Hvað er einelti?
Einelti getur birst í mörgum myndum, það getur verið
• Líkamlegt, t.d. barsmíðar, spörk og hrindingar.
• Munnlegt, t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
• Skriflegt, t.d. niðrandi tölvuskeyti, sms-skilaboð, krot og bréfasendingar.
• Óbeint. t.d. baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahóp.
• Efnislegt, t.d. eigum barns stolið eða þær eyðilagðar.
• Andlegt, t.d. þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem gengur gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.
Þolendur eineltis
Barn sem verður fyrir einelti líður yfirleitt mjög illa. Barnið er oft hrætt, einmana og með lítið sjálfstraust. Það kvíðir því að fara í skólann, er gjarnan spennt, óöruggt og verður jafnvel veikt án sýnilegra sjúkdómseinkenna. Langvarandi einelti getur leitt til alvarlegra vandamála eins og þunglyndis og neikvæðrar hegðunar. Þolendur eineltis skammast sín oft fyrir eineltið, kenna sjálfum sér um og segja því ekki frá eineltinu.
• Þeir eru einmana, eiga fáa eða enga vini.
• Þeir eru líkamlega veikburða; hafa t.d. ekki gaman af því að slást.
• Þeir eru viðkvæmir, hlédrægir og oft stutt í tárin.
• Þeir hafa neikvæða sjálfsmynd og telja sig heimska og misheppnaða.
• Þeir eru oft hræddir og eru á móti ofbeldi.
• Þeir vilja oft frekar umgangast fullorðna en jafnaldra sína.
Hugsanleg hegðunar einkenni hjá þolenda
• Hann neitar að fara í skólann.
• Hann fer krókaleiðir í og úr skólanum og helst ekki einn.
• Hann kemur iðulega of seint í skóla eða heim úr skóla.
• Depurð og kvíði einkenna hann.
• Námsáhugi minnkar og einkunnir lækka.
• Hann „týnir“ fötunum sínum, kemur heim með skemmdar bækur eða rifin föt og jafnvel skrámur sem hann getur ekki útskýrt.
• Hann leikur sér minna við önnur börn og vill ekki taka þátt í félagsstarfi í skólanum.
• Hann verður erfiður viðureignar og neitar að segja hvað amar að.
Gerendur eineltis
Börn sem leggja önnur börn í einelti eru í ýmsum áhættuhópum. Gerendur í eineltismálum njóta gjarnan vinsælda bekkjarfélaga sinna sem minnkar með aldrinum. Þau auka líkur sínar á að verða kærð fyrir ofbeldisbrot eða fá fangelsisdóm. Þau eru líklegri til að eiga við geðrænan vanda að stríða og misnota vímuefni á fullorðinsárum.
Hugsanleg einkenni geranda
• Hann hefur litla tilfinningu fyrir líðan annarra og á erfitt með að setja sig í spor annarra.
• Viðhorf hans til ofbeldis er jákvæðara en barna almennt
• Hann er skapbráður og hefur litla þolinmæði.
• Hann á erfitt með að fara eftir reglum og sýnir fullorðnum oft ágenga hegðun.
• Hann hefur ríka þörf til að ráðskast með aðra og notar gjarnan hótanir til að fá vilja sínum framgengt
• Hann er öruggur með sig og talar sig auðveldlega úr erfiðum aðstæðum.
• Hann virðist hafa gaman af að hæðast að öðrum, brjóta gegn rétti annarra, stjórna, meiða eða gera lítið úr öðrum börnum.
• Hann er árásargjarn, þrjóskur og setur sig almennt á móti öllum og öllu.
Hafa ber í huga að ofangreind upptalning er ekki tæmandi og að einkennin geta verið misjöfn hjá hverju barni fyrir sig.
Tökum afstöðu gegn einelti
Stærsti hluti barna tekur ekki beinan þátt í einelti heldur stendur til hliðar og horfir á. Það eru einmitt þessi börn sem geta stöðvað einelti með því að taka afstöðu gegn því. Fórnarlömbunum finnst nefnilega þessi börn oft taka afstöðu gegn sér. Þó svo að áhorfandi að einelti eigi ekki sök á neinu í þessu sambandi er honum skylt að bregðast við sem heiðvirðum borgara án þess að þurfa að fara að leika einhverja hetju.
Ungmenni geta tekið afstöðu gegn einelti með því að:
• Gagnrýna hegðun geranda.
• Hleypa þolendum inn í félagahópinn.
• Neita að taka þátt í einelti.
• Sýna vanþóknun sína á hvers kyns einelti án orða, með fasi, svipbrigðum og athöfnum.
• Kalla á hjálp frá fullorðnum.
• Biðja geranda að láta þolanda í friði.
• Hjálpa þolanda að forða sér úr aðstæðunum.
• Koma í veg fyrir samskipti á milli geranda og þolanda.
• Hvetja aðra nemendur til að taka afstöðu gegn hegðun gerandans.
• Fylgja þolanda til einhvers af starfsfólki skólans og hvetja hann til að segja frá eineltinu.