Segðu já við lífinu
Á þessum tíma árs skoða ég gjarnan árið sem var að líða, hvaða áskoranir ég tókst á við, hvað kom mér á óvart, hvað fékk mig til að brosa, hverjir voru virkir í lífi mínu og hvað vakti hjá mér ótta. Mér finnst gott að skoða þetta á hverju ári og hvort ég sé að falla í sömu pyttina aftur og aftur. Óttinn minn er sá sami og hjá flestum öðrum – ótti við höfnun. Ekki frá einhverjum sérstökum einstaklingi heldur frá lífinu. Þetta er sammannleg tilfinning sem því miður getur haft þau áhrif að maður tekur síður áhættur og fer á mis við að kanna lífið. Ímyndaðu þér hvernig það væri að upplifa líf án óttans við að elska eða að vera ekki elskaður. Að þú værir ekki að rogast með ótta við höfnun og hefðir ekki þessa miklu þörf fyrir að vera samþykktur hvort sem það tengist vinnu eða einkalífi. Getur þú ímyndað þér hversu mikið frelsi það væri að lifa lífinu án óttans við að taka áhættur og prófa nýja hluti, án óttans við að missa, án óttans við að lifa - án óttans við að deyja.
Ég finn svo vel að þegar ég er í góðu jafnvægi þar sem ég vanda mig í lífinu hvort sem það tengist samböndum, mataræði, hreyfingu, vinnu eða öðru, þá er óttinn minni. Þá finn ég mátt minn og megin út frá því hver ég er og hvað ég geri. Þegar hallar á og ég set of mikið af eggjum í sömu körfuna þá fyllist ég meiri ótta. Ef ég gerið væntingar um að einhver annar á að gera mig hamingjusama 24/7 þá keyri ég væntingastuðulinn upp, verð þar af leiðandi fyrir vonbrigðum og les þá í kolrangt í aðstæður. Ef vinnan á að gefa mér þá lífsfyllingu sem ég þrái þá er hætta á því að ég vinni mig í kaf og klessi á vegg og ef ég er viss um að líkamsræktin og kílóin sem þurfa að fara séu algjörlega málið, verð ég þrællinn í ræktinni sem má ekki finna til gleði fyrr en ég hef náð markmiðun mínum (sem eru yfirleitt óraunhæf og ég gefst upp).
En það sem verra er þegar maður setur öll eggin í sömu körfuna þá segir maður yfirleitt NEI þegar manni er boðið að koma í aðra körfu. Ég er svo upptekin, mikið að gera í vinnunni, hann/hún gæti þurft á mér að halda, þarf að fara að sofa kl. 20:30 – ræktin sjáðu 😎 Þess vegna verður þetta ár hjá mér, rétt eins og árið 2018 – ár JÁ sins 😊
Ég ætla að segja JÁ takk þegar tækifærin eru þarna sveimandi í kringum mig og ég finn að mig langar en þori ekki. Ég ætla að segja JÁ þegar mér er boðið á meðal fólks í stað þess að telja sjálfri mér trú um að það sé best að vera heima undir sæng. Ég ætla að segja JÁ þegar vinkona segir „eigum við að drífa okkur í bíó“ því það er skemmtilegra í bíó saman, en að horfa einn heima 😊
Ég ætla að segja JÁ við kaffihúsaspjalli og hádegisverðahittingum og göngum á fjöll. En bara svo það sé sagt – ekki að þetta sé allt í boði í einni viku, en það sem ég tel hér upp eru þættir sem hafa staðið mér til boða í gegnum árin en ég verið of upptekin, of þreytt, of samviskusöm í að vinna, og stundum bara leiðinleg hahaha :-) eða bara verið á bólakafi í einhverri körfunni.
Nú hugsar einhver (ég bara finn það), má maður aldrei slaka á! Svo sannarlega en ég er líka meðvituð um að maðurinn er tengslavera og ég bý ein og mjög auðvelt að telja sjálfri mér trú um að ég hafi ekki tíma í þessi tengsl. Ef ég er ekki meðvituð þá get ég mjög auðveldlega búið mér til tvær körfur – vinnan og tölvan. Mig langar ekki til þess. Ef ég get notað að meðaltali 2-3 klst á dag í tölvunni heima – já eftir vinnu, þá er rými fyrir meiri tengsl. Rannsóknir sýna, að félagsleg tengsl eru okkur svo mikilvæg og auka lífsgæðin, en þegar okkur líður illa og upplifum einmanaleika, er hætta á að við lokum okkur af þegar við þurfum mest á tengslum að halda. Þrátt fyrir að það geti verið gott að eiga tíma með sjálfum sér þá megum við heldur ekki gleyma að andlegir erfiðleikar (þunglyndi o.fl) þrífast á einangrun og einmanaleika. Þegar við förum í gegnum erfið tímabil og erum gjörn á að segja NEI er gott að leita til vonarbera.
Vonarberar geta verið þeir sem kenna okkur að treysta aftur – já manneskjan sem þú treystir fyrir þér, og heldur voninni á lofti. Þegar við upplifum vonleysi eða örvæntingu getur það átt rætur sínar í djúpri sorg sem við höfum upplifað og varnarviðbrögðin eru að loka á tengsl – sem er vörn gegn frekari vonbrigðum, svikum eða ástarsorg. Að velja það að vona aftur er skref áfram – og fyrstu skrefin eru erfið, vindurinn í fangið og stundum er eins og við ofurefli að etja. En vonin felst í því að þú leyfir þér að trúa að einn daginn muni storminn lægja – að farir aftur að segja JÁ við lífinu!
Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni. Í Hamingjuhorninu eru fróðlegir og innihaldsríkir pistlar um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum, ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur síðuna hennar , en hún leifði ÞÚ skiptir máli að nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.