Ný áskorun

Ertu að takast á við einhver verkefni sem þú ert þreyttur á? Ertu að vinna að einhverju takmarki en gleðin er farin úr vinnunni? Þegar við tökumst á við ný verkefni eða áskoranir er algengt að S-in þrjú banki upp á í ferlinu.

- Skömmin – hvað held ég eiginlega að ég sé? Það á örugglega eftir að koma í ljós að ég klúðra þessu. Ég er svo fljótfær – af hverju var ég að koma mér út í þetta. Ég er nú meiri vitleysingurinn!

- Samanburðurinn – ég á aldrei eftir að gera þetta eins og Jóna. Hún er einhvern veginn alveg með‘etta og er alltaf svo örugg með sig. Tek eftir því að það er ótrúlegasta fólk að hvetja hana áfram. Hvað er ég eiginlega að spá – er svo ekki þarna!

- Skortshugsunin – ég hefði auðvitað átt að æfa mig betur og svo vantar mig aðeins meiri reynslu. Hefði þurft smá meiri tíma, eitt námskeið í viðbót – væri örugglega betra að bíða fram á haust......

Það er ekkert óeðlilegt að við upplifum þessa hluti þegar við stöndum frammi fyrir nýjum verkefnum. Það eru alltaf einhverjir sem eru tilbúnir til að fóðra S-in þrjú þess vegna veljum við hvert við leitum eftir stuðning.

Við þurfum að muna að sækja hann til þeirra sem vita um hvað þú ert að tala, hafa stigið þarna út og látið verkin tala og styðja þig því í ferlinu. Við leitum til þeirra sem stendur ekki ógn að því sem við erum að gera því þetta er jafnvel líka þeirra draumur og þeir eiga hvorki stuðning fyrir sjálfan sig né aðra. Leita til þeirra sem hafa sjálfir haft kjark til að takast á við verkefni þrátt fyrir að S-in þrjú hafi verið ferðafélagar, þeir láta ekki skömmina, samanburðinn eða skortshugsun stoppa sig.

Svo leitum við stuðnings til þeirra sem vita að mistök eru hluti af því að takast á við ný verkefni á sama tíma og það þarf kjark til að halda áfram!

Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni.  Í Hamingjuhorninu eru fróðlegir og innihaldsríkir pistlar um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum, ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur síðuna hennar , en hún leifði ÞÚ skiptir máli að nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.