkvæmd.
1. Að gefast upp og viðurkenna vandamálið
Fyrsta verkefni okkar er að gefast upp fyrir spilafíkninni og viðurkenna vandamálið. Ekki er nóg að segja við sjálfan sig og aðra að nú sé mál að linni. Það höfum við gert oft áður. Það sem þarf að koma til er að gefast raunverulega upp, hætta að reyna að spila, horfast í augu við veikleikann og ögra sjálfum sér ekki á nokkurn hátt. Þetta heitir að viðurkenna vanmátt sinn. Við þurfum líka að viðurkenna vandamálið með því að vera tilbúin til að fræðast um það, tala um það við aðra, segja frá ferli okkar og reynslu og hlusta á reynslu annarra. Við þurfum einnig að ná þeim áfanga að hætta að ásaka aðra. Allt gerir þetta okkur meðvituð um vandann. Hér sveiflumst við milli þess að trúa því að vandamálið sé spilafíkn og halda að vandamál okkar séu fjárhagsvandræði eða einhver óheppni. Á meðan okkur hættir til að trúa að afleiðingar spilasýkinnar séu verkurinn en ekki hún sjálf, getum við átt á hættu að grípa til úrræða sem engum árangri skila.
Samantekt
1. Viðurkenna að við ráðum ekki við vandamálið.
2. Skilja og viðurkenna að vandamálið er spilafíkn en ekki peningar. Hér erum við byrjuð að temja okkur raunsæi.
3. Viðurkenna að við verðum að hætta öllu fjárhættuspili. Hér erum við að taka afleiðingunum af raunsæju mati.
4. Hugsa um það á hverju kvöldi og taka um það ákvörðun að spila ekki á morgun. Hugsa um það á hverjum morgni og taka um það ákvörðun að spila ekki í dag. Hér erum við að kljást við óþolinmæðina og dagdraumana, - einn dag í einu.
2. Að leita eftir aðstoð
Næsta verkefnið er að þiggja og leita eftir þeirri aðstoð sem býðst. Það er enginn vandi og skilar litlu að koma í viðtal hjá ráðgjafa eða einhverjum öðrum fagmanni og vera tilbúinn að láta hann spyrja, gefa ráðleggingar og gera eitthvað fyrir mann. Þetta er ekki að þiggja aðstoð. Að þiggja og leita eftir aðstoð er að bera sig raunverulega eftir henni, hlusta á aðra, þiggja ráð og leggja sig fram við að fara eftir þeim, mæta samviskusamlega í viðtöl eða á stuðningshópfundi, leggja sig fram við að taka þátt eins og ætlast er til o.s.frv. Aðstoð annarra verkar í réttu hlutfalli við hve spilasjúklingurinn er virkur sjálfur. Þetta er lykilatriði. Við eigum auðvitað erfitt með að leita eftir og þiggja aðstoð ef við erum ekki komin eitthvað áleiðis í því að viðurkenna vandann, - spilasýkina sjálfa. Auðvitað erum við enn svolítið rugluð í þessum efnum þegar við berum okkur eftir hjálp. En þá tekur önnur togstreita við. Til þess að nýta aðstoð þurfum við bæði að vera virk og leitast við að treysta öðrum. Spilasjúklingur á mjög erfitt með að treysta öðrum fyrir vandamálum sínum, hugsunum og tilfinningum.
Samantekt
1. Leitaðu eftir aðstoð.
2. Reyndu að mæta og taka þátt eins og þú telur að ætlast sé til.
3. Ákveddu að gefa þessu gott tækifæri, láttu ekki eitt skipti eða stuttan tíma ráða úrslitum.
4. Taktu þá áhættu að treysta öðrum.
3. Sækja GA – fundi reglulega
Þriðja verkefnið er hluti af því verkefni að leita eftir aðstoð og treysta öðrum. Mér þykir rétt að taka þetta verkefni sérstaklega út ekki bara vegna þess hve mikilvægt það er, heldur vegna þess hve það reynist mörgum spilafíklinum erfitt að byrja að sækja GA – fundi og halda áfram að mæta. Þetta er sérstakt verkefni til að takast á við. Hér eru ótrúlega mörg ljón í veginum. Fyrst er að þora að fara á fund. Þennan ótta er ekki hægt að glíma við nema ræða hann við aðra og skapa með slíkum samræðum raunsærra mat. Auðvitað er ekkert til að vera hræddur við, það getur ekkert hættulegt komið fyrir. Samt er eins og við hugsum þannig og líðanin eftir því. Þessa óskynsamlegu hugsun þurfum við að losa okkur við.
