Alkahólismi
24 tíma aðferðin
Meðan við drukkum, leið okkur oft svo illa að við sórum, ,,aldrei aftur”. Við tiltókum tímalengdina ár, eða lofuðum einhverjum að við myndum ekki snerta áfengi í þrjár vikur, eða þrjá mánuði. Og auðvitað reyndum við oft og mörgum sinnum að fara í bindindi.
Við vorum alveg einlæg þegar við bitum á jaxlinn og gáfum þessar yfirlýsingar. Okkur langaði af öllu hjarta til að vera aldrei drukkin aftur. Við vorum fastákveðin. Við sórum að hætta að drekka, við ætluðum okkur að halda okkur frá áfengi langt inn í ófyrirséða framtíð.
Sum okkar, sem gáfu svona svardaga, héldu eftir einkatakmörkum. Við sögðum okkur sjálfum að loforðið hefði aðeins gilt fyrir ,,sterka drykki” , ekki fyrir bjór eða létt vín. Þannig lærðum við, ef við vissum það ekki fyrir að bjór og létt vín gátu gert okkur drukkin líka – við þurftum bara að drekka meira af því heldur en sterkum drykkjum til að fá sömu áhrifin. Já önnur okkar hættu alveg að snerta áfengi og héldu svardagana í þessa ákveðnu tímalengd... svo enduðum við þetta þurra tímabil með því að drekka aftur, og bráðlega vorum við komin í vandræði, með aukafarg sektakenndar og iðrunar.
Við sem eigum svona baráttu að baki reynum að forðast orðtökin,, að fara í bindindi” og ,,að sverja að halda sér þurrum”. Þau minna okkur á mistök okkar. Þótt við skiljum að alkóhólismi sé stöðugt, óbreytanlegt ástand, hefur reynslan kennt okkur að gefa engin langtíma loforð um að halda okkur þurrum. Okkur finnst miklu raunhæfara – og árangursríkara – að segja, ,,Ég ætla ekki að drekka áfengi í dag”.
Jafnvel þótt við höfum drukkið áfengi í gær, getum við gert áætlun um að drekka ekki í dag. Við gætum drukkið á morgun – hver veit hvort við verðum lífs þá? – en í þessa 24 tíma, ákveðum við að drekka ekki. Sama þótt freistingar og ögranir sæki að okkur, við ákveðum að grípa til allra þeirra bragða sem nauðsynleg reynast til að forðast að drekka í dag.
Vinir okkar og fjölskyldur eru skiljanlega orðin þreytt á að heyra okkur sverja ,,Í þetta sinn meina ég það”, og sjá okkur svo læðast heim vel kennd. Svo að við lofum þeim ekki, jafnvel ekki hvort öðru, að drekka ekki. Hvert okkar um sig lofar bara sjálfu sér. Það er þó ekkar eigin heilsa og líf, sem er að veði. Við, ekki fjölskyldur okkar eða vinir, verðum að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að okkur líði vel.
Ef löngunin í drykk er mjög sterk, hluta mörg okkar þessa 24 tíma niður í smærri einingar. Við ákveðum að drekka ekki í klukkutíma, til dæmis. Við getum vel þolað óþægindin af a drekka ekki í bara einn klukkutíma, svo einn enn, og svo framvegis. Mörg okkar byrjuðu bata sinn á þennan hátt. Allur bati frá alkóhólisma byrjar með einum klukkutíma án áfengis. Ein útgáfa af þessu er að fresta bara ( næsta ) glasi. (Hvernig líst þér á það? Ertu ennþá með gosdrykkinn ? Frestaðirðu virkilega að fá þér drykkinn sem við nefndum áður ? Ef þú hefur gert það, gæti þetta verið upphaf bata þíns).
Þú getur fengið þér næsta glas seinna, en í bili frestum við því að minnsta kosti í dag, eða þessa stund. ( Eigum við að segja niður þessa síðu ? )
24 tíma áætlunin er mjög sveigjanleg. Við getum byrjað á henni á nýjan leik, hvar sem við erum. Heima, í vinnunni, á bar, eða í sjúkrarúmi, klukkan 4 að morgni eða 3 eftir hádegi, við getum ákveðið þar og þá að drekka ekki áfengi næstu 24 tíma eða 5 mínútur.
Ef þessi áætlun er endurnýjuð reglulega, þá geturðu forðast hugtök eins og að fara í bindindi eða lofa bót og betrun. Þetta á hvort tveggja sinn endi, eins og áætlað var – og þá fannst okkur allt í lagi að byrja aftur að drekka. En dagurinn í dag er alltaf nýr. Þannig lifum við lífinu, við vitum ekki um annað en daginn í dag, og allir geta verið án þess að drekka í einn dag. Fyrst reynum við að lifa í nútíðinni bara til að halda okkur allsgáðum – og það er hægt. Og þegar þessi hugmynd er orðinn okkur eiginleg, þá finnum við að 24 tíma aðferðin er mjög virk og ánægjuleg leið til að leysa mörg önnur vandamál líka.
Birt efni tekið úr bókinni “Líf án áfengis”
Að halda sig frá fyrsta glasinu.
