Meðvirkni

Meðvirkni - Einkenni

Afneitun:

  • Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.

  • Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.

  • Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra.

Lítil sjálfsvirðing:

  • Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.

  • Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.

  • Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu, hrós eða gjafir.

  • Ég bið aðra ekki um að mæta þörfum mínum eða þrám.

  • Ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.

  • Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða.

Undan látsemi :

  • Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annara.

  • Ég er næmur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.

  • Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.

  • Ég met skoðanir og tilfinningar annarra meir en mínar eigin og er hræddur við að láta álit mitt í ljós ef ég er ósammála einhverju.

  • Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.

  • Ég sætti mig við kynlíf þegar ég vil ást.

Stjórnsemi:

  • Mér finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.

  • Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim “á” að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“.

  • Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.

  • Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.

  • Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem mér þykir vænt um.

  • Ég nota kynlíf til þess að öðlast viðurkenningu.

  • Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í sambandi við það.

 

Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska.  Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp.

Sá meðvirki er oft fastur í órökréttum hugsanavillum og oft vegna þess að verið er að burðast með erfiðar tilfinningar úr fortíðinni. Það getur verið um að ræða óuppgerða orku vegna áfalla í æsku og því er eitt af markmiðunum að vinna úr sársaukafullum áföllum fortíðar í stað þess að bæla niður þessar tilfinningar og upplifa jafnvel skömm vegna þeirra. Skömmin okkar er alltaf jafn mikil og leyndarmálin eru mörg og ef maður er vanur að eyða mikilli orku í að passa að sannleikurinn komi ekki í ljós – þarf maður að vera tilbúin til að horfast í augu við það.

Meðvirkni er háttarlag þar sem manneskja stjórnar eða tekur ábyrgð á gjörðum annarra og hjálpar viðkomandi að forðast það að takast á við vandamálið á beinan hátt, gert til að viðhalda stöðugleika í samskiptum fjölskyldunnar.  Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.  Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við.  Með því t.d. að reyna að stjórna eða taka ekki ábyrgð á ástandinu og þar með kemur sér ekki út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlagar hann sig að þeim.   Meðvirknin er í raun leið til að skilgreina sig í gegnum aðra.

Ef til vill kannast þú við þessar hugsanir…

“Ef hann/hún myndi bara gera eitthvað í sínum málum.”
“Ef hann/hún breyttist myndi allt vera í lagi.”
“Ég ræð ekki við þennan sársauka, þetta fólk og þessar aðstæður.”
“Það er allt mér að kenna.”
“Ég er alltaf að lenda í sömu slæmu samböndunum.”
“Ég finn fyrir tómleika og finnst ég vera týnd/ur.”
“Ég veit ekki hvernig mér líður”
“Hver er ég?”

“Hvað er eiginlega að mér?”

 

Hvað ef meðvirki einstaklingurinn myndi ekki „hjálpa“ hinum?

Afleiðingarnar eru það sem sá meðvirki óttast yfirleitt. Afleiðingarnar geta verið mismunandi og ástæðurnar geta verið margar. Meðvirknishegðun er mjög einstaklingsbundin og hver manneskja á sína sögu, hegðunarmynstur og persónulegan innri ótta.

Þegar fólk fær hjálp við meðvirkni er mikilvægt að átta sig á hvernig meðvirknin hefur mótast, hvað viðheldur henni og hvers vegna fólk þorir ekki að sleppa henni. Það er líka mjög mikilvægt að byrja að stíga fyrstu skref til breytinga. Það er ekki nóg að skilja hvernig eitthvað virkar, ef það er ekki að gera gagn þá er mikilvægt að breyta því. Það þarf ekki að taka stór stökk til að byrja með, fyrstu skrefin eru oft mjög erfið og því eðlilega eru þau minni. Fyrsta skrefið gæti t.d. verið að byrja að æfa sig í að segja „NEI“ upphátt eða að hætta einhverri ákveðinni hegðun sem gengur gegn eigin löngunum og þörfum. Mikilvægt er að velta fyrir sér nokkrum einföldum spurningum:

1.     Langar mig að gera þetta?

2.     Fyrir hvern er ég að gera þetta?

3.     Hvað gerist ef ég geri þetta ekki?

 

Hjálpsemi er af öðrum toga en meðvirkni. Þegar við hjálpum einhverjum er það út frá væntumþykju og/eða við finnum til samúðar. Við kjósum af eigin frumkvæði að vera til staðar eða gera eitthvað fyrir aðra manneskju og sú hegðun stríðir ekki gegn eigin löngunum og þörfum. Hún er enn fremur ekki drifin áfram af ótta við hvað gæti gerst ef við hjálpum ekki. Þegar við hjálpum annarri manneskju erum við ekki að taka ábyrgðina frá henni, stjórna eða láta stjórnast af henni.

