Fullorðnir gerendur eineltis

Hvað býr í einstaklingi sem vill leggja annan í einelti ?

Einelti finnst án tillits til efnahags, stéttar, stöðu eða búsetu. Fullorðnir gerendur eineltis eru bæði karlar og konur. Auðvitað er ekki hægt að setja alla gerendur eineltis undir sama hatt. Í langflestum tilvikum er hér um að ræða einstaklinga sem hefur ekki gætt að sér í samskiptum við aðra, t.d. ekki áttað sig á “hans húmor” er ekki allra. Þegar kvörtun berst verða þessir einstaklingar oft alveg miður sín enda enginn ásetningur að baki og sannarlega var ekki meiningin að særa neinn. Málið er því auðleyst, “gerandi” lætur af hinni neikvæðri framkomu/einelti og biðst afsökunar.

Annar hópur gerenda eineltis er fólk sem er í sjálfu sér ekki slæmt fólk í eðli sínu og innst inni langar þeim ekki til að meiða neinn. Engu að síður er vanlíðan þeirra slík að hún einfaldlega bitnar á öðrum. Einhver þörf leynist til að fá útrás fyrir neikvæðar hugsanir og sárar tilfinningar og beinast  örvarnar þá að einhverjum á staðnum sem lætur vel við höggi.

Þriðji hópurinn gerenda eineltis og vonandi sá minnsti eru einstaklingar sem búa yfir jafnvel hatursfullum hugsunum í garð umhverfisins. Þessir aðilar njóta þess allt  að því að leggja einhvern í einelti.

Hér að neðan eru nokkrar lýsingar á hvað stundum
býr í huga og hjarta gerenda eineltis.

Gerendur eineltis virðast eiga nokkra þætti sameiginlega í fari sínu. Iðulega eiga þessir aðilar auðvelt með að laða til sín fólk og raða því  í kringum sig. Stundum er eins og þeir hafi ógnandi áhrif á aðra. Sumir telja jafnvel hag sínum betur borgið með því að blanda geði við þessa einstaklinga en að halda sig frá þeim.

Á kaffistofunni eru þessir einstaklingar oft áberandi, tala mikið og hafa sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Sumir þeirra eru umtalsillir, tala illa um opinbera einstaklinga og eru gagnrýnir og dómharðir. Þeir geta einnig verið hrókur alls fagnaðar, fyndnir og orðheppnir. Í ákveðnum aðstæðum upplifa þeir sig sterka félagslega og finnst þeir vera í sterkri stöðu á vinnustaðnum.

Í þeirra persónulega lífi gengur þó e.t.v. ekki allt sem skyldi. Margir gerendur eineltis eru einfaldlega óhamingjusamt fólk sem hefur ekki borið gæfu til að hafa innsæi í eigin vanlíðan, horfast í augu við sjálfan sig og stilla upp lífi sínu með þeim hætti að þeir njóti gleði og fullnægju

Undir niðri býr oftar en ekki minnimáttarkennd og afbrýðisemi og þeir eru uppteknir af því að bera sig saman við aðra. Ef þeim finnst einhver á staðnum fá meira en þeir af t.d. athygli eða aðdáun, „óverðskulduð“ laun eða finnst viðkomandi hafa verið „óþarflega“ heppin í lífinu, er sá hinn sami e.t.v. líklegt fórnarlamb.

Þeir sem leggja í einelti hafa stundum einhvern tímann verið þolendur eineltis. Þeir ætla sannarlega ekki að lenda í þeirri stöðu aftur og vilja því frá upphafi styrkja stöðu sína á staðnum með ölllum ráðum og dáðum. Mörg dæmi eru um að gerendur hafi einnig átt erfitt uppdráttar í skóla og að aðstæður á heimilinu sem þeir ólust upp á hafi verið ábótavant. Námsörðugleikar, stundum lág vitsmunagreind, skortur á tilfinningalegu innsæi, leiði og sú upplifun að aðrir fái alltaf meira en þeir eru meðal einkenna þessa hóps. Af þessum eða öðrum orsökum hafa þeir komið út í lífið með brotna sjálfsmynd sem þeim tekst að fela vandlega undir yfirborði sjálfsöryggis og félagslyndi t.d. á vinnustað.