,,Eitt glas er of mikið og tuttugu er of lítið”
Þegar við byrjuðum að drekka, vildu mörg okkar ekki nema eitt eða tvö glös og þáðu ekki meira. En með tímanum jókst fjöldi þeirra. Og um síðir fundum við að við vorum farin að drekka meira og meira, sum okkar urðu mjög drukkin. Kannski sást þetta ekki alltaf á okkur né heyrðist, en á þessum tíma vorum við aldrei alveg allsgáð.
Ef þetta fór of mikið í taugarnar á okkur, minnkuðum við drykkjuna, eða reyndum að takmarka okkur við eitt eða tvö glös, eða að fara að drekka bjór eða létt vín í stað sterkra drykkja. Við reyndum að minnsta kosti að minnka magnið, svo að við yrðum ekki alltof drukkin. En allar þessar aðferðir urðu erfiðari og erfiðari. Stundum fórum við jafnvel í bindindi og drukkum alls ekki í tíma. En við fórum alltaf að drekka aftur – bara eitt glas. Og fyrst það gerði okkur greinilega engan stórskaða, fannst okkur allt í lagi að fá okkur annað.
Kannski drukkum við ekki meira við þetta tækifæri, og það var mikill léttir að finna að við gátum drukkið eitt eða tvö glös og hætt svo. Sum okkar gerðu þetta oft. En þetta reyndist vera tál. Það sannfærði okkur um að okkur væri óhætt að drekka. Og svo kom að því við einhver sérstök hátíðarhöld, persónulegan missi, eða ekkert sérstakt, þegar tvö eða þrjú glös hresstu okkur sérdeilis vel, svo að við héldum að eitt eða tvö til myndu ekkert skaða. Þótt við hefðum alls ekki ætlað okkur það, vorum við allt í einu farin að drekka of mikið aftur. Við vorum aftur komin á sama stað – drukkum of mikið án þess að ætla okkur það.
Þegar þessi reynsla endurtók sig nógu oft, leiddi hún til þessar óhjákvæmilegu niðurstöðu: Ef við drekkum ekki fyrsta glasið, verðum við aldrei drukkin. Í stað þess að ætla okkur að verða drukkin, eða að reyna að takmarka fjölda glasanna eða magn áfengisins, erum við þess vegna að læra að einbeita okkur að því að forðast aðeins eitt glas: það fyrsta.
Þetta reyndist þannig að í stað þess að hafa áhyggjur af takmörkun glasafjöldans í lok drykkjutímabils, forðumst við glasið, sem kemur því af stað. Þetta virðist nærri heimskulega einfalt er það ekki ?
Það er erfitt fyrir mörg okkar núna að trúa því að við skyldum aldrei komast að þessari niðurstöðu sjálf áður en við leituðum okkur aðstoðar
En aðalatriðið er þetta: Nú vitum við að þetta er það sem dugar.
Í stað þess að reyna að reikna út, hve mörg glös við þyldum – fjögur ? – sex ? tólf ? – höfum við hugfast, ,,Drekktu bara ekki fyrsta glasið”
Það er miklu einfaldara. Þessi hugsanavenja hefur hjálpað hundruðum þúsunda manna til að halda okkur frá áfengi svo árum skipti. Læknar sem hafa sérhæft sig í alkóhólisma, segja okkur að það sé læknisfræðilega rétt að forðast fyrsta glasið. Fyrsta glasið kemur af stað ílöngun, annaðhvort strax eða einhvern tíma síðar, til að drekka meira og meira, þar til við erum aftur komin í vandæði vegna drykkjunnar. Margir hafa komist á þá skoðun að alkóhólismi sé það, þegar við verðum háð eiturlyfinu ethyl-alkóhóli, og við verðum að halda okkur frá fyrsta skammtinum af lyfinu, sem við höfum ánetjast, eins og allir eiturlyfjasjúklingar, sem vilja halda heilsu.
Birt efni tekið úr bókinni “Líf án áfengis”
,,Allt í réttri röð”.
Hér er gamalt orðtak, sem hefur sérstaka þýðingu fyrir okkur.
Þegar við þýðum það fyrir okkur er það svona: Við verðum að muna öllu öðru fremur, að við getum ekki drukkið. Að drekka ekki er okkar fyrsta boðorð, hvar sem er, hvenær sem er, og undir öllum kringumstæðum.
Þetta er lífsnauðsynlegt fyrir okkur. Við höfum lært að alkóhólismi er lífshættulegur sjúkdómur, sem leiðir til dauða á margan hátt. Við viljum ekki ýta undir þennan sjúkdóm með því að taka þá áhættu að drekka. eins og amerísku læknasamtökin hafa lýst, er meðferðin á þessum sjúkdómi ,,fyrst og fremst í því fólgin að drekka”. Reynsla okkar er samhljóða. Í hversdagslífinu þýðir þetta, að við verðum að gera hvaða ráðstafanir sem nauðsynlegar eru, hvaða óþægindin sem fylgja, til að drekka ekki.
Við höfum verið spurð ,,þýðir þetta að þið takið líf án áfengis fram yfir fjölskylduna, vinnuna og álit vina ykkar?”
Þegar við lítum á alkóhólisma sem lífshættulegan sjúkdóm, er svarið augljóst. Ef við björgum ekki heilsu okkar – lífi okkar – þá munum við sannarlega ekki eiga neina fjölskyldu, vinnu eða vini. Ef við virðum fjölskylduna, vinnuna og vinina, verðum við fyrst að bjarga eigin lífi til að njóta alls annars.
