Að takast á við sjálfan sig

Ég er eiginlega nokkuð viss um að mikilvægasta verkefni lífsins snýst um að takast á við sjálfan sig. Stundum líðum við áfram og erum ekki mikið að spá í þessa hluti, en svo koma þessi tímabil sem reynir á. Hæfni okkar til að takast á við þessi tímabil fer oft eftir því hvaða kröfur við gerum til okkar sjálfra. Breyttar aðstæður, áföll, ágengni annarra og hugsanavillur eru meðal þess sem hefur neikvæð áhrif á okkur og hjá flestum birtast þessar áskoranir okkur á einn eða annan hátt með reglulegu millibili.

En þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum stöndum við gjarnan frammi fyrir því að þurfa að stíga inn í óttann og skrefið í átt að sjálfum okkur. Það er ekki auðvelt að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum hver maður er. En í því felst engu að síður mikið frelsi - frelsið til að geta verið maður sjálfur. Það er ekki auðvelt og sanngjarnt gagnvart sjálfum sér og öðrum að fara í gegnum lífið með grímu í djúpri ósátt við sjálfan sig.

En sannleikurinn er sá að þegar við tökum niður þessa grímu uppgötvum við frelsið sem fylgir því að hætta að reyna að búa til einhverja mynd af okkur sem er ekki sönn – og þegar við höfum öðlast frelsi fyrir gagnvart okkur sjálfum aukast hæfileikar okkar til að tengjast öðrum á heilbrigðan hátt.

Í raun og veru eigum við það til að vera mjög ósanngjörn gagnvart okkur sjálfum þar sem við í raun höfnum því hver við erum en reynum í staðinn að fylla upp í tómleikann sem þá myndast með alls kyns hlutum, fólki, hugmyndum, hugsunum og athöfnum. Erum óttaslegin yfir því að vera hafnað þegar samfélagið kemst að því að við erum ekki fullkominn þrátt fyrir að við vitum að það eru óraunhæfar og ómanneskjulegar kröfur. Við ætlumst aldrei til fullkomnunar af fólkinu í kringum okkur en samt eigum við það til að gera þessar kröfur á okkur sjálf. Sá sem leitar eftir fullkomnun er ekki í tengslum við sjálfan sig og sá sem er ekki í tengslum við sjálfan sig á oft í óheilbrigðum tengslum þegar kemur að ást og mat.

Þegar við erum ósátt við okkur sjálf fer oft mikil orka í að reyna að breyta öðru fólki, umhverfi okkar og aðstæðum. Þá hvílum við ekki sátt í eigin skinni og erum sífellt að reyna að búa til einhvern heim sem á að gera líf okkar betra. Erum nokkuð viss um að það verði allt betra ef makinn breytist eða þegar við kaupum nýjan bíl, nýtt hús eða nýja skó, losnum við nokkur kíló, börnin flytja að heiman, börnin flytja aftur heim, fáum stöðuhækkun, nýja vinnu. Við erum dómharðari á aðra og gleymum því þá gjarnan að sá sem dæmir aðra er sá sem dæmir sjálfan sig verst.

Við getum líka dottið í þá gryfju að deyfa okkur með víni, fíkniefnum, mat, líkamsrækt, Facebook eða öðru þar sem við þurfum ekki að takast á við ískaldan og erfiðan hversdagsleikann og þann hluta af okkur sem við erum bara alls ekki hrifin af. En þegar við deyfum dökku stundirnar erum við í leiðinni að deyfa þær björtu - vítahringur.

Þegar við samþykkjum okkur og lífið, já hættum að leitast við að vera eitthvað annað en við erum, og upplifum sátt. Þá skapast ró og innri kyrrð og lífið verður mun einfaldara þar sem við eigum auðveldara með að nálgast fólk tilfinningalega og leyfum okkur að tengjast öðrum á heilbrigðum forsendum. Þá getum við hælt og hrósað öðrum og stendur ekki ógn af þeim sem gengur vel í lífinu. Þurfum ekki að tala aðra niður til að upphefja okkar eigið ágæti. Verðum betri uppalendur og leyfum börnum okkar að reka sig á í stað þess að vera þroskaþjófar sem stjórna og stýrast í öllu. Erum tilbúinn að læra af lífinu, stækka okkur sjálf og aðra í leiðinni.

Líklega er það lífstíðarverkefni að vera trúr og heiðarlegur sjálfum sér og öðrum en ótti við álit annarra kallar oft fram óheiðarleika, lygi, ýkjur og dramatík. Við eigum þetta eina líf og því mikilvægt að við lifum því eins vel og við getum. Með því að staldra við og skoða hvað það er sem við getum gert betur og styrkja okkur sjálf í framhaldi af því, erum við kannski að taka fyrsta skrefið en jafnframt það mikilvægasta í átt að betra lífi - viðurkenna að mikilvægasta sambandið í lífinu er við okkur sjálf!

Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni.  Í Hamingjuhorninu eru fróðlegir og innihaldsríkir pistlar um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum, ég hv et ykkur til að kynna ykkur síðuna , en hún leifði ÞÚ skiptir máli podcastinuað nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.