Í sporum gerenda eineltis
Eins og með þolendur er ekki til nein ein rétt lýsing á þeirri manneskju sem leggur aðra manneskju í einelti. Öll erum við breysk og áður en ævinni líkur má næstum fullyrða að einhvern tímann á lífsleiðinni höfum við, flest okkar, sýnt einhverjum óæskilega eða neikvæða framkomu. Margir geta án efa rifjað upp tilvik þar sem þeir komu illa fram við ákveðna manneskju, jafnvel ítrekað.
Þegar líðan og aðstæður þeirra sem lagt hafa í einelti eru skoðaðar má oftar en ekki finna erfið persónueinkenni sem hafa neikvæð áhrif á samskiptafærni og valda óróa og vanlíðan. Stundum má finna þætti í aðstæðum eða skólatengdum þáttum sem sett hafa neikvætt mark á sjálfsmyndina og/eða skapað óöryggi með sjálfan sig og stöðu í umhverfinu. Oft kemur það einnig í ljós, þegar farið er að kryfja tilveru gerenda eineltis, að þeir sjálfir hafa verið þolendur eineltis. Að þekkja hvernig það er að vera í sporum þolanda útilokar ekki að sá hinn sami leggi, síðar meir, aðra í einelti.
Margir geta án efa rifjað upp tilvik þar sem þeir komu illa fram við ákveðna manneskju, jafnvel ítrekað.
Alvarlegustu afleiðingar eineltis er hnjask og niðurbrot á sjálfsmati, brestir koma í sjálfsmyndina og sjálfsöryggi manneskjunnar fer í uppnám. Þetta er einmitt það sem langlíkalegast er að sé helsti hvati þess að barn leggi annað barn í einelti. Innri óánægja, vonbrigði og aðrar neikvæðar tilfinningar kalla iðulega á einhverja útrás sem bitnar á einhverjum öðrum. Stundum vekur slæm líðan hreinlega upp löngun, oftast ómeðvitaða, eða einhvers konar þörf á að valda öðrum tjóni, litlu eða stóru. Öll vitum við hvernig vansæld, brotin sjálfsmynd, reiði og pirringur getur auðveldlega haft áhrif á hvernig við umgöngumst annað fólk. Það búa ekki allir, jafnvel kannski fæstir, yfir stöðugri og viðvarandi sjálfsstjórn og sjálfsaga til að leyfa ekki vondri líðan að hafa áhrif á framkomu sína við aðra. Börn, eðli málsins samkvæmt, hafa einfaldlega oft ekki þann þroska sem þarf til að skilja þarna á milli.
Þegar gengið er á gerendur eineltis og þeir spurðir út í “af hverju” kemur oft í ljós að það var ekki beinlínis ásetningur að baki hegðuninni. Neikvæðar tilfinningar höfðu einfaldlega tekið stjórn. Sú stundarupplifun í kjölfarið er e.t.v. eins og smá plástur á opið sár eða pínulítil umbun eða dúsa á innri ólgu. Einnig kann að vera að gerandanum finnist hann sýna kjark, áræðni og stórmennsku þegar hann stríðir, gerir grín að eða niðurlægir annan aðila og við það vaxi hann í áliti félaganna. Hann kann að álíta að staða hans í hópnum styrkist. Hver veit nema hann telji þetta leiðina í leiðtogasætið. Fyrir utan allt þetta þykir mörgum börnum sem sýna öðrum kerfisbundna neikvæða framkomu, með öðrum orðum, leggja í einelti, öruggara að velja sér sæti strax þarna megin borðs. Á meðan þeir eru þeim megin borðsins þurfa þeir ekki að óttast að verða sjálfir skotmark neikvæðra athygli, stríðni og eineltis.
Hver svo sem hvatinn er að baki eineltishegðuninni er ábyrgðin alltaf gerandans. Gildir þá einu hvort um sé að ræða ómeðvitaðar eða þaulhugsaðar, skipulagðar. Undir niðri, bak við harðan skráp og hrjóstrugt yfirborð má oftar en ekki finna litla, óánægða og særð sál.
Gerandi eineltis er ekki alltaf með áhangendur eða fylgismenn. Í málum af þessu tagi er þó ekki óalgengt að einn eða tveir séu upphafsmenn og leggi sig fram um að sannfæra aðra um galla og veikleika þess sem neikvæða hegðunin beinist að. Með því reyna þeir að réttlæta hegðunina. Í sumum eineltismálum taka réttlætingar og tilfinningar eins og illgirni og hatur alla stjórn. Í alvarlegustu málum virðist sem gerandinn og fylgismenn hans skorti þá alla samvisku og finni ekki til neinnar sektarkenndar vegna atferlis síns. Samúð og samkennd með þolandanum virðist engin og lætur gerandinn (gerendur) sér vanlíðan þolandans í léttu rúmi liggja.