,,Allt í réttri röð” hefur margar aðrar merkingar líka, sem allar hafa þýðingu í baráttu okkar við drykkjuvandamálið. Mörg okkar hafa til dæmis tekið eftir því, þegar við hættum fyrst að drekka, að það virtist taka okkur lengri tíma að ákveða okkur en okkur þótti gott. Ákvarðanataka virtist almennt vera erfið fyrir okkur. Nú er óákveðni ekkert bundin við óvirka alkóhólista, en kannski er hún hvimleiðari fyrir okkur en aðra. Húsmóðirin getur ekki ákveðið hvar hún á að byrja að hreinsa til. Skrifstofumaðurinn getur ekki ákveðið hvort hann á að byrja að hringja það sem hann þarf eða svara bréfunum. Við viljum gjarnan bæta fyrir fyrri vanrækslu okkar á mörgum sviðum. Við getum samt greinilega ekki gert allt í einu.
Þá hjálpar ,,Allt í réttri röð”. Ef eitthvað af þeim valkostum sem fyrir okkur liggja felast í því hvort við eigum að drekka eða ekki, þá þarf sú ákvörðun að fá forgang. Ef við héldum okkur ekki allsgáðum, vissum við að hvergi yrði hreinsað, engin símtöl færu fram, engin bréf yrðu skrifuð. Svo notuðum við sama orðtakið til að skipuleggja nýfundinn tíma okkar. Við reyndum að skipuleggja framkvæmdir dagsins, að hagræða verkunum eftir mikilvægi þeirra, og hafa aldrei áætlunina of erfiða.
Við höfðum í huga annan forgang, heilsu okkar, af því að við vissum að ef við yrðum of þreytt, eða slepptum úr máltíð væri það hættulegt. Meðan við drukkum, var líf margra okkar nokkuð óskipulagt. Ruglingurinn gerði okkur oft örg og jafnvel örvæntingarfull. Listin að drekka ekki lærist betur ef við höfum reglu á hverjum degi – en við verðum að vera raunsæ og hafa áætlunina sveigjanlega. Takturinn í okkar sérstöku venjum er róandi, og gott ráð til að skipuleggja reglusemina er – já, ,,Allt í réttri röð”.
Hver getur hjálpað?
Fjölskyldan.
Af öllum sem geta hjálpað alkóhólistanum í meðferð og stuðlað að bata hans eftir meðferð, þá er maki alkóhólistans og börn ef til vill mikilvægust. Fjölskyldan hefur reynslu af alkóhólistanum frá fyrstu hendi, hún veit hversu alvarlegt drykkjuvandamálið er og hversu langt það hefur þróast og hún hefur oft tilfinningarlegt vald til að þvinga alkóhólistann í meðferð. Hins vegar geta djúp tilfinningarleg tengsl fjölskyldunnar við alkóhólistann einnig verið til byrði. Fjölskyldan getur verið orðin svo örvæntingarfull vegna hegðunar alkóhólistans, að hún er lömuð af sorg og sektarkennd og ekki fær um að hjálpa. Hún getur einnig verið svo uppfull af skömm, að hún felur vandamálið og neitar að ræða það við aðra. Eða að hún þekkir orðið svo vel þjáningar alkóhólistans þegar hann stöðvar drykkjuna að hún hikar við að biðja hann um að hætta.
Til þess að hjálpa alkóhólistanum verður fjölskyldan að læra eins mikið og hún getur um þennan sjúkdóm og skilja að hún ber ekki ábyrgð á hegðun alkóhólistans. Ekkert sem hún hefur sagt eða gert hefur valdið því að alkóhólistinn hegðar sér á þann hátt sem hann gerir. Það er sjúkdómurinn sjálfur sem ber ábyrgð á hegðun alkóhólistans og persónuleikabreytingum. Með því að læra um sjúkdóminn, getur fjölskyldan haldið sér í tilfinningarlegri fjarlægð frá vandamálunum og skilið hvers vegna hann hegðar sér eins og hann gerir og hvað hún getur gert til þess að hjálpa honum. Fjölskyldan verður líka að skilja að alkóhólistinn verður að hætta að drekka, annars mun honum stöðugt versna. Að bíða eftir því að hann uppgötvi hversu stórt vandamál hans er, er að bíða of lengi, vegna þess að tengsla sinna við hann og án fjölskyldunnar er alkóhólistinn síst líklegur til þess að fá hjálp.
Fjölskyldan getur látið heimilislækni alkóhólistans vita hversu víðtækt vandamálið er og fengið hann til liðs við sig, til þess að koma alkóhólistanum í meðferð. Makinn getur útskýrt staðreyndir sjúkdómsins fyrir börnunum, svo að þau skilji hegðun foreldris sem er alkóhólistinn og hvað hægt sé að gera til þess að lækna hann. Fjölskyldan getur líka talað við vini og ættingja, útskýrt vandamálin á heimilinu og gengið úr skugga um að þau skilji hversu alvarleg áframhaldandi drykkja alkóhólistans er.