Annað sem stendur í veginum eru óraunhæfar væntingar og jafnvel ósanngjarnar kröfur til GA – samtakanna. Sumir prófa að fara á fund og standa sig að því að búast við stórkostlegum breytingum, jafnvel kraftaverkum eða vitrunum. Í það minnsta benda vonbrigðin til þess. Við gerum jafnvel kröfu til þess að við heyrum eitthvað óskaplega merkilegt á fundinum, fáum einhver óbrigðul ráð eða mætum sérlega aðlaðandi og skemmtilegu fólki.
Ekkert þvílíkt á sér stað og okkur þykir ekki mikið til koma. Þessar væntingar eru óraunhæfar og kröfurnar ósanngjarnar. GA virkar ekki eins og verkjalyf sem slær þegar á verki sem þjaka okkur. GA vinnur á með tímanum, hægt og bítandi, smátt og smátt. Einn stakur fundur breytir mjög litlu. Regluleg fundarsókn vikum og mánuðum saman gerir kraftaverk.
Samantekt
1. Finndu út hvar og hvenær GA – fundir eru haldnir.
2. Farðu á fund. Ef þú þorir ekki inn í fyrsta skipti, gerðu þig ánægðan með að hafa fundið húsið og reyndu aftur næst.
3. Taktu þá ákvörðun að mæta reglulega, hlusta og gefa GA gott tækifæri. Ekki láta einn fund eða fáeina nægja áður en þú gefst upp.
4. Talaðu um það á stuðningshópfundum hvernig þér gengur að leysa þetta verkefni.
5. Tileinka sér heiðarleika, hætta að þykjast.
Þegar við höfum náð því að viðurkenna vandamálið og höfum sett okkur í samband við þá sem geta hjálpað okkur, taka tvö mikilvæg verkefni við. Hið fyrra er að tileinka okkur heiðarleika og hætta að þykjast. Hér erum við að stiga það skref að bæta samskiptin okkar við aðra með því að hætta að ljúga, stela og pukrast með leyndarmál. Þetta gildir bæði um samskipti okkar við fjölskylduna og einnig meðferðaraðila og í GA. Við glímum hér við afneitunina og þær varnir sem við höfum komið okkur upp.
Samantekt
1. Segðu maka þínum (eða foreldrum þegar við á) allt saman. Dragðu ekkert undan. Reyndu svo að temja þér að ljúga aldrei og vendu þig af undanbrögðum.
2. Skoðaðu viðbrögð þín og framkomu gagnvart þínum nánustu og reyndu að vanda hana.
3. Settu þig í spor þeirra sem í kringum þig eru og reyndu að skilja hvað þeir hafa gengið í gegnum og hvernig þeim getur liðið. Ósanngirni þeirra í þinn garð þarf ekki að þýða að þeim sé illa við þig eða standi á sama
4. Gangast við tilfinningum
Í beinu framhaldi af því að rækta með okkur heiðarleika og hreinskiptni þar sem við hættum að þykjast tökumst við á við næsta verkefni sem er að gangast við tilfinningum okkar. Það eru margar hugsanir og tilfinningar sem við höfum byrgt inni. Í okkur ólga og krauma óþægindi sem truflar okkur mikið og koma niður á skýrri hugsun, einbeitni og þreki. Þessu þurfum við að deila með öðrum. Tilgangurinn með því að ræða við aðra um tilfinningar okkar er margvíslegur. Einn er sá að okkur fer einfaldlega að líða betur við það að trúa einhverjum fyrir þeim. Annar tilgangurinn er að draga úr varnarleysi okkar gagnvart þessum óþægilegu tilfinningum. Við höfum borið þær ein, bægt þeim frá og byrgt þær inni. Þetta hefur valdið okkur spennu og vanlíðan. Þegar tilefnin gefast gjósa þessar tilfinningar upp og hlaupa með okkur í gönur, vegna þess að við kunnum ekki að bregðast við þeim. Fyrsta skrefið til að bregðast rétt við tilfinningum er að gangast við þeim og þekkja þær. Það gerum við ekki nema tala um þær.
Samantekt
1. Segðu öðrum frá skömminni, sektarkenndinni, reiðinni og kvíðanum.
2. Reyndu að tala um og segja frá biturri reynslu þinni.
3. Leyfðu þér að finna til.
4. Hér þarftu að reyna að treysta öðrum. Það getur verið erfitt. Vertu ekki að ætlast til of mikils af þér strax í byrjun. Farðu hægt af stað, - en af stað með þig samt!
