Hvernig er orkan?
Kannski skrýtið að byrja pistilinn á þessari spurningu en ástæðan er einfaldlega sú að mér finnst margir vera að tala um orkuleysi og ég tilheyri sjálf þeim hóp. Í dag mundi ég eftir grein sem ég las fyrir rúmu ári síðan, There’s a Name for the Blah You’re Feeling: It’s Called Languishing. Það er Adam Grant sálfræðingur og rithöfundur sem skrifaði greinina en hann notaði orðið languishing um þá líðan sem fólk var að upplifa eftir covid. Ég kýs að kalla þetta vanmegnun en mjög mismunandi hvernig þetta orð er þýtt. Aðal málið er að maður skilji hvað átt er við. Adam útskýrði þetta sem ástand þar sem vanti svolítið gleðina og orkuna og lífið svolítið flatt. Þetta er „beige“ liturinn í litaspjaldinu, sem sagt, allt svolítið litlaust. En nú er komið rúmlega ár síðan covid lauk og ég er nú bara hálf feimin að skrifa þetta orð hér…..engin vill tala um covid en ég vildi samt koma þessu til ykkar.
Líkaminn okkar er vel til þess fallinn að verja okkur fyrir ógnum og ekki ólíklegt að við höfum verið meira eða minna í „fight or flight“ stöðu í tvö ár. Alltaf í ákveðinni viðbragðsstöðu og ósjálfrátt fór líf okkar að snúast um sóttvarnir, einangrun, veikindi, áföll o.fl. Engin átti von á því að vera í viðbragðsstöðu í tvö ár og svo þegar þessu var loksins lokið tók við léttir og gleði en líka fullt af óuppgerðum tilfinningum. Með gleði, létti og spennu fyrir framtíðinni stukkum við svo aftur út í áreitisdrifið nútímasamfélag en spurning hvort andinn hafi fylgt með.
En svo kom í ljós að það var fólk út um allan heim að upplifa vanmegnun og ég sé þetta bara þannig að manneskjan getur tekist á við hin ótrúlegustu verkefni í ákveðinn tíma en þarf svo líka tíma til að jafna sig að þeim loknum. Ég er óþolinmóð manneskja og ekki endilega til fyrirmyndar þegar kemur að því að stíga varlega til jarðar. Ég hef því þurft að skoða þetta hjá mér síðasta árið því ég finn að orkan er bara ekki sú sama í dag og ég er vön og ég hef þurft að taka tillit til þess.
Það sem skiptir máli þegar við upplifum vanmegnun er að skoða hvenær við komumst í flæði. Hvaða verkefni eru það sem þú kemst í þannig hugarástand að þú gleymir tíma og rými. Flæði hefur jákvæð áhrif á okkur bæði andlega og líkamlega og er verndandi þáttur gegn streitu. Náttúran er heilandi og getur hjálpað okkur að ná upp orku. Hreyfing skiptir auðvitað máli og við þurfum ekki að hreyfa okkur nema í 20 mínútur til að auka blóðflæði til heilans og bæta skapið, minnið og sköpunargáfuna. Svo eru frí og pásur mikilvægar og leyfa sér að segja nei við því sem er of orkufrekt inn í lífið núna.
Ef þú ert að upplifa orkuleysi þá hvet ég þig til að skoða hvað skiptir þig máli núna og hvaða gildi eru mikilvæg fyrir þig? Áskorun, hvíld, samskipti, skemmtileg verkefni, verðugt markmið eða eitthvað annað. Ef það er eitthvað sem við tókum með okkur eftir þetta tímabil þá var það þrautseigja, standa með sjálfum sér og fólkinu okkar, sýna hvort öðru stuðning og vera meðvituð um hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu. En væri ekki frábært ef við hefðum líka lært að okkur líður allskonar og mikilvægt að geta deilt því með öðrum. Það er svo mikil frelsun að geta sagt hvernig manni líður án þess að vera í samanburði við aðra og gefa sjálfum sér leyfi að haga lífi sínu miðað við þá líðan.
Staðreyndin er sú að orkuleysi tengist oftar en ekki uppsöfnuðum vanda og kemur í kjölfar verkefna sem við höfum tekist á við. Við gerum miklar kröfur til okkar sjálfra og upplifum örugglega flest að aðrir geri líka of miklar kröfur á okkur. En þegar við höfum öll farið í gegnum svipað verkefni þá er úrvinnslan kannski erfið því við förum frekar að miða okkur við aðra og gefum okkur síður leyfi til að vera öðruvísi en fjöldinn.
Ég er sjálf að nýta mér göngutúra, dans í stofunni heima (Body Groove) og Yoga Nidra til að endurheimta orkuna. Svo á ég tveggja ára barnabarn sem ég fæ að leika við reglulega og það er ein besta núvitundin mín þessa dagana. Þarf alveg að hafa fyrir þessu og langaði að deila með ykkur því ég er viss um að það tengja fleiri við þessa líðan.
Gangi þér vel!
Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni. Í Hamingjuhorninu eru fróðlegir og innihaldsríkir pistlar um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum, ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur síðuna hennar , en hún leifði ÞÚ skiptir máli að nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.