Geturðu lánað mér........
Við erum alltaf að gefa og þiggja í samskiptum við aðra. Stundum getur verið gott að fá lánaða dómgreind, aðstoð við ákvarðanatöku, öxl á erfiðum tímum, skilning, hlustun o.s.frv. En getur verið að við séum stundum of mikið í lánastarfsemi þar sem við treystum ekki eigin ákvörðunum eða dómgreind til að takast á við hluti, en treystum því mun betur á aðra. Hvernig er þetta þegar við förum í samband, hvenær er eðlileg hjálpsemi í gangi og hvenær týnum við okkur, ef einhvern tímann, í samrunanum?
Í gegnum tíðina hef ég tekist á við hin ýmsu verkefni ein, ekki alltaf að ég hafi valið það en aðstæður verið þannig. Svo hef ég líka tekist á við verkefni með öðrum og upplifað mikinn létti að geta deilt með einhverjum og speglað líðan mína og vangaveltur. En svo hef ég líka upplifað í nánum samböndum að hafa misst smá saman viljann og öryggið til að gera ýmislegt sem ég var vön að gera áður, jafnvel ein og óstudd. Ég átti það til í gegnum ákveðin tímabil að slaka helst til mikið á og gefa öðrum svoldið leyfi til að stýra, svona rétt eins og ég sé að verðlauna mig fyrir að hafa verið svona asskoti dugleg lengi; getur þú ekki bara séð um þetta.
Þrátt fyrir að ég vissi yfirleitt hvað ég vildi, hafði áhuga á og skipti mig máli þá einhvern veginn taldi ég að hinn aðilinn væri betur til þess fallinn að taka ákvarðanir fyrir mig/okkur. Áður en ég vissi af treysti ég sjálfri mér ekki eins og áður og fór að efast um hluti sem ég hafði ekki gert áður. Mér finnst þetta svo merkilegt og hef alveg átt erfitt með að viðurkenna þetta fyrir mér en geri það hér með – kannski af því að þetta hefur breyst til batnaðar hin síðari ár. Meðvitund og viðurkenning er alltaf fyrsta skrefið í átt að breytingum.
Þetta getur allt byrjað á hversdagslegum hlutum eins og treysta ósjálfrátt á aðra þegar þú ert í óvissu með eitthvað sem skiptir kannski ekki miklu máli. Búast við að hinn aðilinn sé með hugmyndir um hvað eigi að borða, horfa á í sjónvarpinu eða hvert eigi að fara í frí. Falla fyrir hugmyndafræði og pólitískum skoðunum annarra og gera lítið úr eigin gildum og væntingum. Breyta um lífsstíl til þess að reyna að þóknast öðrum, týna sjálfum sér á meðan maður er í fullri vinnu við að upphefja einhvern annan.
Ég man þegar ég var einu sinni í þessu ferli, sat gapandi upp í nýja vininn sem var með einræðu í einhverri veislunni um hluti sem voru mjög umdeildir í samfélaginu. Hann var á allt annarri skoðun en ég en samt sagði ég ekki neitt. Þá horfði ein vinkona mín á mig rannsakandi augum og sagði svo; hvað gerðist fyrir þig, ertu búin að missa málið! Þetta ýtti svo við mér, og ég fór að horfa á mig úr fjarlægð. Hvernig hafði þetta gerst…..hvar byrjaði þetta og hvernig ætlaði ég að ná mér til baka? Það er svo aftur tilefni í annan pistil 😉
Næst þegar þú ert í vafa með eitthvað og vilt að einhver annar leysi málin fyrir þig gæti verið gott að skoða hvort þú gætir nýtt það sem tækifæri til að byggja upp eigin öryggi. Gætir þú kannski hagnast á því til lengri tíma að taka málin í eigin hendur og klára þau? Á sama tíma og þú tekst á við hluti sem stækka þig, ertu að auka líkurnar á að eiga í heilbrigðari samskiptum við aðra.
Þegar þú gefur öðrum of mikið vald yfir lífi þínu ertu búin að missa valdið yfir lífi þínu. Heilbrigð samskipti ganga út á eitthvað allt annað!
—— ——
Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni. Í Hamingjuhorninu eru fróðlegir og innihaldsríkir pistlar um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum, ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur síðuna hennar , en hún leifði ÞÚ skiptir máli síðunni að nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.