Net- og tölvuleikjafíkn

Netnotkun á íslandi er einhver mesta í heiminum.  Rúmlega 70% íslendinga hafa nú aðgang að tölvu sem tengd er netinu og sækja þangað reglulega.  Fólk notar netið til ýmissa hluta, allt frá því að kynna sér ýmis efni yfir í það að eiga í samskiptum við fjarlæga vini og ættingja.  Margir láta sér nægja að gægjast á Netið einu sinni í viku meðan aðrir eru friðlausir ef ADSL tengingin þeirra dettur niður.  Fyrir marga er Netið frístundagaman líkt og að lesa góða bók en fyrir aðra er Netið atvinnutæki.  Ráðamenn hvetja fólk til að sækja Netið kynna sér það og nýta kosti þess og fullyrða að Netið verði okkar helsta tól í framtíðinni.  Hvenær er þá hægt að segja að netnotkun sé orðið að vandamáli, jafnvel fíkn.

Netfíkn er mjög ungt hugtak og eru rannsóknir á þessu fyrirbæri mjög fáar og erfitt að draga af þeim ákveðnar niðurstöður.  Netfíkn er ekki skilgreind sem geðræn röskun samkvæmt nýjustu útgáfu greiningarkerfis bandarísku geðlæknasamtakanna frá 1994.  óhætt er því að fullyrða að umræðan sem á sér stað í dag á eftir að mótast eftir því sem lengra líður og fleiri rannsóknir og meiri reynsla eiga eftir að varpa mun betra ljósi á netfíknina.

Ef þig grunar að ekki sé allt með felldu með netnotkun þína eða einhver þér nákominn reynir að benda þér á tölvunotkun þín sé meiri en góðu hófi gegnir, ættir þú að athuga hvort einhver fótur sé fyrir grunsemdum og aðdróttunum í þinn garð.  Það má finna próf á netinu sem þú getur tekið og leiði prófið í ljós að þú sért í áhættuhópi skaltu leita ráða hjá fagaðila meðferð er til staðar fyrir netfíkla og hún byggist á hugrænni meðferð, fjölskyldumeðferð og þjálfun í félagslegri færni. Í meðferð beinist einkum athyglin að því að kenna netnotandanum að ná stjórn á hegðun sinni.  Þessi meðferðarform geta ekki komið í veg fyrir að hegðunin taki sig upp aftur en gerir notandanum kleift að kljást við hvatir sínar og ná meiri færni í að stjórna þeim.

 

Margir telja að netfíkn geti greinst í undirflokka sem ræðst af því hvað það er sem fólk sækir helst á Netið.

  • kynlífsfíkn sem skiptist í netkynlífs (Cyber Sex) og netklámfíkn. 

  • Sambandsfíkn ( cyber relationships )

  • Tölvupóstfíkn (eMail)

  • Verðbréfabrask á Netinu fíkn ( online stocking trading )

  • Netspilafíkn ( online Gambling )

  • Netuppboðsfíkn ( online Auctioning )

  • Upplýsingarfíkn ( information surfing )

  • Leikjafíkn ( computer games )

