Ég fann lausnina í 12 sporunum……

Ég vissi lítið um AA samtökin þegar ég kom á minn fyrsta AA fund fyrir tæpum 17 árum síðan. Það eina sem ég vissi var að ég átti við áfengisvandamál að stríða og varð að gera eitthvað í málunum. Mér gekk  ágætlega á fundum og heyrði allstaðar heyrt um lausnina en mér fannst ég alltaf svo mikið spes að hún hentaði mér ekki. Ég tók þátt í sumum þeirra með því að tala útfrá minni reynslu, en áfengisvandamálið var óleyst. Ég vildi ekki taka á mínum vanda og frestaði því alltaf og dróst bara neðar og neðar, Það var ekki fyrren ég kynntist 12 sporum AA samtakanna, fyrir um 14 árum síðar sem rann upp fyrir mér að fram að því hafði ég bara átt áfengisvandamálið sameiginlegt með AA félögum mínum, ekki lausnina. Ég var inn og út úr meðferðum frá arinu ´99 -´2003 og kynntist flestum þeim meðferðarúrræðum sem í boði voru.  Ég hafði aldrei lesið AA bókina,  aðeins lesið sporin á stórum spjöldum á veggjum fundarherbergja. Mér leið orðið mjög illa, ég sá fram á að ef ég gerði ekki eitthvað rótækt, þá færi ég aftur að drekka. Eftir að hafa verið frá neyslu í 3 ár gjörsamlega á hnefanum, reyndi ég að taka líf mitt, ég kynntist þarna geðveikinni án þess að vera vera í neyslu, eftir það fór ég inná geðdeild og þar bauðst mér að vera leiddur í gegnum 12 sporin. Ég ákvað að segja “já takk” sem voru mín mestu gæfuspor, ég hafði sko engu að tapa því innst inni langaði mig til að lifa, svo ég fór að taka leiðsögn og vinna sporin. Ég ákvað að setja til hliðar allt sem ég taldi mig vita um alkóhólisma og vera fús til að læra eitthvað nýtt. Og það sem meira var, ég hætti að lesa sporin og fór að taka þau með trúnaðarmanni. Það kom í ljós þegar við fórum að skoða AA lausnina að ég vissi ekkert um þennan sjúkdóm minn. Smám saman fór líf mitt að breytast. Ég tók stærstu ákvörðunina í lífi mínu til þessa að láta líf mitt lúta handleiðslu Guðs. Guð hefur gert fyrir mig, það sem ég gat ekki gert sjálfur. Hann hefur gefið mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt og kjark til að breyta því sem ég get breytt. Í fjórða og fimmta sporinu skoðaði ég fortíðina og þar opnaðist fyrir mér alveg nýr heimur. Í fyrsta skipti sá ég líf mitt í réttu ljósi; eigingirnina, óttann og reiðina sem hafði stjórnað lífi mínu. Í níunda sporinu fékk ég tækifæri til að biðja vini mína og fjölskyldu fyrirgefningar á því sem ég hafði gert á þeirra hlut, og svo fékk ég tíunda ellefta og tólfta til að lifa daginn í dag. Þessi framkvæmdaráætlun sem sporin hafa gefið mér er gjörsamlega nýtt líf, andlegt líf því það sem ég vissi ekki var að AA leiðin er andleg leið. Það nefnilega stendur í AA bókinni að það sé til ein lausn, það er AA lausnin fáeinar einfaldar meginreglur sem við þurfum að fylgja í okkar lífi og þá er batinn vís. Því kynntist ég ekki fyrr en ég fór að vinna sporin, og sá mér til undrunar að lausnin var allan tímann í AA bókinni. Í hroka mínum hafði ég ekki kært mig um að lesa hana. Núna finn ég líka að ég er ekki einn, ég er með Guði og AA félögunum. Ég finn það þegar ég faðma AA fólk eftir fundi. En félagsskapurinn einn var ekki nóg til að halda mér frá áfengi, ég þurfti lausnina og hana fann ég í tólf sporum AA samtakanna. Ég er þakklátur mínum trúnaðarmanni , AA samökunum og Guði fyrir að hafa fengið að kynnast þessari lausn, ég bið þess að aðrir alkóhólistar finni hana líka.

“vinur í bata segir frá”

recovery.jpg
Previous
Previous

Er unglingurinn þinn í neyslu ?

Next
Next

Gleðilegt nýtt ár 2020