6. Læra að þekkja vítahringinn
Nú erum við komin nokkuð áleiðis í því að þekkja okkur sjálf og raunverulega stöðu okkar. Þá getum við dýpkað skilning okkar á vandanum og leyst það verkefni sem kalla má „að læra að þekkja vítahringinn”. Vítahringurinn er auðvitað fólginn í því að spila og tapa, taka ákvörðun um að hætta og falla svo aftur. Þennan vítahring þarf að rjúfa og hver spilafíkill þarf að læra að þekkja hvernig hann hagar sér milli þess sem hann spilar. Þegar við hættum að spila með þeim einlæga ásetningi að spila ekki aftur en förum samt sem áður að spila, hefur eitthvað gerst sem rænir okkur dómgreindinni og stjórninni þannig að við missum tökin á okkur. Við þurfum sem sagt að skoða hvaða líðan (tilfinningar), hugsun og hegðun er undanfari þess að við spilum. Spilafíklar geta lært að þekkja þetta, rétt eins og áfengissjúklingar hafa gert með góðum árangri.
Samantekt
1. Reyndu að átta þig á því hvaða hegðun er undanfari þess að þú ferð að spila. Hvernig er hegðunin og framkoman heima hjá þér, í vinnunni, í umferðinni, í verslunum og stofnunum?
2. Reyndu smám saman að rifja upp hvaða hugsanagangur er þessu samhliða.
3. Reyndu að skoða þá líðan þína þegar þú ert á leiðinni til að spila.
4. Gerðu lista yfir þá hegðun, hugsanir og líðan sem reynslan kennir að séu þér hættuleg.
7. Takast á við streitu og vinna úr erfiðum tilfinningum
Eitt af því sem spilafíkillinn mun rekast á þegar hann hefur kortlagt vítahringinn sinn er að hann þekkir ekki streitumerki og kann ekki að takast á við spennu með réttum hætti. Við þurfum því að koma okkur upp fyrirbyggjandi aðgerðum til að draga úr streitu í lífi okkar. Það er mjög þýðingarmikið í byrjun að spilasjúklingur fari eftir nákvæmri áætlun um reglulegt heilsusamlegt líferni. Hollt, reglulegt mataræði, reglulegur svefn, hæfileg vinna og reglubundnar líkamsæfingar geta ráðið úrslitum um hvort spilasjúklingur er hæfur um að ná jafnvægi og tökum á lífi sínu. Annað sem spilafíkillinn mun rekast á þegar hann skoðar vítahringinn sinn er að hann þekkir oft ekki tilfinningar sínar, - t.d. kvíða, reiði og sjálfsvorkunn. Það sem verra er, hann lætur þessar tilfinningar gjarnan stjórna hegðun sinni, þannig að hann leitar oft í spilakassann, bingóið eða annað til að takast á við þessar tilfinningar. Auðvitað gerum við lítið annað með þessu en flýja þær tímabundið og leysum engan vanda með því að spila. Auðvitað hugsum við þetta ekki skipulega, - að skynsamlegast sé að fara að spila fyrst við erum leið, reið eða kvíðin þessa stundina. Þannig gerist það ekki. Það bara gerist blint og stjórnlaust. Til þess að þekkja tilfinningar okkar og læra að vinna úr þeim á réttan hátt þurfum við að gangast við þeim, tala um þær við aðra. Með öðrum orðum þurfum við að rjúfa einangrun okkar og komast í trúnaðar – og vináttutengsl við annað fólk.
Samantekt
1. Settu þér áætlun um reglulegt mataræði, líkamsæfingar og góða hvíld.
2. Gerðu lista yfir nöfnin á öllu því fólki sem þú getur hugsað þér að leita til þegar þú þarft að tala við einhvern í síma, hitta einhvern sem getur talað við þig og farið með þér á GA – fund eða eitthvað annað ykkur til ánægju.
3. Búðu þér til hernaðaráætlun til að fara eftir ef þér finnst líðan þín boða hættu.
8. Endurskoða viðhorf og hugsunarhátt
Til þess að rjúfa vítahringinn okkar þurfum við líka að endurskoða viðhorf okkar og hugsunarhátt, ekki bara til okkar sjálfra og annarra heldur til lífsins sjálfs. Hér kemur auðvitað mjög margt til greina. Alls konar draumórar og óraunhæf viðhorf til fjármála eru algeng í fari spilafíkla. Einnig hafa þeir tilhneigingu til að hugsa ekki um afleiðingar gerða sinna og ganga út frá því að einhver annar taki ábyrgð á þeim. Loks standa spilasjúklingar sjálfa sig að því að hugsa óheiðarlega, t.d. alls konar þankar um að sleppa við að standa við skuldbindingar sínar, fá eitthvað á annarra kostnað, plata eitthvað út úr einhverjum. Hér látum við staðar numið, þó fleira mætti nefna.