Aðalvandamálið á þessu stigi gæti verið misskilin tryggð. Fjölskyldunni getur fundist hún vera ótrú eða svikul þegar hún skýrir frá trúnaðarmálum eða leggur drög að fundi með alkóhólistanum um vandamálið, án vitundar hans og alkóhólistinn hrópar auðvitað upp ,,svikari” ef hann fær grun um ráðabrugg fjölskyldunnar. En fjölskyldan getur ekki treyst alkóhólistanum til að hjálpa sér sjálfum. Hún sýnir einlæga tryggð sína þegar hún gerir allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa honum að ná bata.
Þegar fjölskyldan lætur sér detta í hug að koma á fundi þar sem hún ræðir við alkóhólistann um sjúkdóminn augliti til auglitis, ætti hún að leita faglegrar ráðgjafar. Sérstakt starfsfólk meðferðarstofnunnar, AA félagar, heimilislæknar, prestar og ráðgjafar um alkóhólisma á vegum bæjarfélaga, geta allir veitt aðstoð við að undirbúa slíka fundi og velja bestu meðferðarstofnunina sem um er að ræða. Eftir að fjölskyldan hefur fengið til liðs við sig vini alkóhólistans, ættingja og heimilislækni, er búin að afla þekkingar varðandi sjúkdóminn og hvernig best sé hægt að meðhöndla hann, og studd faglegum ráðleggingum og úrræðum, þá getur hún loks horfst hreinskilningslega í augu við drykkjuvandamálið. Með því að neita að viðurkenna mótbárur alkóhólistans og undanbrögð, geta ættingjar sagt honum á yfirvegaðan og ákveðin hátt, að hann sé haldinn sjúkdómi, hann þarfnist hjálpar og að hjálpin sé fyrir hendi. Alkóhólistinn verður að vita að fjölskyldan er ekki að blekkja og hún ætti þess vegna að vera viðbúin sérhverri hótun sem hann lætur frá sér fara.
Leiðin er ekki greið. Alkóhólistinn getur afneitað vandamálinu, tryllst eða grátið af sjálfmeðaumkun. Það geta orðið slæm rifrildi og komið upp augnablik þar sem einfaldlega verður of erfitt að halda í vona eða bjartsýni. Vinir og ættingjar sem skilja ekki sjúkdóminn geta álitið að fjölskyldan geri of mikið úr vandamálinu. Fundir með óupplýstum heimilislæknum, geðlæknum og öðru fagfólki sem heldur því fram að alkóhólistinn sé sálfræðilega eða tilfinningarlega brenglaður, frekar en að hann þjáist af lífeðlisfræðilegri fíkn, geta skapað spennu og ringulreið.
Um leið og maki alkóhólistans og börn þekkja staðreyndir sjúkdómsins, geta þau samt sem áður gert eitthvað í málinu; og með því að gera eitthvað fyrir alkóhólistann, hversu erfitt sem það kann að vera, er það þó sársaukaminna heldur en að halda áfram að eiga þátt í hægfara dauða hans. Að hylma yfir, að þykjast ekki sjá eða afneita sjúkdómnum, er örugg aðferð til að framlengja angistina. Ef alkóhólistinn heldur áfram að drekka getur sjúkdómurinn ekki batnað, aðeins versnað.
Vinnuveitandinn
Vinnuveitandi alkóhólistans getur beitt gífurlegum áhrifum á ákvörðun hans um að fara í meðferð. Það er vinnuveitandinn sem getur sett úrslitakostina: Farðu í meðferð eða þú missir vinnuna. Eins og Wilbur Mills sagði einhvern tíma, ,,Alkóhólisti getur verið geggjaður enn hann er ekki glórulaus. Hann fer á hæli hvenær sem er, frekar en að missa vinnuna. Hann verður að hafa peninga til að fjármagna venjur sínar” .
Til þess að nýta vald sitt yfir alkóhólistanum, verður vinnuveitandinn að skilja sjúkdóminn, safna vandlega fyrir alkóhólistanum staðreyndum og síðan útskýra vandlega fyrir alkóhólistanum staðreyndir málsins og þá helst með vitund og leyfi fjölskyldunnar. Slíkir fundir eru árangursríkastir þegar þeim er stjórnað af mörgum aðilum sem alkóhólistinn virðir og þegar staðreyndirnar eru lagðar á borðið án siðferðislegs yfirlætis eða ásakana. Vinnuveitandinn gæti til dæmis sagt:
,,John, síðasta föstudag hirti hópur samstarfsmanna þinna þig upp úr gólfinu á barnum hérna við hliðina og kom þér fyrir í leigubíl. Þú blótaðir og réðst á ökumanninn sem opnaði strax dyrnar og henti þér út. Þú fórst aftur inn á barinn þar sem þú kallaðir aðstoðarstúlku þína hóru og sakaðir hana um að reyna að vera að stela frá þér vinnunni, gafst saklausum áhorfenda á kjaftinn og lagðist síðan meðvitundarlaus fram á borðið. Fyrir þremur vikum fann húsvörðurinn tóma vínflösku undir skrifborðinu þínu. Annar starfsmaður segir mér að þú hafir móðgað viðskiptavin í hádeginu í síðustu viku og sagt honum að ,,hundskast eitthvað annað” hann hringdi í mig í dag og lokaði reikningi sínum hjá okkur. Í síðasta mánuði varst þú veikur í fimm daga; á síðasta ári tókst þú 40 veikindadaga. Ég hef hérna skýrslur frá yfirmanni þínum, kvartanir frá fólki sem vinnur með þér, kvartanir frá viðskiptavinum og lista yfir veikindadaga og slysaskýrslur, og allt þetta samanlagt gefur til kynna alvarlegt vandamál. Við álítum að þú eigir við langvarandi og sífellt versnandi sjúkdóm að stríða og við viljum að þér batni. Þú ert metinn og virtur starfsmaður. En við getum ekki leyft þessu að halda áfram mikið lengur. Þín vegna og fyrirtækisins vegna verðum við að bjóða þér tvo valkosti: Annað hvort ferð þú í meðferð – eða þú ert rekinn. Ég er hræddur um þetta sé allt og sumt.”
