Einmana

Er ég einmana þegar ég er ein eða kannski bara þegar ég er í kringum fullt af fólki sem ég finn mig ekki með? Það skiptir máli fyrir andlega og líkamlega heilsu að vera í góðum og uppbyggilegum tengslum við aðra en upplifun okkar fer líka mikið eftir því hvernig okkur líður sjálfum. Þannig hefur verið sýnt fram á að þeir sem finna fyrir einmanaleika eru oftar en ekki í svipuðum félagslegum tengslum og aðrir en upplifa sig samt einangraða.

Það er ekkert síður skynjun okkar sem skiptir þarna máli, ekki fjöldi þeirra sem við umgöngust. Ef við upplifum óöryggi með tilheyrandi vanlíðan þá er mikill hætta á að við finnum fyrir einmanaleika þrátt fyrir að vera í kringum fjölda manns – skynjunin er skökk. Í óöryggi okkar einblínum við á neikvæða þætti og hugur okkar er upptekin af því sem sundrar í stað þess sem sameinar.

Þannig getum við verið einmana í hjónabandi, meðal vina og á vinnustað. Þú ert meðal hóps en upplifir þig ekki sem hluta af hópnum. Þegar okkur stendur ógn af fólkinu í kringum okkur í stað þess að upplifa samkennd eða samvinnu, getum við upplifað mikinn einmanaleika – ég er sá/sú sem passar ekki hér inn. Þá er hætta á að við veljum okkur frá félagslegum viðburðum og einöngrumst smám saman sem getur leitt af sér þunglyndi og aðra andlega erfiðleika. Maður getur vel séð fyrir sér að þarna geti auðveldlega myndast vítahringur þar sem sá sem er einmana upplifir erfiðar tilfinningar og á oftar í neikvæðum samskiptum við aðra. Sí endurtekin neikvæð framkoma gagnvart vinum sínum og fjölskyldu sem eykur enn frekar líkur á einangrun og óöryggið verður meira.

Þar sem félagsleg tengsl skipta svo miklu máli (og þegar okkur langar ekki að hitta neinn þurfum við líklega mest á því að halda) er ekki úr vegi að skoða hvað við getum gert til að bæta okkur þegar kemur að þessum mikilvæga þætti varðandi andlega heilsu. Þegar við erum í kringum hóp af fólki og upplifum okkur einmana gerist það yfirleitt ómeðvitað. Við þurfum því að vera tilbúin að skoða okkur sjálf og við hvaða aðstæður við upplifum þessar tilfinningar. Hvar var ég stödd þegar mér leið svona og getur verið að ég hafi lesið svona í aðstæður út frá eigin líðan? Hvaða hugsanavillur eru þarna á ferðinni og hvað er það sem ég óttast? Treysti ég ekki hópnum fyrir mér?

Það er með þetta eins og annað, það mun ekki vera einhver annar sem auðveldar þetta fyrir okkur. Við þurfum að vera tilbúin að sýna öðrum áhuga og smám saman stíga þarna út og taka okkur pláss og það er ekki fjöldinn sem skiptir þar máli. Við þurfum líka að vera tilbúin að skoða hvort við séum að mynda tengsl þegar við höfum tækifæri til þess. Þegar við bjóðum fólki góðan daginn, horfum í augun á næsta manni og brosum erum við að búa til þessu litlu en engu að síður mikilvægu tengsl sem skipta máli þegar á heildina er litið. Erum við meðvituð um líkamstjáninguna okkar þannig að við lokum ekki á öll tengsl með því að vera föst með höfuðið ofan í símanum þegar við gætum í staðinn tekið inn það sem er að gerast í umhverfinu?

Besta félagslega virknin er þegar við upplifum eitthvað jákvætt með fólkinu sem er í kringum okkur. Í rannsókn sem var gerð hjá hermönnum kom í ljós að þeir töldu jákvæða upplifun vera þegar þeir áttust við í einhverskonar keppni. Fékk mig til að sjá golf-félaga, hlaupa-félaga, spila-félaga ofl. í nýju ljósi þar sem allir njóta góðs af. Þrátt fyrir að „vinna“ ekki félagann í hlaupi þá fórstu allavega út að hlaupa á sama tíma og þú varst að styrkja tengslin.

Maðurinn einn er ei nema hálfur,

með öðrum er hann meiri en hann sjálfur. (Einar Ben)

 

Þessi grein er eftir hana Önnu Lóu Ólafsdóttir... en Anna Lóa er menntuð náms,- og starfsráðgjafi og markþjálfi og jafnframt stofnandi Hamingjuhornsins á fésbókinni.  Í Hamingjuhorninu eru fróðlegir og innihaldsríkir pistlar um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum, ég hvet ykkur til að kynna ykkur síðuna , en hún leifði ÞÚ skiptir máli að nota greinar eftir sig og þökkum við henni afar vel fyrir það.