Orsakir eineltishegðunar
Sú nálgun að ganga út frá því að orsakir eineltishegðunar sé vanlíðan er ekki bara raunsæ heldur gefur einnig von. Með því að komast að rót vandans er hægt sé að hjálpa þessum börnum. Takist að veita gerandanum viðeigandi aðstoð aukast líkur þess að hann láti af eineltishegðunin og ekki bara tímabundið. Þessi nálgun hjálpar þeim sem vinna að úrvinnslu einnig að finna til samlíðunar með gerandanum og nálgast hann frekar af mildi og yfirvegun en reiði og ásökunum.
Orsakir fyrir eineltishegðun, djúpstæð minnimáttarkennd og óöryggi með sjálfan sig, geta verið ótal margar og verður seint hægt að gera þeim skil að fullu. Öll mál eru sérstök og vinna þarf að úrlausn þeirra á einstaklingsgrunni. Oftar en ekki er um að ræða samspil, stundum flókið, af persónuleikaeinkennum, félagslegum bakgrunni og hvernig einstaklingurinn upplifir stöðu sína meðal jafnaldra.
Stundum má rekja orsakir vanlíðan til uppeldisaðferða, aðstæðna eða aðbúnaðar á heimili. Börnum sem:
Hafa verið og eru afskipt börn, fá takmarkaðan stuðning/athygli heima
Hefur ekki hafa verið sett mörk, fengið flest það sem þau biðja um, fengið að gera það sem þau vilja
Hafa fengið sveiflukennt uppeldi: boð og bönn einn daginn en eftilæti þann næsta
Hafa farið á mis við siðferðisuppeldi, umræðu og kennslu um hvað er rétt/rangt, gott/vont
Stundum má rekja orsakir vanlíðan til skóla eða skólatengdra þátta: Börnum sem:
Glíma við námserfiðleika af einhverju tagi (sjá umfjöllun í kafla um þolendur eineltis
Eiga í erfiðleikum með einbeitingu, eiga erfitt með að meðtaka fyrirmæli
Eru óvenju næm fyrir ytra áreiti, truflast auðveldlega
Eiga erfitt með að vera kyrr, fylgjast með því sem fram fer
Stundum má rekja orsakir til ákveðinna persónuleikaeinkenna: Börnum sem:
Hafa lágt mótlætaþol, skortir þolinmæði og umburðarlyndi
Eru óvenju hvatvís, framkvæma oft án þess að hugsa mikið
Eru áhrifagjörn, sem auðvelt er að fá til að gera jafnvel óæskilega hluti
Hugsa fyrst og fremst um að styrkja stöðu sína í hópnum, vera samþykkt af hópnum, haldast í hópnum
Telja að með því að ,,taka þátt” þótt um sé að ræða neikvæða hegðun aukist vinsældir þeirra meðal jafnaldra
Finnst mikilvægt að þóknast öðrum, leggja áherslu á að ákveðnum aðilum líki við sig
Finnst erfitt að segja nei og ef þau geri það óttast þau að neikvæð athygli hópsins beinist þá frekar að þeim sjálfum
Hafa reynslu af því að vera þolendur eineltis og óttast að vera lagðir í einelti aftur
Finna auðveldlega til öfundar, afbrýðisemi, pirrings og reiði t.a.m. í garð þeirra sem þeim finnst að geti ógnað stöðu sinni í jafningjahópnum
Telja að með því að hæðast að öðrum hljóti þeir að öðlast virðingu félaganna
Finna til sín ef þeir geta ráðskast með aðra
Ekki hefur verið kennt að setja sig í spor annarra eða eiga erfitt með að finna samlíðan með öðrum (börn sem glíma við siðblindu)
Eiga auðvelt með að réttlæta hegðun sína, er tamt að varpa frá sér ábyrgð, kenna öðrum um
Er tamt að metast við aðra, bera sig saman við aðra
Finnst þau oft fá ,,minna” en aðrir
Finna sig oft í fórnarlambshlutverkinu, ,,mér alltaf kennt um allt”
Gíma við sálræn veikindi, röskun af einhverju tagi t.d. djúpstæða streitu, skapbresti eða reiðistjórnunarvandamál.
Birt með leyfi höfundar : Kolbrún Baldursdóttir - sálfræðingur.
Greinin birtist á heimasíðu höfundar www.kolbrunbaldurs.is