9. Gera áætlun um að hreinsa til, - ábyrgð og hreinskiptni
Verkefnin fram að þessu hafa falist í því að við reynum að ná tökum á okkur sjálfum, - hugsa skýrar og hafa lágmarksstjórn á hegðun okkar. Nú getum við farið að gera áætlanir um að leysa úr vandamálum okkar, - hreinsa til. Fjármálin eru oft sú flækja sem mest er aðkallandi að greiða úr og þurfum við oft aðstoð við það. Hér skiptir öllu að temja sér ábyrgð og hreinskiptni. Við þurfum einfaldlega að ganga á milli fólks og stofnana sem við skuldum og koma til dyranna eins og við erum klædd og vinna að greiðsluáætlunum með t.d. þjónustufulltrúa í bankastofnunum sem við getum staðið við. Lygar og undanbrögð í þessum efnum og allar tilraunir til að „sleppa billega” munu aðeins snúast gegn okkur og gera okkur erfiðara fyrir. Við losnum kannski við stundaróþægindi, en köllum þá bara yfir okkur langtímaerfileika.
Samantekt
1. Þú þarft að læra að hafa samvinnu. Sestu yfir og skoðaðu fjárhag þinn, fjölskyldunnar með maka þínum.
2. Þú þarft að vera auðmjúkur og heiðarlegur. Brjóttu odd af oflæti þínu og byggðu upp kjark til að komast að samkomulagi við þá sem þú skuldar.
3. Þú þarft að taka afleiðingunum í stað þess að flýja þær. Ef við á þarftu að standa fyrir máli þínu gagnvart vinnuveitanda (og jafnvel lögreglu).
4. Stattu við alla skilmála. Sé það óframkvæmanlegt víktu þér ekki undan, taktu málin upp aftur til endurskoðunar.
10. Leita sátta
Um leið og við byrjum að hreinsa til í kringum okkur snúum við okkur líka að því að leita sátta. Við þurfum að setja okkur í spor ástvina okkar sem eru bæði reiðir og ergilegir, langþreyttir og áhyggjufullir, tortryggnir og vonsviknir. Þeir munu ekki trúa á okkur strax. Þeir vildu það gjarnan, en þeir bara geta það ekki. Þetta verður spilafíkillinn að skilja og koma fram við ástvini sína í samræmi við það. Hér er heiðarleiki fyrsta boðorðið. Annað boðorðið er að hætta að flýja fjölskylduna, láta ekki undan þeirri hvöt að forðast þetta fólk og finna sér athvarf utan heimilisins eins og margir spilafíklar hafa tamið sér. Þriðja boðorðið er að leggja sig fram um að víkja úr varnarstöðunni sem við erum gjarnan föst í. Við þurfum að gæta hér að tvennu. Í fyrsta lagi erum við þaulvön að túlka allar athugasemdir og umræður sem að okkur beinast sem ásakanir og tortryggni. Þess vegna misskiljum við oft það sem fólk segir eða vill tala um. Þó við séum spurð um hve mikið við fengum útborgað, er ekki verið að væna okkur um að stinga undan peningum til að spila fyrir. Við þurfum ekki að verja okkur þegar ekki er verið að ákæra okkur. Í öðru lagi er oft þannig ástatt að fólkið okkar kann ekki að tala um vandamál eða áhyggjuefni sín öðru vísi en í ásökunartón, því þessir ástvinir okkar hafa búið við sama ráðaleysið og sjálfsásakanirnar og við. Þeir eru bæðir reiðir og kvíðnir. Varnarræður okkar, og réttlætingar og gagnásakanir eru bara til að kasta olíu á eldinn. Hlustaðu. Samþykktu þegar fólk hefur rétt fyrir sér, vertu tilbúinn til að hugleiða það sem þú ert ekki sammála. Hættu að skaprauna sjálfum þér og öðrum með linnulausum afsökunum og réttlætingum.
Samantekt
1. Hættu að forðast fjölskylduna.
2. Vertu heiðarlegur og bíddu þolinmóður eftir trausti.
3 .Njóttu þeirra tækifæra sem þú færð til að njóta betur lífsins með öðrum.
4. Njóttu þess að sýna öðrum virðingu og taktu eftir því þegar hún er endurgoldin.
5. Þú hefur ekki alltaf rétt fyrir þér og þarft ekki alltaf að fá þitt fram. Hlustaðu á aðra og vertu samvinnuþýður.