Slík framsetning staðreynda stillir alkóhólistanum hreinlega upp við vegg. Hann er ekki lengur fær um að láta líta svo út sem líf hans sé eðlilegt eða að drykkja hans trufli ekki vinnuna. Hin napra staðreynd blasir við og vinnuveitandinn er ekki að grínast. Tilfinningarleg fjarlægð vinnuveitandans frá alkóhólistanum er annað öflugt vopn. Fjölskylda alkóhólistans tekur oft á sig sökina á drykkju hans og þjáist vegna brenglaðra tilfinninga, svo sem sektakennd, vanhæfni og skammar. Margar fjölskyldur eru ekki færar um að yfirgefa alkóhólistann eða þvinga hann út úr húsi, vegna þess að þær óttast að þær tortími honum frekar en hjálpi. Vinnuveitandinn aftur á móti, stendur viðskiptasambandi við alkóhólistann og hann er yfirleitt fær um að halda hlutleysi atvinnurekandans gagnvart honum. Andstætt ættingjum þá er vinnuveitandanum sérstaklega umhugað um fjárhagslega hlið stöðunnar og hann getur fært rök fyrir athugasemdum sínum með staðreyndum úr starfsmannaskýrslum eða skrifuðum skýrslum frá öðrum vinnuveitendum. Hann getur staðfest klukkustundir frá vinnu, veikindadaga, kvartanir og athugasemdir yfirmanns og síðan greinilega og tilfinningarlaust lagt þessar staðreyndir á borðið fyrir alkóhólistann.
Fundir í slíkri hreinskilni með atvinnurekanda eru einnig áhrifaríkir vegna þess að vinnuveitandinn er að fást við alkóhólista sem enn er fær um að mæta í vinnu og sýna merki eðlilegrar hegðunar ef alkóhólistinn er enn í vinnu, þér er hann líklega á frum- eða miðstigi sjúkdómsins. Hann hefur enn eitthvert stolt og snert af persónulegri ráðvendni, líkamleg og andleg heilsa hans er ekki of sködduð og atvinna hans er honum venjulega gífurlega mikilvæg. Allir þessir þættir efla hvöt alkóhólistans til að verða og halda áfram að vera óvirkur.
Því miður þá eru slíkir fundir á vinnustað einungis mögulegir þeim sem eru í vinnu. Til dæmis hefur yfirleitt verið mun erfiðara að sjúkdómsgreina konur sem eru alkóhólistar og meðhöndla þær, vegna þess að ólíklegt er að atferli þeirra verði dæmt af neinum utan fjölskyldunnar, sem gæti haft ástæðu til að beita þrýstingi. Þetta er að breytast þar sem fleiri konur fara út á vinnumarkaðinn, enn fyrir þá alkóhólista sem vinna einir eða heima hjá sér, er hlutdeild fjölskyldunnar í því að þrýsta á meðferð jafnvel enn brýnni.
Læknirinn
Heimilislæknirinn getur verið mikilvægur varðandi meðhöndlun á alkóhólisma, við að hjálpa alkóhólistanum til að gera sér grein fyrir alvarlegum læknisfræðilegum afleiðingum drykkju, að gefa upplýsingar og vísa til árangursríkra meðferðarstöðva, og til að styðja alkóhólistann í óvirkni eftir sérhæfða meðferð. Hin beina læknisfræðilega hlið á hlutverki þeirra lærist fljótt. Til þess að hafa gott lag á sjúklingnum þarf hins vegar meira að koma til heldur en einungis að lina bráð sjúkdómseinkenni. Til þess að vera virkilega hjálpsamur verður læknirinn að afla sér sérstakrar þekkingar á sjúkdómnum, orsökum hans og einkennum eftir því sem hann þróast og læra hvernig leiðbeina skuli sjúkling í meðferð. Vegna þess að fáir læknaskólar bjóða upp á menntun eða þjálfun varðandi alkóhólisma svo nokkru nemi, þá verður hinn almenni læknir að stunda sjálfsnám. Að lesa bókmenntir sem fjalla um alkóhólisma og að mæta á nokkra AA fundi er góð byrjun. Flestir læknar læra samt sem áður fljótt að þeir geta nýtt tíma sinn og hæfileika best með því að vinna náið með sérfræðingum í alkóhólisma, helst einhverjum sem sjálfur er alkóhólisti og hefur náð bata og langri óvirkni og sem starfar mikið bæði á faglegu sviði og hjá AA samtökunum. Með slíkum samskiptum getur læknirinn kynnt sér fljótt ýmsar meðferðarstofnanir, kostnað, framkvæmd við innlagnir og samvinnu starfsfólksins, svo að hann geti gefið alkóhólistanum ráðleggingarvarðandi sérhæfða meðferð. Þegar læknirinn hefur lært um sjúkdóminn er hann í aðstöðu til þess að vera virkilega hjálpsamur. Hann getur :
greint sjúkdóminn á frumstigum hans, þekkt sálræn einkenni eins og þunglyndi, geðvonsku, önuglyndi og kvíða og viðurkennt þau sem merki um hinn raunverulega lífeðlisfræðilega sjúkdóm, alkóhólisma.
