Mikilvægasta persónan

Hefur álit annarra mikil áhrif á þig og þínar ákvarðanir og gerðir ? Hversvegna skyldir þú láta aðra taka þínar ákvarðanir ? Stjórnar annað fólk því hvernig þér líður ? Vita aðrir betur en þú hvernig þér líður og hvað þér er fyrir bestu ?

Skortur á sjálfstrausti veldur því oft að við verðum háð öðru fólki og skoðanir þeirra fara að hafa áhrif á hvernig við högum okkur og hvað við gerum. Við leitumst við að geðjast öðrum og leitum stöðugt eftir áliti þeirra og viðurkenningu á okkar verkum. Við verðum óörugg, óttumst gagnrýni og erum sífelt óánægð með það sem við gerum, hversu gott sem það er.
Þetta er skelfilegur vítahringur sem gefur í sífellu höggstað á okkur og okkar tilfinningum og getur mjög auðveldlega leitt af sér þunglyndi, vanmáttarkennd og leiðir margt fólk út í fyrringu áfengis og fíkniefna.

Þegar við lendum í þessari aðstöðu er hugur okkar fullur af neikvæðum, niðurbrjótandi hugsunum og tilfinningar okkar eru dofnar. Við erum ekki í stakk búin til að gefa af okkur, né þiggja nokkuð til baka. Það merkilega er að þó við þráum hól og þakkir fyrir það sem við gerum, þá gleðjumst við ekki þegar okkur er hrósað. Hugur okkar trúir ekki lengur á hól og falleg orð vegna þess að við höfum gert okkur neikvæða mynd af sjálfum okkur.
Við getum breytt þessu ástandi með því að temja okkur jákvæða hugsun og gera okkur skýra, jákvæða mynd af sjálfum okkur. Ræktum okkar góðu eiginleika og lærum að gleðjast yfir verkum okkar. Smám saman byggjum við upp sjálfsvirðingu sem er grundvöllur þess að aðrir virði okkur og hætti að notfæra sér okkur.

Það er kominn tími til að þú kynnist mikilvægustu persónu heims. Þessi persóna stjórnar þér, velgengni þinni, heilsu, hamingju og auði. Þú hefur þekkt þessa persónu alla ævi, en ef til vill er þetta eina persónan sem þú hefur ekki hlustað á hingað til. Mikilvægasta persóna í heimi ert þú. Þessi manneskja hefur gríðarlega hæfileika og möguleika á að stjórna sínu eigin lífi og hamingju. Hún á það skilið að hlustað sé á hana og skoðanir hennar virtar. Taktu stjórnina í eigin hendur og breyttu lífi þínu til betri vegar.
Starfsemi hugans

Hugur okkar skiptist í meðvitund og undirmeðvitund. Meðvitundin sér um meðvitaðar hugsanir og gerðir, meðan undirmeðvitundin geymir allar okkar tilfinningar og sjálfsmynd. Undirmeðvitundin stjórnar hvernig okkur líður og hvernig við bregðumst við atvikum í lífinu. Hún geymir minningar sem við höldum að séu löngu gleymdar og kemur okkur stundum á óvart með því að draga fram atriði sem við viljum ekkert með hafa.
Undirmeðvitundin starfar nótt og dag. Það er hún sem býr til myndir þegar við látum hugann reika og það er hún sem sér okkur fyrir draumum okkar um nætur. Áhyggjur og kvíði eru undirmeðvitundinni kveikja að nýjum og nýjum hörmungarmyndum og martröðum. Hún spinnur endalausan vef sem aðeins eykur á vanlíðan okkar og gera okkur ráðþrota og vonlaus.

Ótti og kvíði eiga bústað í undirmeðvitund okkar. Þetta eru neikvæðar tilfinningar sem hafa bein áhrif á hvernig okkur líður og hvernig okkur gengur í daglegu lífi. Ef sjálfsmynd okkar er sú að við séum lægra sett en aðrir eða minna virði, þá bregðumst við við samkvæmt því og förum í vörn af minnsta tilefni. Framkoma okkar speglar líka tilfinningar okkar á hverjum tíma. Það er margsannað að fólk sem þjáist af þunglyndi og kvíða er líklegra til að lenda í slysum og óhöppum en annað fólk.

Hugur okkar reynir að hrinda öllum okkar hugsunum í framkvæmd, bæði meðvituðum og ómeðvituðum. Undirmeðvitundin er gríðarlega sterkur kraftur sem ekki má vanmeta. Séu flestar okkar tilfinningar neikvæðar, mun okkur ganga illa í samskiptum við aðra og framkoma okkar litast af því hvernig okkur líður. Ekkert af því sem við gerum virðist skila árangri og áform okkar ganga ekki upp.

