Foreldrar gerenda eineltis
Ekki er auðvelt að vera foreldrar barns sem leggur annað barn/börn í einelti. Oftast kemur það foreldrum á óvart þegar þeir fá upplýsingar um að barnið þeirra sé e.t.v. gerandi eineltis. Enda þótt fyrstu viðbrögð einkennist af undrun og jafnvel vantrú vilja langflestir foreldrar að gengið sé strax í málið og að öll málsatvik verði upplýst. Komi í ljós að barnið þeirra sé gerandi eineltis vilja þessir sömu foreldrar oftast taka fullan þátt í úrvinnslunni.
Fátt er þó jafn eðlilegt en að finna til verndartilfinningar gagnvart barni sínu þegar ásakanir um eineltishegðun þess bera á góma. Margir foreldrar geta ekki ímyndað sér að barnið þeirra geri eitthvað af þessu tagi því það „sé einfaldlega ekki líkt því“ og hljóti því að vera um einhvern misskilning að ræða. Þó eru dæmi um það að foreldrar hafa sagt að þetta komi þeim ekki á óvart. Ástæðan er þá sú að þeim er kunnugt um að barnið þeirra, af einhverjum orsökum, eigi það til að sýna öðrum börnum neikvæða hegðun. Hversu ótrúleg sem foreldrum kann að finnast tíðindi sem þessi bregðast einstaka foreldrar illa við þeim, grípa til varna og neita að horfast í augu við meintan hlut barns þeirra í málinu.
Aðstæður í skólanum laða þess vegna fram önnur og ólík persónueinkenni en heima.
Flestir eiga sér fleiri en eina birtingarmynd
Enda þótt spor foreldra gerenda eineltis geti verið þung er afar mikilvægt að ganga í úrvinnslu málsins með opnum huga. Hafa skal jafnframt í huga að það er algengt að börn sýni aðra framkomu, hegðun og persónuleikaeinkenni í skólanum en á heimilinu. Í skólanum er annað og meira umhverfisáreiti en á heimilinu. Aðstæður í skólanum laða þess vegna fram önnur og ólík persónueinkenni en heima. Það kemur t.d. foreldrum oft á óvart þegar kennari lýsir því hvernig barnið er í skólanum og kennarinn verður að sama skapi hissa þegar hann fréttir af hegðun barns á heimilinu. Þetta er m.a. ástæða fyrir því hversu mikilvægt það er að kennarar og foreldrar séu í góðum samskiptum. Með því að bera saman bækur sínar með reglubundnum hætti geta foreldrar og kennarar brugðist við hegðun og líðan barns með viðeigandi hætti.
Gerandi eineltis þarf aðstoð
Ganga má út frá því að barn sem er gerandi eineltis líði ekki vel. Það hefur sýnt sig þegar farið er að skoða líðan og aðstæður gerenda að þá kemur oft í ljós að þeir glíma við vanlíðan af einhverju tagi. Liður í úrvinnslu eineltismála er að komast að því hvað hrjáir gerandann og þannig lágmarka möguleikann á að hann finni hjá sér þörf og hvöt til að leggja í einelti. Stundum má rekja vanlíðan gerandans til skólans eða skólatengdra þátta. Um getur verið að ræða námserfiðleika sem ekki hafa verið greindir, vanlíðan á heimilinu af einhverjum orsökum eða vanlíðan í tómstundum.
Leyfa skynseminni að stjórna ferðinni í þessu sem og öðru
Foreldrar eru lykilaðilar, ekki bara þegar kemur að því að grafast fyrir um orsakir þess að barnið finni hjá sér hvata til að særa eða meiða önnur börn, heldur einnig að hvetja það til að láta af hinni neikvæðu hegðun enda sé hún ekki liðin. Enginn þekkir barnið betur en foreldrar þess og enginn er áhrifameiri fyrirmynd en þeir.
Ef foreldrar gerandans eru hins vegar meðvirkir eða leyfa varnarviðbrögðum að villa sér sýn getur mál af þessu tagi orðið býsna þungt í vöfum og jafnvel erfitt úrlausnar. Eineltismál sem upp koma verður að kanna til hlítar. Þegar staðreyndir málsins liggja fyrir kemur í ljós hvernig er í pottinn búið og hvort grunsemdir áttu við rök að styðjast. Hafi kvörtunin átt við rök að styðjast er hægt, á grunni fyrirliggjandi gagna, að gera áætlun um úrlausn og eftirfylgd. Ef árangur á að nást til framtíðar skiptir máli að komast að rót vandans. Samvinna foreldra og skóla er ekki einungis í þágu þolandans heldur einnig gerandans.
Birt með leyfi höfundar : Kolbrún Baldursdóttir - sálfræðingur.
Greinin birtist á heimasíðu höfundar www.kolbrunbaldurs.is