Ég á engan vin
Sum börn eiga engan besta vin eða vinkonu og heldur enga vini. Sum börn hafa aldrei átt góðan vin á meðan önnur hafa átt vin en eiga ekki lengur. Stundum hefur góður vinur flutt í burtu en í öðrum tilvikum hafa tengslin rofnað og „gamli vinurinn“ fundið sér nýja vini. Enda þótt barn sé hluti af stórum bekk getur það verið einmana í skólanum og þegar skóladegi lýkur hefur það jafnvel engan til að leika við. Í frístundum er heldur ekki sjálfgefið að börn myndi vinatengsl.
Börnum sem eiga enga vini líður oft illa yfir því. Eðlilega kenna foreldrar í brjósti um þau og langar til að hjálpa þeim að eignast vini. Erfiðustu stundirnar eru frjálsu tímarnir, frímínútur eða tíminn í matsalnum. Þar vita þau oft ekki hvar þau eiga að vera t.d. hvort þau eiga að reyna að tala við einhvern eða setjast hjá einhverjum sérstökum.
Mörg börn, líkt og fullorðnir, gera greinarmun á að eiga vin og síðan að eiga besta vin.
All flestum börnum finnst það mikilvægt að eiga vin eða vini. Barn sem er feimið og óframfærið finnst það ekki síður mikilvægt að eiga vin en barni sem er félagslynt. Mikilvægi vináttu er greipt í eðli okkar flestra sem og í samfélagsmenningu. Mörg börn, líkt og fullorðnir, gera greinarmun á að eiga vin og síðan að eiga besta vin. Jafnvel þótt barn eigi félaga nægir það oft ekki. Það er þessi „besti vinur“ sem flest börn þrá að eiga. Einhver sem þeim finnst þau geta treyst og er skilgreindur persónulegur einkavinur.
Fyrir þau börn sem hafa átt í erfiðleikum með að mynda slík tengsl getur vanlíðan gert vart við sig. Það er ekki einungis einmanaleikinn sem er kvíðvænlegur heldur spyrja þau sig af hverju þau eigi ekki vini eins og svo mörg önnur börn. Sjálfsmyndinni er ógnað og sjálfsmatið í uppnámi.
Vinslit
Vinslit eiga sér stað á öllum aldursskeiðum. Vinslit verða oft meira áberandi þegar nær dregur unglingsárunum en á því aldursskeiði skipta einmitt vinirnir oft hvað mestu máli. Ein birtingarmynd gæti t.d. verið stúlkur sem hafa verið óaðskiljanlegar frá leikskólaaldri hætta að vera vinkonur að frumkvæði annarrar þeirra. Hin upplifir höfnun og einmanaleika. Söknuðurinn eftir vinkonunni getur varað lengi ásamt því að leit hefst að nýrri vinkonu, helst nýrri bestu vinkonu.
Óháð aðdraganda eða ástæðum vinslita er ekkert óeðlilegt að krakkar sem hafa verið mikið saman vaxi frá hvort öðru eða finni á einhverjum tímapunkti að þeir eiga ekki lengur samleið sem vinir. Það er einnig ofureðlilegt að barn sem vill hætta að vera vinur viti ekki hvernig best er að bera sig að. Þá er stundum gripið til þess ráðs að sniðganga hinn gamla vin, hætta jafnvel skyndilega að tala við hann/hana.
Hlutverk foreldra og skóla, hvernig er hægt að hjálpa?
Það er verkefni bæði kennara og foreldra að reyna að milda vanlíðan barns sem kvartar yfir vinaleysi eða upplifir að hafa verið hafnað af vini. Þegar mál hafa þróast með þessum hætti liggja lausnir ekki alltaf á borðinu þar sem það er hægara sagt en gert að skipa einhvern í vinahlutverk fyrir barnið. Engu að síður er eitt og annað sem hægt er að gera til að hjálpað börnum að takast á við vinslit hvernig svo sem þau eru tilkomin.
Hægt er að leiðbeina krökkunum í þessum aðstæðum t.d. að þau ræði saman með einhverjum fullorðnum um þá þróun og breytingar sem orðið hefur á vinasambandinu. Val á vinum er vissulega eitthvað sem ber að virða. Ef börnin geta útskýrt sín sjónarmið og líðan er stundum hægt að koma í veg fyrir misskilning og milda sársauka þess barns sem finnur til höfnunar. Öllum samböndum fylgir ákveðið samspil beggja aðila sem tekur gjarnan breytingum eftir því sem krakkar þroskast og aðstæður breytast. Í þessum málum er enginn sökudólgur.
Hvort sem um er að ræða vinslit eða breytingar á vinasambandi geta foreldrar og kennarar ekki einungis hvatt þau til að ræða saman heldur einnig sjálf átt samræður við börnin um góða samskiptahætti. Best er ef sú umræða byrjar snemma í lífi barnsins. Foreldrar geta líka hjálpað barni sínu að skapa aðstæður þar sem það getur byrjað að mynda ný tengsl. Þetta má gera með því að bjóða bekkjarfélaga barnsins heim svo börnin geti kynnst nánar. Að hvetja barnið til að fara á stúfana og leita að vinum skilar oft ekki árangri sérstaklega ef barnið er ungt og jafnvel óframfærið.
Í leikskólanum og skólanum er hægt að stuðla með markvissum hætti að tengslum innbyrðis t.d. með því að skapa aðstæður þar sem börnunum gefst kostur á að tala við sem flesta í hópnum/bekknum. Með því að velja í smærri hópa af handahófi lærir barnið að vinna með hinum börnunum. Kennarar geta einnig rætt með reglubundnum hætti um gildi jákvæðra samskipta. Skilaboðin eru að koma ávallt vel fram við hvert annað hver svo sem á í hlut. Það eiga ekki allir vin/vini eða einhvern besta vin en það eru heldur engir óvinir. Öll eru börnin leikskólafélagar, bekkjarfélagar, skólafélagar sem eiga það sameiginlegt að langa til að líða vel í hópnum sínum. Hjálpum þeim til þess.
Birt með leyfi höfundar : Kolbrún Baldursdóttir - sálfræðingur.
Greinin birtist á heimasíðu höfundar www.kolbrunbaldurs.is