Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðing er manninum frumnauðsyn.  Sjálfsvirðing segir til um hvernig okkur líður sem manneskjum á hverjum tíma, þ.e.a.s. í nútíð. 

Stundum spyrjum við einhvern hvernig líðan hans sé og okkur er svarað á þessa leið : Ég ætla ekki að segja þér hvernig mér leið þegar ég kom of seint í kirkjuna á brúðkaupsdaginn minn,  slíkt svar er ekki svar frekar en þetta : Ég skal segja þér hvernig mér líður þegar ég er búin að vera án víns í eitt ár.  Það er heldur ekki svar, að spá fram í tímann. 

Svara ber hér og nú ef nokkurt gagn á að vera í því.  Okkur líður nefnilega vel eða illa og jafnvel einhvers staðar þar á milli.

Við höfum yfirleitt fundið tilfinningum okkar nöfn, þannig að við getum merkt þær.  Ef við segjum að okkur líði vel, þá getur það merkt t.d. að við séum ánægð, södd, glöð, kát og margt fleira.  Ef við segjum að okkur líði illa, þá getur það þýtt að við séum taugaóstyrk, kvíðin, þunglynd, einmana, sakbitin, reið, hefnigjörn eða í heimsins mestu fýlu.

Of margir unglingar sjá sjálfan sig ekki í réttu ljósi og eru með sjálfsmynd í molum.  Þú glímir við ýmislegt í lífinu en mikilvægasta verkefnið í lífinu er að móta sjálfan þig og styrkja sjálfsmynd þína og það verkefni tekur alla ævi.  Oft erum við óánægð með ljósmynd af okkur, við erum of feit, of grönn, of hvít, horfum asnalega, brosum asnalega, með skrýtinn munnsvip, með lokuð augun og svona mætti lengi telja. 

Það sama á við um sjálfsmynd, við erum sjaldan fullkomlega ánægð.  Jákvæð sjálfsmynd ætti að vera markmið þitt.  Þeir sem hafa jákvæða sjálfsmynd eru öruggir með sjálfa sig, taka auðveldlega hrósi og gagnrýni og eiga auðveldara með að takast á við lífið.  Fjölskylda vinir og fjölmiðlar hafa mikil áhrif á hugmyndir þínar um hver þú ert, hvernig þú eigir að vera, hvað þú eigir að gera, hvernig þú eigir þú eigir að hugsa.

Vertu samkvæmur sjálfri(um)  þér og framkvæmdu í takt við tilfinningar þínar og skoðanir, ekki í takt við skoðanir annarra eða til að gleðjast öðrum.