Sé sjálfsmynd okkar og sjálfsvirðing á hinn bóginn sterk, þá tökum við gagnrýni á annan hátt og hugsum sem svo: "ef gagnrýnin er réttmæt, þá verð ég að lagfæra það sem miður fór, en ef gagnrýnin er ranglát þá hefur hún engin áhrif á mig". Með öðrum orðum: við látum ekki álit annara hafa áhrif á okkur vegna þess að við erum þess fullviss að við höfum gert rétt og eins vel og við gátum.

Þegar við fáum svokölluð hugboð eða hugmyndir, þá er undirmeðvitundin að verki og hugmyndin getur verið árangur af langri vinnu hugans án þess að við höfum gert okkur grein fyrir því. Hefur þú ekki orðið fyrir því að finna allt í einu lausn á vandamáli frá í gær eða síðustu viku, án þess að hafa verið að hugsa meðvitað um vandamálið? Undirmeðvitundin hefur verið að starfa að lausn vandans og er nú að skila lausninni til meðvitaða hluta hugans til þess að þú getir komið henni í framkvæmd.

Hvernig getum við þá haft áhrif á undirmeðvitundina? Það virðist ekki auðvelt verk þar sem hún er ekki hluti af sjálfráðum hugsunum okkar. Það er hins vegar gerlegt að breyta þeirri mynd sem við höfum af sjálfum okkur og breyta þannig líðan okkar og því hvernig við bregðumst við. Þannig getum við í raun haft áhrif á alla okkar framtíð og hvaða árangri við náum.

Aðferðin sem við notum til að komast í samband við undirmeðvitundina heitir innræting og fer þannig fram að við endurtökum eitthvað margoft þar til það síast inn og greipist fast í huga okkar. Við þurfum að segja sjálfum okkur á hverjum degi að við getum það sem við ætlum okkur og um leið bægja frá okkur öllum efasemdum og neikvæðum hugsunum. Hugurinn er jafnmóttækilegur fyrir neikvæðum hlutum og jákvæðum og við verðum að fara varlega, því við höfum allt of lengi hleypt neikvæðum hugsunum að. Þar liggur vandinn og það verðum við að lagfæra.
Markmið

Ef við viljum breyta lífi okkar varanlega, komast upp úr því hjólfari sem við höfum allt of lengi hjakkað í og öðlast eitthvað það sem okkur hefur langað í verðum við að hafa markmið. Það skiptir ekki máli hvað okkur langar í eða hvað við viljum verða. Við getum öðlast það sem okkur langar í, en aðeins ef við vinnum skipulega að því og setjum okkur skýr markmið.
Allt sem við afrekum í lífinu hefst sem hugmynd í höfði okkar eða einhverra annara. Stundum er sagt að orð séu til alls fyrst, en þá gleymist að á undan orði fer af stað hugsun í heila okkar og hugmynd skapast. Við eigum ekki í neinum vandræðum með að hrinda í framkvæmd einföldum hlutum sem við getum gert þegar í stað, en annað gildir um verk sem þarfnast undirbúnings og taka langan tíma.
Því miður er það hluti af eðli mannsins að fresta hlutum sem ekki þarf lífsnauðsynlega að framkvæma strax. Þess vegna hættir okkur til að fresta ýmsu sem okkur langar til að gera, stundum svo árum skiptir. Innst inni líður okkur ekki vel yfir því að fresta hlutum og þess vegna finnum við okkur afsakanir til að útskýra hvers vegna við erum ekki búin að gera þetta og gera hitt. Við verðum sérfræðingar í afsökunum og reynum að skella skuldinni á einhvern annan eða einhverjar aðstæður.

Algengar afsakanir eru:

  • Ég hef ekki nægan tíma…

  • Ég er of blankur…

  • Makinn/börnin/vinnuveitandinn yrði ekki ánægður…

  • Það er of kalt/heitt núna…

  • Ef ég hefði tækifæri…

  • Ef ég væri betur settur…

  • Ef ég kynni það…

  • Ég get það ekki…

Í rauninni endurspegla þessar afsakanir aðeins vantrú á okkar eigin getu og ágæti. Við hræðumst álit annara og komum okkur undan ábyrgð á eigin gerðum og framtíð um leið og við búum til ástæðu til að sitja áfram aðgerðalaus.

Hugsum okkur að við þurfum að fara að endurnýja bílinn. Við getum falið okkur bak við ótal afsakanir alveg þangað til að sá gamli deyr drottni sínum og þá er nú hætt við að ýmsir verði ekki glaðir, hvorki maki né seðlaveski. Við höfum vitað í tvö ár að þessi stund væri á næsta leyti, en við höfum enga áætlun um hvernig á að leysa vandann, vegna þess að það er auðveldara að fresta hlutunum en taka á þeim .

Previous
Previous

Er sjálfsmyndin í lagi ?

Next
Next

Njóttu lífsins