Einelti á vinnustað hefst oftast með slúðri og baktali um einhvern sem gerandanum finnst óþolandi eða telur að ógni stöðu sinni. Slíkt tal hefur tilhneigingu til að vinda upp á sig. Gerandinn verður að réttlæta hið neikvæða umtal fyrir sjálfum sér og áhangendum og það er gert með því að týna saman eins mikið af göllum og veikleikum þess aðila sem pirringurinn beinist að.

Stundum felur eineltið einfaldlega í sér hunsun og útskúfun. Þá er þolandinn ekki þess verðugur að litið sé á hann, rætt sé við hann og jafnvel ekki einu sinni að rætt sé um hann. Yfir hann er einfaldlega sveipuð hula ósýnileikans.

Gerandinn hugsar ekkert endilega og e.t.v. sjaldnast „nú ætla ég að fara að leggja þennan í einelti“. Líklegt er að gerandinn hugsi frekar á þessa leið: „þessi manneskja er svo pirrandi, svo ömurleg og þess vegna er í lagi að tala neikvætt um hana við aðra.“ „Við bara verðum að gera eitthvað í þessu“ o.s.frv. Hann hugsar ef til vill: „þetta er minn vinnustaður líka og ég á ekki að þurfa að þola þessa manneskju“.  Dæmi um efni slúðurs og níðs sem beinist að þolanda er:

Hún þykist vera eitthvað!

Hún sefur örugglega hjá þessum..!

Hún er með hærri laun en við en vinnur minna!

Hún mætir ekki alltaf á réttum tíma!

Sjá hvernig hún klæðir sig!

Sjá hvað hún borðar!

Hvernig hún er..!

Ef svona baktal byrjar er oft erfitt að stoppa það eða snúa til baka, sérstaklega ef enginn sem heyrir það reynir að stoppa það. Ef einhver gerir það þá gætir gerandinn þess að sá hinn sami sé ekki viðstaddur næst þegar rætt er um þolandann. Því lengur sem svona lagað fær að þrífast því heiftugri verður oft gerandinn. Í sumum gerendum eineltis leynist hatur og hann finnur jafnvel til nautnar þegar hann sér áhrifin af því sem hann skóp og setti af stað svo ekki sé minnst á valdið sem hann finnur að hann hefur. Slíkur gerandinn upplifir þetta jafnvel eins og verkefni (e. mission) eða för sem verður að fara. Með því að valda öðrum vanlíðan upplifir hann sig sterkan og verðugan. Svo mikið hatur getur leynst í hjarta geranda eineltis að honum stendur alveg á sama um líðan þolandans, hvort hann lifir eða deyr þess vegna. Framkoma og viðmót hans gagnvart þolandanum er stundum algerlega snautt allri samkennd. En þessi lýsing á sannarlega ekki við um alla gerendur eineltis. Í langflestum tilvikum er um að ræða fólk sem er í raun “ágætis fólk” en hefur vegna innri vanmáttar og vanlíðan ratað út af beinu brautinni í samskiptum við fólk. Að leggja annan í einelti er skammtíma sjálfsmats “púst” sem skilar fáu öðru en enn verri líðan þegar upp er staðið.

Í sumum tilvikum er gerandinn aðeins einn. Það stoppar hann þó ekki í að vera með eilífar neikvæðar aðfinnslur, skítkast eða niðurlægjandi athugasemdir sem skjótast út leynt og ljóst við möguleg og ómöguleg tækifæri. Markmiðið er oft að bola þolandanum burt úr vinnunni. Hætti þolandinn störfum hvort sem hann er látinn fara eins og stundum gerist eða fer sjálfviljugur sem gerist oftar, upplifa gerendur gjarnan sigur. Með brotthvarfi þolanda hafa athafnir þeirra verið réttlættar.


 Birt með leyfi höfundar : Kolbrún Baldursdóttir - sálfræðingur.

Kolbrún Baldursd.jpg

Greinin birtist á heimasíðu höfundar www.kolbrunbaldurs.is