"Internetinu hefur verið hampað sem einni merkustu uppfinningu allra tíma og skákað hlutum eins og símanum, sjónvarpinu, bílnum og flugvélinni.  Internetið hefur nefnilega þann merkilega eiginleika að geta verið allt fyrir alla og það er ekki auðvelt afrek.  Þetta þýðir að sjálfsögðu að þangað getur fólk sótt allt sem það vill og telur sig þarfnast og því getur það auðveldlega talið sér trú um að ekki sé þörf á neinu fleiru því netið er nánast ótæmandi.
Mikil vakning hefur verið á öllu sem tengist netnotkun að undanförnu.  Mikið hefur, til dæmis, verið fjallað um siðferði á netinu og foreldrar verið hvattir til þess að fylgjast nánar með börnunum sínum og því sem þau gera á netinu.  Þessi mikla tækninýjung, sem gjörbylt hefur samfélaginu á stuttum tíma, hefur nefnilega sínar skuggahliðar.  Í hinu andlitslausa samfélagi internetsins leynast ótal gildrur og illmenni og er því afar mikilvægt að vara yngstu kynslóðina við og kenna þeim rétt handtök.  En það eru ekki eingöngu illmennin og gildrurnar sem ber að varast heldur er á internetinu einnig um aðra og jafnvel stærri vá að ræða.  Ofnotkun á internetinu eða Netfíkn hefur gert vart við sig í auknum mæli og stráfellir fólk um allan heim.  Hóflegar tölur benda til þess að af þeim sem nota internetið reglulega, muni um 10% ánetjast notkuninni.  Samkvæmt nýjustu tölum hagstofunnar þýðir þetta að búast má við að um 26.000 íslendingar eigi á hættu að ánetjast netnotkun.  Þróun netfíknar er einnig ískyggilega hröð og hraðari en með aðrar viðurkenndari fíknir, en um 86% ánetjast netinu á fyrsta ári. 
Á síðustu árum hafa ótal rannsóknir verið framkvæmdar til þess að skilja netið betur og kanna hvort notkun þess sé jafn æskileg og talið hefur verið.  Þessar rannsóknir hafa sýnt að almennt er netið ansi langt frá því að vera eins gott og það virðist.  Meðal þess sem haldið hefur verið fram um netið, er að það sé afbragðs námstæki og er því beinlínis farið að setja kröfu á börn að þau eignist og noti tölvur í skólum.  Rannsóknir hafa aftur á móti sýnt fram á að í raun eykur netið ekki kunnáttu eða þekkingu heldur truflar kennslu og gerir börn eirðarlaus við nám.  Nýleg dönsk rannsókn sýndi að 10% skólabarna í 8-10 bekk eiga í vandræðum með nám vegna tölvunotkunar sinnar.
Hér á Íslandi hömpum við því oft að við séum ein tæknivæddasta þjóð veraldar.  Tölvur eru til á flestum heimilum landsins, oft í hverju herbergi, og sömuleiðis háhraða internettengingar.  Tölvukennsla hefst oft í leikskólum og í menntaskólum er það orðin algeng krafa að unglingar beinlínis þurfi að hafa tölvur til að sinna náminu.  En samhliða þessari aukningu á tölvum hefur einnig aukist að krakkar missi stjórn á tölvunotkun sinni og foreldrar þurfi að leita aðstoðar fyrir þau. 
Skóli og vinna gera miklar kröfur til fólks og geta því bæði verið erfið og leiðigjörn, þá er auðvelt að láta glepjast af gylliboðum tölvunnar.  Tölvan er mikill tímaþjófur og fyrr en varir er fólk farið að verja tugum klukkustunda á viku fyrir framan skjáinn.  Þessi mikli tími krefst þess að eitthvað víki úr lífinu og þá er það yfirleitt tími með vinum og fjölskyldu sem fær fyrst að fjúka.  Þegar byrjað er að fórna hlutum fyrir tölvuna, vindur notkunin hratt upp á sig og með auknum tíma þarf að færa fleiri fórnir.  Ekki er óalgengt að hitta eða heyra um fólk sem eyðir meira en 50 klukkustundum fyrir framan tölvuna og í ýktustu dæmunum ver fólk rúmlega 100 tímum þar.  Þegar svo er komið er fólk búið að færa ótal fórnir fyrir notkunina og á því oft mjög erfitt með að hætta.  Það hefur brennt svo margar brýr að baki sér og misst svo mikið af félagsfærni sinni að það hreinlega kann ekki að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Afar mikilvægt er að fólk verði meðvitað um þennan vanda og passi sig og sína nánustu.  Fylgist endilega með því hvað þið og börnin ykkar eruð að gera á netinu en fylgist einnig með hve miklum tíma þið verjið þar.  Þegar 38 stundir eða meir hverfa fyrir framan tölvuskjá án þess að það sé vinnutengt eða tölvunotkunin er á kostnað annarra hluta í lífinu eins og vina, skóla eða áhugamála er mikilvægt að líta aðeins á forgangsröðunina og breyta til.  Leggið til dæmis stund á útivist og hreyfingu og hvetjið börnin ykkar til að gera slíkt hið sama.  Það getur verið gott og mikilvægt í nútíma samfélagi að kunna á og nota tölvur en öllu þarf að stilla í hóf."