forðast máttlitlar viðvaranir eins og þú ættir að minnka drykkjuna og í staðinn sýnt nákvæmlega fram á hvað gerist, haldi alkóhólistinn áfram að drekka.
ráðlagt sérhæfða meðferðarmöguleika og útskýrt kosti og galla hvers um sig.
haldið reglulega sambandi við alkóhólistann og fylgt tilvísun eftir til að ganga úr skugga um að hann komist í meðferð strax og hann er sjúkdómsgreindur.
fengið fjölskylduna til að hjálpa til við að hvetja alkóhólistann í meðferð og síðan hjálpað fjölskyldunni að fást við sérhver vandamál sem upp geta komið eftir meðferð.
varað alkóhólistann við þeirri hættu að neyta hvers konar lyfja, sérstaklega róandi, svæfandi og þunglyndislyfja, sem eru fíknimyndandi og trufla batahorfur á alkóhólisma.
varað alkóhólistann við að neyta hvers konar lyfja eða fæðu sem innihalda alkóhól.
Alkóhólistinn verður næstum því undantekningalaust að ganga í gegnum röð erfiðleika, áður en hann er fær um að gera sér grein fyrir hversu alvarlegur sjúkdómur hans er. Læknirinn getur flýtt fyrir að það gerist, með því að hjálpa alkóhólistanum við að horfast í augu við raunveruleika drykkjuhegðunar sinnar og um leið með því að láta hann vita að hjálp sé fyrir hendi. Mikilvægast er að læknirinn getur neitað að gefast upp á alkóhólistanum. Alkóhólistar mæta oft ekki í pantaðan tíma, afneita þrjóskir drykkjuvandamálinu og halda áfram að drekka þrátt fyrir alvarlegar viðvaranir. Læknirinn verður að skilja að hegðun alkóhólistans stjórnast af fíkn hans og hann er ófær um að hegða sér á eðlilegan og ábyrgan hátt, hvort sem hann er að drekka eða á milli drykkjutúra.
Lögreglumenn, dómarar og lögfræðingar
Lögreglumenn eru í stöðugu sambandi við alkóhólista, taka þá vegna ölvunar við akstur, bifreiðaslysa, vergangs, slagsmála á götum úti, þjófnaður, árása, óstýrilátrar hegðunar og drykkjuá almannafæri. Lögreglumaðurinn er ekki sérfræðingur eða félagsráðgjafi, en fái hann viðeigandi þjálfun, gæti hann lært að alkóhólistar eru ekki fyrst og fremst glæpamenn eða andlega brenglaðir einstaklingar, heldur fórnarlömb fíknar sem þeir standa ráðþrota gagnvart. Viðbrögð lögreglumanns gætu því einkennst af samúð frekar en viðbjóði. Hann mundi skilja að vandamál alkóhólistans verða ekki leyst með annað hvort refsingu eða heitri máltíð og svefnplássi. Í staðinn getur alkóhólistinn þarfnast læknishjálpar til að komast í gegnum fráhvarfseinkennin eða vegna kvilla sem tengjast alkóhólisma. Á bæði beinan og óbeinan hátt, getur lögreglumaðurinn haft áhrif á að alkóhólistinn sjái sjálfan sig sem sjúka manneskju sem þarfnist sérstakrar aðstoðar.
Dómarar vita vel að fólk sem á í lagalegum erfiðleikum, á oft við drykkjuvandamál að stríða. Manneskja sem á að baki feril, eins og t.d. handtökur vegna ölvunar við akstur, bílslys, skilnað og fjárhagsleg vandamál, er mjög líklega alkóhólisti sem þarfnast sérhæfðrar hjálpar. Ef dómarinn hefur grun um alkóhólisma getur hann krafist þess að hinn ákærði verði sjúkdómsgreindur og metinn af hæfum sérfræðingi í alkóhólisma. Ef sjúkdómsgreiningin er alkóhólismi, er dómaranum leyfilegt að nota vald sitt til að koma alkóhólistanum fyrir á ákjósanlegri meðferðarstöð. Dómarinn ætti hvenær sem tækifæri gefst til, að gera kröfu um árangursríka legustöð. Ef göngudeildarstöð er valin þá ætti alkóhólistinn að fá þann fyrirvara, að byrji hann að drekka aftur þá verði hann strax sendur aftur á legustöð. Setja ætti tveggja ára lágmarks reynslutíma og fylgjast ætti vandlega með óvirkni alkóhólistans á meðan á reynslutímanum stendur. Áhrifaríkustu meðferðarstöðvarnar eru þær sem krefjast AA funda á meðan á reynslutímanum stendur.