Meðvirkir einstaklingar eiga oft á tíðum erfitt með að láta af meðvirkri hegðun, þora því ekki og finnst að þeir séu að bregðast þeim sem þeir eru meðvirkir með. „Já en ég er bara að hjálpa honum/henni“ er setning sem er mjög algeng hjá þeim meðvirka.

Það sem fær okkur til að leita aðstoðar eru miklir erfiðleikar eða áföll eins og hjónaskilnaður, sambandsslit, fangelsisvist, sjúkdómar eða sjálfsmorðstilraun. Sum okkar eru þreytt, örvæntingarfull eða brunnin upp. Við þráum breytingu og það strax. Við viljum losna við eymdina. Okkur langar til að vera ánægð með sjálf okkur og lífsfyllingu. Við viljum heilbrigð og farsæl sambönd.

Maður þarf líka að vera tilbúin að skoða samböndin sem maður á að baki. Þeir sem eru meðvirkir laðast oft að spennandi fólki annars vegar og hins vegar fólki sem þarfnast þeirra. Ástæðan er skert sjálfsmat og þannig finnst þeim eftirsóknarvert að umgangast þá sem mikið ber á eða þá sem þarfnast þeirra mikið. Sá meðvirki reynir að breyta sér í þá manneskju sem hann telur að hinn aðilinn vilji og gerir þau mistök að fara frá þeirri persónu sem hinn aðilinn varð ástfanginn af í aðra persónu sem hinn aðilinn kærir sig ekki um. Bæði þessi sambönd eru dæmd til að mistakast ef ekki er gripið í taumana og unnið að uppbyggingu.

Breytingarnar byrja með okkar eigin meðvitund. Það getur verið gott að skrifa niður hverju þú vilt breyta í eigin lífi og hvaða skref á að taka til að koma þessari hegðun á. Það má alltaf reikna með því að þegar tekist er á við breytingar að við missum jafnvægið, já dettum með andlitið í stéttina og gamla hegðunin með tilheyrandi tilfinninga-rússi ryðst aftur inn í lífi okkar. Þá skiptir máli að við séum góð við okkur sjálf, önnumst okkur áfram en skömmumst okkur ekki og hlaupum í felur. Endur batinn snýst um að ná jafnvægi og halda því og vera meðvituð um að gera það sem að við vitum að er gott fyrir okkur í slíkum aðstæðum.

Stundum þurfum við að fá einhvern til að hjálpa okkur að setja súrefnisgrímuna á okkur - því hún er jafnvel þarna við hliðin á okkur og við vitum hvernig á að nota hana, en vantar kraftinn til að setja hana upp. Þegar hún er komin á sinn stað er það okkar að draga andann djúpt og fara það vel með okkur að súrefnisskammturinn dugi sem lengst.

Leiðin út úr meðvirkni er lífstíðarverkefni og ekki eins hjá neinum. Lífið er vinna, og því meira sem við leggjum í þá vinnu má vænta betri uppskeru. Fyrsta skrefið er alltaf að átta sig á því að maður vill breyta einhverju og þar með auka lífsgæði sín. 

Við eigum þetta eina líf og því mikilvægt að við lifum því eins vel og við getum. Með því að staldra við og skoða hvað það er sem við getum gert betur og styrkja okkur sjálf í framhaldi af því, erum við kannski að taka fyrsta skrefið en jafnframt það mikilvægasta í átt að betra lífi - viðurkenna að mikilvægasta sambandið í lífinu er við okkur sjálf.

 

Að lokum vil ég minna á grundvallarréttindi hverrar manneskju í mannlegum samskiptum:

  • Þú átt rétt á því að segja: „NEI“ og standa við það.

  • Þú átt rétt á að sleppa því að útskýra eða réttlæta þína eigin hegðun.

  • Þú átt rétt á að aðrir sýni þér virðingu.

  • Þú átt rétt á að skipta um skoðun.

  • Þú átt rétt á að vera ósammála skoðunum annarra.

  • Þú átt rétt á að gera mistök – og rétt á að taka ábyrgð á þeim.

  • Þú átt rétt á að segja: „Ég veit það ekki“.

  • Þú átt rétt á að taka óskynsamlegar ákvarðanir.

  • Þú átt rétt á að segja: „Ég skil ekki “.

  • Þú átt rétt á að segja: „ Mér er alveg sama“.

  • Þú átt rétt á að taka ekki ábyrgð á gjörðum annarra.

  • Þú átt rétt á að meta eigin hegðun, hugsanir og tilfinningar og að taka ábyrgð á þeim og afleiðingum þeirra gagnvart sjálfri/sjálfum þér.