Eyjólfur Örn Jónsson
Sálfræðingu


Að kljást við netfíkn

"Í ljósi aukinnar umræðu um netfíkn í fjölmiðlum undanfarið, ákvað ég að fara hér stuttlega yfir helstu áhættuatriði netfíknar.  Netfíkn er vandi sem hrjáir gjarnan ungt fólk og því geta vel upplýstir og undirbúnir foreldrar gripið inn í vandræðaástand áður en það ágerist.  Líkt og með svo margt annað, er best að vinna með vandann snemma.  Þegar um ungt fólk er að ræða hafa foreldrar ákveðna valdastöðu sem unnt er að nýta til meðferðar og þegar fólk er eldra, hafa ástvinir og ættingjar ákveðna stöðu sem hægt er að nýta til að vekja forfallinn einstakling til umhugsunar.  Það er því afar mikilvægt fyrir foreldra, vini og ættingja að læra að þekkja áhættueinkenni netfíknar.
Grunnskilgreining á netfíkn felst í því að um er að ræða tímaþjóf og því miða fræðimenn oft við það að þegar netnotkun hafi náð 38 tímum á viku sé orðið um alvarlegt vandamál að ræða.  Tími tölvunotkunar er því vissulega eitt fyrsta atriðið sem ber að fylgjast með.  Er einstaklingurinn sífellt að auka tölvunotkun sína á kostnað annarra athafna.  Þegar einstaklingur kýs ítrekað netið umfram aðrar athafnir sem voru honum mikilvægar áður, er hugsanlegt að um vandamál sé að ræða.  Mjög fljótlega getur slík hegðun undið upp á sig og haft áhrif á sjálfsmynd og félagsfærni einstaklingsins og þannig versnar vandinn smám saman.  En að sjálfsögðu viljum við grípa tímanlega inn í vandamálin og helst áður en þau verða of alvarleg og því er mikilvægt að fylgjast vel með og grípa inn í strax þegar okkur finnst hegðunin vera orðin óhófleg.  Gott er að fylgjast með hvort einstaklingurinn sé mjög upptekinn af netinu, hvort hann feli eða neiti að viðurkenna hve miklum tíma hann verji í tölvunni, sé farinn að ljúga um tölvunotkunina, segist eiga alla sína vini á netinu eða einungis spjalla við þá þar, finnist aðrar athafnir orðnar leiðinlegar og svo hvort einstaklingurinn verði óhóflega reiður eða pirraður þegar hann er truflaður við tölvunotkunina eða hún stoppuð.  Þessi atriði er hægt að sjá hjá einstaklingum sem ánetjast tölvunotkun áður en hún nær að verða það alvarleg að einstaklingurinn verji 38 tímum við tölvuna og því verður að hafa í huga að vandinn getur verið til staðar fyrr en því marki er náð.
Þegar einstaklingar byrja að ánetjast netinu er oftast um að ræða flóttahegðun þar sem þeir flýja óþægilegar aðstæður í raunveruleikanum og finna betri veru í andlitslausu umhverfi netheima.  Atriði sem geta leitt til aukinnar tölvunotkunar eru félagsfælni, lágt sjálfsmat, einmannaleiki og samskiptavandamál eins og hjónabandserfiðleikar, einelti og langvarandi veikindi eða einangrun.  Það er því mikilvægt að fólk fylgist með hvort börn þeirra eigi í erfiðleikum í skóla eða utan hans og grípi inn í ef vandamál skapast í umhverfi þeirra.  Þegar börn hætta skyndilega að vilja mæta í skóla, einkunnir lækka og þau hætta að vilja taka þátt í íþróttum og öðrum utanskóla athöfnum eru það allt þættir sem geta bent til þess að barninu líði illa og geta svo leitt til þess að það flýr á netið.  Þegar barnið hefur svo eitt sinn flúið á netið ýkist hegðunin gjarnan sem á undan gekk og það hættir nánast alfarið að mæta í skóla, læra eða sinna utanskólaáhugamálum.  Allt of oft velja foreldrar að líta undan og láta börnin útkljá málin sín á milli en nú til dags í harðnandi heimi getur slíkt hæglega reynst börnum um megn.  Börnin geta í raun lært að takast á við slík vandamál með því að fara að fordæmi foreldranna og því er mikilvægt að þau sýni þeim rétta hegðun í verki. 
Umræða, eins og sú sem hefur farið fram undanfarið, getur vakið fólk til umhugsunar og vonandi haft jákvæð áhrif á þróun þessa mála.  Það er því mikilvægt að foreldrar hvetji börnin sín til dáða og kenni þeim að umgangast tölvur af hófsemi."