Upplýstir lögfræðingar eru einnig í aðstöðu til þess að þekkja úr skjólstæðing sem er alkóhólisti og hvetja hann til að fara í áhrifaríka meðferð. Lögfræðingur sem er á varðbergi veit að lagaleg vandamál og vandamál vegna alkóhóls haldast í hendur. Hann getur spurt skjólstæðing sin ýtarlega og persónulegra spurninga og þar sem skjólstæðingurinn býst venjulega við þessum spurningum, svarar hann þeim frjálslega. Hann hlustar á ráðleggingar lögfræðingsins vegna þess að þarfnast lausnar á vandamálum sínum, hann er háður aðstoð lögfræðingsins og hann veit að ef hann neitar að taka ráðleggingarnar til greina, þá bíða hans alvarlegar lagalegar refsingar.
Það er eins með lögfræðinginn og lögreglumanninn, hann er ekki þjálfaður í sjúkdómsgreiningu né ráðgjafi um alkóhólisma, en hann getur aflað sér þekkingar um einkenni alkóhólisma og hann getur vísað skjólstæðingi sínum til alkóhólismasérfræðings til sjúkdómsgreiningar og ráðleggingar. Lögfræðingurinn getur síðan notað öll þau vopn sem hann hefur til umráða, þar á meðal kraftmikla röksemdarfærslu, þolinmæði og þrautseigju, kynni sín af erfiðum afleiðingum endurtekinna brota og þekkingu sína á meðferðarstofnunum sem til staðar eru, og á þann hátt beint alkóhólistanum í árangursríka meðferð.
AA samtökin
AA samtökin eru besta leiðin sem fyrir hendi er til að hjálpa alkóhólistanum að halda sér óvirkum, en þau eru ekki áhrifaríkasta leiðin til að þess að gera alkóhólistann óvirkan í byrjun. AA samtökin eru ekki meðferðarstöð, vegna þess að þau hafa hvorki afvötnunarþjónustu eða starfsfólk, enga læknaþjónustu allan sólarhringinn, enga faglega ráðgjafaþjónustu og ekkert vald til þess að tryggja að sjúklingurinn hlýði meðferðarreglum. Alkóhólisti sem reynir að vera óvirkur með því að leita til AA samtakanna verður að sjá um afvötnun sína sjálfur, sem er erfitt og sársaukafullt ferli sem aðeins fáir alkóhólistar standast án þess að leita á náðir alkóhólsins til að lina fráhvarfseinkennin. Bill Wilson annar stofnenda AA samtakanna, harmaði þá staðreynd að samkvæmt hans mati þá var aðeins einn alkóhólisti af átján fær um að byrja óvirkni í AA samtökunum.
Margir meðlimir AA samtakanna hafa hins vegar ekki traust á hinum formlegu meðferðarstöðvum og ráðleggja því ekki alkóhólistum sem eru að verða óvirkir af eigin rammleik að leita meðferðar á legustöðvum. Sögulega séð eru ástæðurnar fyrir þessu vantrausti skiljanlegar. Meðlimum AA samtakanna eru allt of ljós yfirlætisleg og fordæmandi viðhorf hefðbundinnar heilsugæslu gagnvart alkóhólisma. Þeir hafa verið slævðir með róandi lyfjum, hafa eytt dýrmætum og gagnslausum árum í geðmeðferð og hafa staðið af sér afskiptalaus og jafnvel fjandsamleg fagleg viðhorf gagnvart sér og sjúkdómi sínum. Flestir félagar AA samtakanna trúa því að aðeins alkóhólisti geti hjálpað öðrum alkóhólista, sem eru grundvöllur þeirrar skoðunar að einungis alkóhólistar geti leitt alkóhólista til óvirkni. Þessar skoðanir grundvallast á reynslu, því það er ekki fyrr en þeir ganga í AA samtökin að margir alkóhólistar finna aðra sem virkilega skilja vandamál þeirra og geta hjálpað þeim til að viðurkenna sjúkdóminn og hætta að drekka. Langvarandi andstaða gegn meðferðarstöðvum alkóhólisma virðist hins vegar fara dvínandi með tilkomu stöðva sem byggðar eru upp á skilningi á fíkninni, starfsfólki sem eru óvirkir alkóhólistar og leggja áherslu á AA fundi til þess að halda óvirkni. En það er samt eitthvað vantraust fyrir hendi.
Önnur kenning AA boðskaparins sem vinnur gegn meðferð á frumstigi, er hugmyndin um ,,að komast á botninn” , sem yfirleitt er sett fram á þann hátt, alkóhólistum verði ekki hjálpað fyrr en þeir geri sér grein fyrir vonleysi ástands síns og eru tilbúnir að þiggja hjálp. Þessi skoðun er einnig að breytast, en yfirleitt eru AA samtök þar sem menn hjálpa sér sjálfir og margir félagar halda enn fast við þá hugmynd að alkóhólistinn verði fyrst að reka sig á vandamálin sjálfur og síðan að koma sér í meðferð.
Loks koma AA samtökin að takmörkuðu gagni við að fá alkóhólistann í meðferð, vegna þess að þau skortir áhrifamátt. Ólíkt makanum, vinnuveitandanum, lækninum eða lögfræðingnum, þá hafa AA samtökin ekkert vald eða þau áhrif, sem til þarf til þess að þrýsta á alkóhólistann að fara í meðferð, með hótunum um jafnvel enn verri kost.