Eyjólfur Örn Jónsson, sálfræðingur 

 

Netfíkill segir frá

Þegar ég eignaðist fyrstu tölvuna mína og komst í samband við Netið átti ég það til að vaka langt fram eftir og stundum fram á morgun.  Enda þótt ég vissi að vinna biði mín og áhrif svefnleysis þá hundsaði ég það.  Þegar vika var liðin með tilheyrandi vitleysu og trekktum taugum( sem voru óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinnar kaffineyslu  ) fann ég að ég var kominn á hálan ís.  Morgun einn leit ég upp frá lyklaborðinu og horfði umhverfis mig.  Það var full nauðsyn að fara út með ruslið.  Óhreinn þvottur flæddi út úr þvottakörfunni og helgin hafði liðið án þess að ég tæki eftir því.  Íbúðin mín var í einu orði sagt ruslahaugur.  Um leið uppgötvaði ég að maturinn hafði breyst í næringarsnautt ruslfæði og ég borðaði minna.  Að lokum kom að því að ég ákvað að taka mér tak og byrjaði að þrífa íbúðina mína og gerði það sem ég þurfti að gera.  Ég  mun aldrei gleyma því í hverju ég lenti.

 

Það eina sem hægt er að fullyrða er að Netfíkn virðist leggjast helst á ungt fólk, og frekar stráka en stelpur.  Það má í þessu sambandi benda á að stærstur hópur netnotanda er ungt fólk.  Á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða um orsök netfíknar.


Heimild: Úr bókinni Hvað er málið frá JPV útgáfu. 

 

Aðstandandi segir frá

Þessi saga er ekki af mér heldur konunni minni.  Hún viðurkennir ekki að hún sé háð spjallrásum á Netinu. Fíkn hennar hefur skemmt hjónaband okkar það mikið að erfitt er að sjá fyrir endann á því.  Fyrir nokkrum mánuðum hóf hún að sækja “Ancient Sites” spjallrásina.  Hún byrjaði að því að eyða nokkrum tímum á viku á henni sem nú eru orðnir milli 18 og 20 tímar á dag, sjö daga vikunnar.  Hún sagðist vera að leita að gáfulegum samræðum.  Þvílíkt rangnefni það eru ekki mikið um gáfur á spjallrásum vefsins.  Hún er viðkvæm fyrir skjalli karlmanna sem leituðu kynlífs.  Síðustu 8-10 mánuði hefur hún haldið framhjá mér í huganum á spjallrásum og síðan í beinu framhaldi í síma með að minnsta kosti sex mönnum.  Nýlega keypti hún sér flugmiða til að hitta einn elskhuga sinn af Netinu og innsiglaði framhjáhaldið líkamlega.  Við eigum tvö börn 4ára dreng og 2ára stúlku.  Konan mín sinnir ekki heimilisstörfum , hún eldar ekki mat, svarar ekki símtölum nema þau séu frá netvinum hennar, viðurkennir að það sem hún gerir sé rangt.  En virðist vera tilbúin að fórna börnunum sínum fyrir það að sitja fyrir framan tölvuskjá við það eitt að skoða þrjár eða fjórar spjallrásir í einu með fimm eða sex manns í hverri.  Ég er viss um að þetta er meira en fíkn, þetta er geðveila.