Hins vegar búa AA félagar yfir þekkingu reynslunnar. Þeir hafa þjáðst af sjúkdómnum og þeir geta sagt alkóhólistanum við hverju megi búast, haldi hann áfram að drekka. þar sem AA félagar taka eindregnari afstöðu með því að hvetja aðra til að horfast í augu við alkóhólistann og hjálpa honum í meðferð áður en hann nær botninum, þá hefur fjölda alkóhólista verið hlíft við þjáningu og niðurlægingu seinni stiga sjúkdómsins.
Vinir
Vinirnir er oft alkóhólistanum meira til skaða en hjálpar. Þeir eru oft haldnir þeim misskilningi að alkóhólismi sé tilfinningalegur veikleiki og eru þess vegna tregir til að setja stimpilinn ,,alkóhólisti” á einhvern sem þeim þykir vænt um og þeir virða. Þeir eru einnig vanir því að verja vini sína fyrir gagnrýni vegna þess ,,að það er það sem vinur á að gera” . Með því að láta hjá líða að gera sér grein fyrir því að alkóhólistinn á við alvarlegan og hugsanlega banvænan sjúkdóm að stríða, þá getur vinurinn í rauninni óbeint þrýst alkóhólistanum til þess að halda áfram að drekka, til þess að sanna að hann sé í raun og veru ,,eðlilegur” drykkjumaður.
Jafnvel þótt vininn langi til að hjálpa, þá finnst honum hann oft vera gagnslaus og hjálparvana. Hann þreifar sig kannski hikandi áfram, sem hefur það eitt í för með sér að alkóhólistinn verður fjandsamlegur og fer í varnarstöðu. ,,hvað get ég gert?” spyr hann ef til vill. ,,Það er ekki í mínum verkahring að segja honum að hætta að drekka!”
Samt geta vinir alkóhólistans hjálpað. Með réttar upplýsingar að vopni getur vinur hjálpað alkóhólistanum til að gera sér grein fyrir vandamálinu og horfast í augu við það. Hins vegar verður vinurinn einnig að læra hvernig nálgast skuli alkóhólistann. Ef hann ræðst á hann fer alkóhólistinn í varnarstöðu og ekkert gott kemur út úr umræðunni; ef hann nálgast hann með samúð og skilningi, þá er miklu meiri líkur til að alkóhólistinn hlusti og hefjist handa. Vinir geta einnig talað við fjölskyldu alkóhólistans og hvatt hana til þess að leita aðstoðar. Þeir geta neitað að láta réttlætingar of afneitanir alkóhólistans hafa áhrif á sig og gert alkóhólistanum ljóst að hann eigi við vandamál að stríða og þarfnist hjálpar. Annað hvort leiðir alkóhólstinn ráðleggingar vinarins hjá sér, eða hann reiðist vini sínum svo illilega fyrir að ógna áframhaldandi frelsi sínu til drykkju, að vinslit geta orðið. En það er þess virði að taka áhættuna. Vinur sem neitar að styðja áframhaldandi drykkju alkóhólista, lýsir með því umhyggju sinni fyrir lífi alkóhólistans. Þessi umhyggja getur haft úrslitaáhrif.
Kunningjar og félagar
Sú manneskja sem hvetur alkóhólista til þess að leita sér aðstoðar, þarf ekki að vera náinn vinur, ættingi eða einhver með formlegt eða dulið vald yfir alkóhólistanum, svo sem dómari eða læknir. Mörgum alkóhólistum hefur verið leiðbeint í meðferð af kunningjum eða félögum, svo sem kennurum, leigubílstjórum, starfsfólki sjúkrahúsa eða húsaleigusölum. Það sem ræður úrslitum um það hvort einstaklingur getur hjálpað, er ekki hver hann er heldur hversu vel hann skilur sjúkdóminn. Viðhorf hans til alkóhólistans hefur einnig áhrif á vilja alkóhólistans til að hlusta á og bregðast við ráðleggingum. Leigubílstjóri sem er samúðarfullur og vel að sér, getur verið hjálplegri virkum alkóhólista heldur en óupplýstur læknir, sem vísar alkóhólistanum til geðlæknis eða gefur honum róandi lyf og sendir hann heim. Húsaleigusali sem sest í dómarasæti og býður leigjandanum að velja á milli brottrekstrar og meðferðar, gerir meira til þess að þrýsta á viðurkenningu vandamálsins heldur en konan sem kaupir áfengi handa eiginmanni sínum á hverjum degi vegna þess að hún veit að honum líður betur þegar hann drekkur.
Staðreyndin er að hver sem er getur aðstoðað við að koma alkóhólistanum í meðferð. Grundvallaraðferðir við það eru skilningsrík þekking á sjúkdómum, skilningur á því að alkóhólistinn er líkamlega og tilfinningalegur sjúkur og að hegðun hans stjórnast af fíkn hans, viðurkenning á þeirri staðreynd að hann er ófær um að hjálpa sér sjálfur, að geta verið tilfinningalega óháður og neitað að taka þátt í ótta, sektarkennd, skömm, reiði eða meðaumkun.
Efni tekið úr AA bækling